Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

150 milljarða niðurfelling húsnæðislána

30.11.2013 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Verðtryggðar húsnæðisskuldir upp á 150 milljarða verða færðar niður á næstu fjórum árum, samkvæmt tillögum sérfræðingahóps sem voru kynntar í dag. Það verður bæði gert með beinum niðurfellingum og í gegnum séreignarlífeyrissparnaðinn. 80 prósent heimila finna beint fyrir niðurfellingunni.

Þingflokkar stjórnarflokkanna fengu kynningu á tillögunum í morgun. Framsóknarmenn funduðu í Aðalstrætinu klukkan 11 og Sjálfstæðismenn héldu svo fund í Valhöll klukkan 12. Fréttastofa hefur upplýsingar um að ekki hafi allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins verið sáttir við tillögurnar.

Þær voru síðan kynntar á blaðamannafundi í dag. Þar fór Sigurður Hannesson, formaður sérfræðihópsins, yfir tillögurnar.  Þeim má í stuttu máli skipta í tvennt - beina leiðréttingu og skattleysi séreignarsparnaðar. Beina leiðréttingin samsvarar verðbótum umfram 4,8 prósent frá desember 2007 til ágúst 2010. Þeim hluta er breytt í leiðréttingarlán sem ríkið borgar af. Hin leiðin felur í sér að séreignargreiðslur renni inn á höfuðstól lánsins - bæði 4% iðgjald launþega og 2% mótframlag atvinnurekanda. Þetta á að koma til framkvæmda um mitt næsta ár.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir aðgerðirnar hafa bein áhrif á 80 prósent íslenskra heimila.  „Bein áhrif ná til 80 prósent íslenskra heimila eða þar um bil, en óbeinu áhrifin munu ná til allra íslenskra heimila, meðal annars áhrif á hagvöxt og aukinn kaupmátt. Við erum að kynna hér til sögunnar aðgerðir sem eru risastórt skref fyrir heimilin í landinu inn í bjartari og betri tíma.“

Dæmi er tekið af láni með eftirstöðvar upp á 22,5 milljónir króna um mitt næsta ár. Greiðslubyrðin af því er tæp 109 þúsund krónur á mánuði. Tæpar þrjár milljónir verða gerðar að leiðréttingaláni strax, og við það lækkar höfuðstóllinn niður í 19,5 milljónir og greiðslubyrðin um 95 þúsund og hefur þá lækkað um fjórtán þúsund krónur.

Bjarni segir bankaskattinn eiga að fjármagna aðgerðirnar og að tími sé til kominn að fjármálafyrirtæki í slitameðferð taki þátt í endurreisninni. En lagaleg óvissa er um hvort innheimta megi þennan skatt af þeim. „Við höfum leitað til okkar eigin ráðgjafa. Við teljum engum vafa undirorpið að þessa skattur standist skoðun. Og verði látið á það reyna þá munum við taka til varna alveg upp á efsta dómstig.“

Athygli vekur að ekkert er minnst á það svigrúm sem samningar við kröfuhafa áttu að veita, en Framsóknarflokkurinn hefur viljað að það yrði nýtt til niðurfellingu skulda. Sigmundur Davíð segir það ekki úr sögunni. „Það mun enn nýtast til þess, en með þessari aðferð getum við ráðist í þessar aðgerðir strax, í stað þess að bíða eftir því að svigrúmið sé til staðar.“

Hér má sjá glærukynningu Sigurðar Hannessonar á tillögunum.