Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

1300 innflytjendur sluppu úr haldi

26.04.2019 - 09:05
epa07528857 Migrants are detained by Mexican immigration authorities for staging a riot at Siglo 21 shelter in the municipality of Tapachula, Mexico, 25 April 2019. More than a thousand migrants escaped from the Tapachula migration station on the southern border of Mexico and at least 600 of them are missing, the National Migration Institute reported.  EPA-EFE/JUAN MANUEL BLANCO
Hluti innflytjandanna handtekinn í gær. Mynd: EPA-EFE - EFE
Í það minnsta 1300 innflytjendur sluppu úr varðhaldi í borginni Tapachula í Mexíkó í gær. Fólkið hafði hótað því að kveikja í húsnæði sem það dvaldi í vegna óánægju með bágbornar aðstæður og mikil þrengsli. Húsnæðið var byggt til að hýsa 900 manns.

Flóttinn átti sér stað um kvöldmatarleytið í gær samkvæmt vitnum sem AFP fréttastofan ræddi við. Í yfirlýsingu frá innflytjendastofnun Mexíkó var flóttinn staðfestur. Um 700 voru handsamaðir skömmu eftir flóttann en enn hefur ekki tekist að hafa hendur í hári um 600 manns sem flestir eru af kúbversku bergi brotnir.

Þetta er í þriðja skiptið á hálfu ári sem uppþot innflytjenda í haldi á sér stað í Tapachula. Þeir hafa haldið því fram að allt að því þrjú þúsund manns hafi á tímabili verið í húsnæðinu.

Talið er að tugir þúsunda innflytjenda frá Mið-Ameríku og Kúbu hafi ferðast gegnum Mexíkó á leið sinni til Bandaríkjanna síðan í október í þeim tilgangi að fá hæli þar í landi. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sagt að innflytjendurnir séu ógn við þjóðaröryggi landsins og krafist þess að Mexíkó handsami þá og sendi aftur til síns heima.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV