15 óbreyttir borgarar fórust er jarðsprengja sprakk

28.11.2019 - 01:45
Afghan police officers search a vehicle at a checkpoint on the Ghazni highway, in Maidan Shar, west of Kabul, Afghanistan, Monday, Aug. 13, 2018. A Taliban assault on Ghazni, a key city linking areas of Taliban influence barely 75 miles from Kabul, has
Við vegatálma afganska hersins í útjaðri Ghazni. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Fimmtán óbreyttir borgarar, átta börn, sex konur og einn karl, fórust þegar jarðsprengja sprakk undir bifreið þeirra, sem ekið var eftir þjóðvegi í Kunduz-héraði í norðanverðu Afganistan í dag. Tveir til viðbótar særðust í sprengingunni. Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér og ekki er vitað hvort henni hafi verið beint sérstaklega að þessum tiltekna hópi fólks, en Nasrat Rahimi, talsmaður innanríkisráðuneytisins, fullyrðir að sprengjunni hafi verið komið fyrir af talibönum.

 

Algengt er að til átaka komi milli talibana og afganska stjórnarhersins á þessum slóðum. Ekki er lengra síðan en í september, að talibanar freistuðu þess að ná héraðshöfuðborginni, sem einnig heitir Kunduz, á sitt vald, en tókst ekki.

Færri árásir eftir kosningar - úrslit liggja enn ekki fyrir

Árásum sem þessum hefur heldur fækkað eftir að forsetakosningar fóru fram í landinu hinn 28. september, en síðustu mánuðirnir fyrir kosningarnar voru venju fremur róstusamir og árásir talibana óvenju tíðar og mannskæðar. Úrslit kosninganna liggja enn ekki fyrir.

Greint var frá því í lok október að talning atkvæða gengi hægt, af tveimur ástæðum: Gerð hefði verið tilraun til að brjótast inn í netþjón kjörstjórnar og jafnframt hefði verið brotist inn í tölvumiðstöð kjörstjórnarinnar. Af þessum sökum yrðu bráðabirgðaúrslit ekki birt fyrr en 14. nóvember. 13. nóvember var svo tilkynnt að fresta þyrfti birtingu niðurstaðna enn frekar, að þessu sinni um óákveðinn tíma.

18 voru í í framboði en talið er fullvíst að slagurinn standi einungis á milli forsetans, Ashrafs Ghanis, og helsta keppinautar hans, Abdullahs Abdullahs. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi