Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

14 ára pantaði nikótín með eigin korti

03.07.2017 - 17:41
epa03610679 A person smokes an electronic cigarette in Nice, France, 05 March 2013. Media reports on 05 March state that French Minister for Social Affairs and Health Marisol Touraine is to launch an investigation into the side effects of the flavours
 Mynd: EPA
Mynd með færslu
 Mynd: Rafrettur.is
Fjórtán ára stúlka gat pantað sér rafrettu og nikótínvökva inni á vefsíðunni rafrettur.is með því að nota eigið kort. Þetta segir móðir stúlkunnar í samtali við fréttastofu. Hún segir það fáránlegt og ógnvekjandi að unglingar geti keypt sér nikótín svo auðveldlega á landinu. Verkefnisstjóri í tóbaksvörnum hjá Embætti landlæknis hefur áhyggjur af því að ungt fólk, sem ekki hefur nokkurn tíma reykt, verði háð nikótíni með því að nota rafrettur. Engin lög fjalla sérstaklega um rafrettur í landinu.

Þegar farið er inn á rafrettur.is blasir við borði sem spyr hvort notandi hafi náð átján ára aldri og varar við því að ef svo sé ekki varði það við lög að nota þjónustu síðunnar. Móðir stúlkunnar, sem pantaði sér nikótínvökva og rafrettu á síðunni, segist ekki vita hver sé lögbrjóturinn þegar ólögráða barn kaupir sér nikótín með þessum hætti.

Litglaðar síður sem höfða til barna

„Það hefur verið mikill fagurgali í forstöðumönnum þessara verslana þar sem þeir hafa verið í fjölmiðlum og fullvissað um að þeir séu ekki að selja börnum. Engu að síður eru þetta ofsalega litglaðar síður sem geta vel höfðað til barna og unglinga og þarna er ekki neitt eftirlit með því að þau séu ekki að kaupa sér nikótín,“ segir hún.

Móðir stúlkunnar hafði samband við rafrettur.is og bað um að sendingin yrði afturkölluð og endurgreidd. Aðstandendur vefsins urðu við því, bentu á borðann sem blasir við á forsíðu síðunnar og bættu því við að kortaþjónustan, sem stuðst sé við, bjóði því miður ekki upp á aldurstakmörkun. Hinsvegar ætli þeir að vinna í því að atvikið endurtaki sig ekki.

Erfitt að benda á viðurlög 

Engin lög fjalla sérstaklega um rafrettur enn sem komið er. Heilbrigðiseftirlitið framfylgir auglýsingabanni á tóbak og gefur út tóbakssöluleyfi en rafrettur heyra ekki undir þau lög, segir Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirlitinu. Hinsvegar heyrir nikótín almennt undir lyfjalög.

„Það sem ég set spurningamerki við er að þessi vefsíða er að selja nikótín sem er bannað samkvæmt lögum. Nikótín, eins og lögin eru núna, heyrir undir lyfjalög og hingað til hefur enginn fengið markaðsleyfi til að selja nikótínvökva í rafsígarettur,“ segir Viðar Jensson, verkefnisstjóri í tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis. Hann bendir þó á að leyfilegt sé að flytja inn takmarkaðan skammt af slíkum vökva til eigin nota frá ríki sem selur vöruna löglega. „Svo eru margir sölustaðir að selja vökva í því yfirskyni að hann innihaldi ekki nikótín. Þetta er sá raunveruleiki sem við búum við. Það er erfitt að benda á viðurlög við lögum sem ekki eru til,“ segir hann í samtali við fréttastofu. 

Lagt sé upp með að nýtt „rafrettufrumvarp“ verði lagt fyrir þingið í haust. Hann segist hafa áhyggjur af því að börn, sem nota rafrettur, verði háð nikótíni án þess að hafa nokkurn tímann reykt. Aftur á móti samgleðst hann þeim sem ná að hætta að reykja með aðstoð rafrettu. „Það er fátt hættulegra en að reykja.“

Ekki náðist í aðstandendur vefsins rafrettur.is við vinnslu fréttarinnar.

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV