Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

149 frelsuð úr klóm Boko Haram

09.04.2018 - 01:14
epa06413768 Some of the 700 persons rescued from Boko Haram lslamic militants by Nigerian Army, in Monguno, Nigeria, 02 January 2018. According to the Deputy Director, Army Public Relations over 700 persons abducted by Boko Haram insurgents had escaped
Boko Haram grípur iðulega til mannrána og oftar en ekki ræna liðsmenn þessara hryðjuverkasamtaka konum og börnum í stórhópum. Myndin sýnir brot af um 700 gíslum, sem Nígeríuher leysti úr haldi Boko Haram í janúar síðastliðnum.  Mynd: EPA
Talsmaður Nígeríuhers greindi frá því í dag að sveitir hersins hefðu á laugardag frelsað 149 konur og börn sem vígamenn hinna illræmdu Boko Haram-samtaka höfðu rænt í norðausturhluta landsins. Talsmaður hersins, Onyema Nwachuku, sagði í tilkynningu sem nígeríska NAN-fréttastofan vitnar til, að 54 konur og 95 börn hefðu verið leyst úr haldi hryðjuverkamannanna og flutt í öruggt skjól, þar sem þau undirgengust læknisskoðun og fengu nauðsynlega aðhlynningu.

Þrír vígamenn Boko Haram voru felldir í aðgerðunum og fimm voru handteknir, segir í tilkynningunni, grunaðir um að tengjast samtökunum. Ekki kemur fram hvar eða hvenær fólkinu var rænt. 

Hér má lesa frétt NAN af aðgerðunum

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV