
Unnið hefur verið að viðamikilli rannsókn á áhrifum tæknibreytinga á stöðu og framtíð íslenskrar tungu og hve mikil áhrif ensku eru. Rannsókninni stýra þau Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson. Hluti af henni er könnun á viðhorfi 13-16 ára unglinga. Berglind Hrönn Einarsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, sér um þann þátt.
„Fyrstu niðurstöður sýna að þau eru mjög spennt fyrir enskunni og hafa mikinn áhuga á henni. Þau tengja hana við það sem er spennandi, t.d afþreyingarefni, þætti og myndir og að fara til útlanda. En íslenskan er ekki alveg eins spennandi í þeirra augum. Þau tengja hana við skóla, að fá góðar einkunni, rétt og rangt mál og leiðréttingar,“ segir Berglind.
Þó séu ekki allir unglingar óánægðir með að vera leiðréttir. „Þau skiptast eiginlega í hópa með það. Sumir eru mjög þakklátir fyrir að vera leiðréttir en aðrir eru ekki eins spenntir fyrir því,“ segir Berglind.
Af öllum Íslendingum, er þessi hópur jákvæðastur eða neikvæðastur í garð íslenskunnar?
„Hann er neikvæðastur í samanburði við hina aldurshópana,“ segir Berglind.