15 sentímetra sig í Bárðarbungu.

15.10.2014 - 13:24
Mynd með færslu
 Mynd:
GPS-mælir Veðurstofu Íslands í Bárðarbungu seig um hér um bil 15 sentímetra í jarðskjálfta í norðanverðri öskjunni klukkan korter yfir ellefu í morgun. Skjálftinn var 5,3 að stærð og fannst greinilega á Akureyri.

Skjálftum hefur fjölgað síðustu daga við Bárðarbungu, að því er fram kemur í yfirliti frá Veðurstofu Íslands. Tæplega 130 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhring. Undanfarna viku hefur gosið í Holuhrauni haldist óbreytt og með jöfnu hraunflæði. 

Útlit er fyrir hægt vaxandi austanátt í dag. Gera má ráð fyrir að eftir hádegi berist sú gasmengun sem er yfir landinu til vesturs, ásamt því gasi sem kemur frá gosstöðvunum í dag. Búast má við mengun um allt vestanvert landið og gætu loftgæði orðið lítil.