1.500 krónur í Vaðlaheiðargöng

11.12.2018 - 10:38
default
 Mynd: RÚV
Ein ferð á fólksbíl í gegnum Vaðlaheiðargöng kemur til með að kosta 1.500 krónur. Ódýrasta gjaldið, sem fæst með því að kaupa 100 ferðir í einu, eru 700 krónur fyrir hverja ferð. Formleg opnun verður 12. janúar, en reynt verður að opna göngin fyrir umferð í lok desember.

Gjaldskrá fyrir Vaðlaheiðargöng hefur verið birt á vefnum veggjald.is. Verðflokkarnir eru tveir, ökutæki undir 3,5 tonnum að þyngd og ökutæki yfir 3,5 tonnum að þyngd. Stök ferð á fólksbílum kostar 1.500 krónur en það kostar 6.000 krónur að keyra atvinnutæki í gegn.

Á vefnum er boðið uppá að skrá ökutæki og kaupa ýmist eina ferð, 10 ferðir, 40 ferðir eða 100 ferðir. Afslátturinn eykst eftir því hve margar ferðir eru keyptar. Hægt er að kaupa 100 ferðir á 70 þúsund krónur. 

Reyna að opna fyrir áramót

Nú stendur yfir blaðamannafundur með forsvarsmönnum Vaðlaheiðarganga hf. Þar kom fram að gjaldtaka hefjist 2. janúar. Í fréttatilkynningu frá félaginu kemur fram að formleg opnunarhátíð verði 12. janúar 2019 en mögulega verði unnt að opna göngin fyrir áramót, en það ræðst af því hvernig lokafrágangur gengur. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Frá blaðamannafundinum

1.000 króna álag ef ekki er greitt strax

Veggjöld verða einungis innheimt rafrænt. Á vefnum geta notendur búið til sitt svæði, skráð númer ökutækis og tengt við greiðslukort. Hægt verður að skrá allt að þrjú ökutæki á hvert greiðslukort. Myndavélar í göngunum nema númer ökutækja og skuldfærist veggjaldið þá sjálfkrafa. Ef ökutæki er ekki skráð fyrirfram og greitt fyrir ferðina, eða greitt innan þriggja klukkustunda frá því ekið er í gegn, verður veggjaldið innheimt af skráðum umráðamanni ökutækis. Þá bætist við 1.000 króna álag. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV