Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

136 drepnir á tveimur sólarhringum í Sýrlandi

08.02.2018 - 16:58
epa06503618 An injured girl receives a treatment at the Red Crescent center after bombing in Douma, eastern Ghouta, Syria, 07 February 2018. More than 12 people were killed today after bombings carried out by forces loyal to Syrian goverment in Douma and
Myndin var tekin í austur Ghouta í byrjun febrúar. Mynd: EPA
Ekkert lát er á blóðbaðinu í Austur-Ghouta í Sýrlandi; svæði undir yfirráðum uppreisnarmanna. 18 almennir borgarar týndu lífi í morgun. 136 hafa verið drepnir á tveimur sólarhringum í loftárásum sýrlenska stjórnarhersins á tíu bæi innan svæðisins

Heilu fjölskyldurnar hafa grafist í rústum húsa sem sprengd voru í gær. Þá týndu á þriðja tug lífi. 22 börn eru meðal látinna. 600 eru alvarlega særðir eða alvarlega veikir og þurfa á bráðri læknisaðstoð að halda. Ekki hefur fengist leyfi til að flytja þá á brott.

400 manns, þar af 103 börn, hafa verið drepin í árásum stjórnarhersins og Rússa á Austur-Ghouta og Idlib-hérað frá því í byrjun janúar. Um 400.000 íbúar eru innikróaðir í Austur-Ghouta. Svæðið hefur verið herkví Sýrlandhers frá 2013. Íbúarnir svelta heilu hungri, skortur er á eldsneyti,  lyfjum og öðrum nauðþurftum.

Talsmaður hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna segir að ástandið sé nú orðið mjög alvarlegt. Ekki hafi fengist leyfi sýrlenska stjórnvalda til þess að koma neyðaraðstoð til Austur-Ghouta í tvo mánuði samfleytt. Hjálparstofnanir séu hundsaðar og nái ekki eyrum valdhafa. Þá berast fréttir að því átök harðni þar sem sótt er að Kúrdum í Afrin-héraði í norðri og við Eftatfljót í norð-austur Sýrlandi.

Bandarískir embættismenn segja að bandaríski flugherinn hafi komið Kúrdum til hjálpar þegar um 500 bandamenn sýrlenska stjórnarhersins gerðu tilraun til að hertaka svæði sem Kúrdar ráða við Efrat fljót. 100 árásarmenn hafi verið felldir.