Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

14 skotnir til bana í Níkaragva

09.07.2018 - 05:07
epa06864702 Several youths with homemade mortars participate in a sit-in called 'Human Chain from Rotunda to Rotunda', at a distance of 3.4 km on the road to Masaya, in Managua, Nicaragua, 04 July 2018. Since last April 18, Nicaragua is going
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Vopnaðar sveitir stuðningsmanna stjórnvalda í Níkaragva skutu minnst 14 manns til bana í suðvestanverðu landinu í gær. AFP fréttastofan hefur eftir Vilmu Nunez, yfirmanni mannréttindasamtaka í Níkaragva að minnst einn óeirðarlögreglumaður sé meðal hinna látnu auk tveggja lögreglumanna.

Mótmælendur sem krefjast afsagnar Daniel Ortega, forseta landsins, settu upp tálma á vegum í Diriamba og Jinotepe, um tuttugu kílómetra frá höfuðstöðvum stjórnarandstæðinga í Masaya. Samkvæmt myndböndum sem íbúar á svæðinu birtu á samfélagsmiðlum æddi stór hópur hettuklæddra manna í borgaralegum klæðnaði um svæðið. Þeir rústuðu tálmunum og gengu inn á svæðið í fylgd lögreglu. 

Ortega útilokaði um helgina að boða snemma til kosninga, eins og öflugur þrýstihópur hafði óskað eftir. Mótmælendur börðust hatrammlega gegn fyrirhuguðum breytingum á lögum um lífeyri, sem stjórnvöld hafa nú bakkað með. Andstæðingar Ortega saka hann um, ásamt eiginkonu hans Rosario Murillo sem gegn embætti varaforseta, að vera að byggja upp einræði sem einkennist af frændhygli og kúgun.

Biskupar rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Níkaragva eru orðnir langþreyttir á ástandinu í landinu. Þeir reyna þó hvað þeir geta til að fá stjórnvöld og andstæðinga þeirra saman til viðræðna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV