Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

1.500 tonn af hvalaafurðum á leið til Japans

17.10.2018 - 05:13
Mynd með færslu
Langreyður skorin í Hvalfirði. Mynd: RÚV
Um 1.500 tonn af hvalkjöti og öðrum hvalaafurðum voru send með frystiskipi frá Hafnarfirði áleiðis til Japans síðastliðinn laugardag. Morgunblaðið greinir frá þessu og hefur eftir Kristjáni Loftssyni, framkvæmdastjóra Hvals hf., að skipið sigli svonefnda norðausturleið til Japans, það er að segja um Norður-Íshaf. Það sé mun styttri leið en sú sem venjan hefur verið að fara, nefnilega suður fyrir Afríku og um Indlandshaf.

Farmurinn samanstendur eingöngu af afurðum frá því í sumar, segir Kristján, og er skipið fulllestað. Eitthvað er þó enn eftir í frystigeymslum Hvals hf. að sögn framkvæmdastjórans, þar á meðal nóg af rengi fyrir þorrann. 146 hvalir veiddust á þeim 98 dögum sem hvalvertíðin stóð í sumar, 144 langreyðar og tveir blendingar langreyðar og steypireyðar.