Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

14 ólögráða hafa setið í fangelsum

Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórtán ólögráða einstaklingar hafa setið í fangelsum landsins síðan 2006. Lögfræðingur Fangelsismálastofnunar segir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna útliloki ekki að börn sitji í fangelsum.

Sautján ára piltur afplánar fangelsisdóm í Hegningarhúsinu, þrátt fyrir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur fyrr á þessu ári. Börn hafa setið í íslenskum fangelsum undanfarin ár. Erla Kristín Árnadóttir lögfræðingur Fangelsismálastofnunar segir að frá árinu 2006 hafi 14 börn afplánað í fangelsum, þar af fjórir erlendir ríkisborgarar. Fjögur þeirra hafi afplánað á vegum barnaverndaryfirvalda. 

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að halda skuli frelsissviptu barni aðskildu frá fullorðnum nema ef talið er því fyrir bestu að gera það ekki. Hún segir að Barnasáttmálinn útiloki ekki að barn afpláni í fangelsi. Það þurfi að vera hagsmunir barnsins sem mæla með því að það afpláni frekar í fangelsi. Í hvert skipti þurfi að meta hvort betra sé fyrir barnið að afplána á vegum barnaverndaryfirvalda eða í fangelsi. Fangelsisyfirvöld telji að börn eigi að vistast á vegum barnaverndaryfirvalda. Hún ítrekar að Barnasáttmálinn útiloki ekki í einhverjum tilvikum að barn afpláni í fangelsi.