120.000 með skemmtiferðaskipum til Akureyrar

29.04.2016 - 12:04
Mynd með færslu
Magellan við bryggju á Akureyri Mynd: RÚV - Óskar Þór Halldórsson
Reiknað er með að 101 skemmtiferðaskip komi til Akureyrar og Grímseyjar í sumar. Fyrsta skipið, Magellan, kom til Akureyrar klukkan átta í morgun.

Eins og fram kom í fréttum RÚV kom sama skip til Seyðisfjarðar í gær. Þá þurfti að aflýsa öllum skoðunarferðum fyrir farþegana þar sem vont ferðaveður var á fjallvegum eystra.

Skoða Mývatnssveit í dag

Ríflega 900 farþegar af þrettán þjóðernum eru um borð í Magellan, flestir þeirra breskir. Um það bil helmingurinn fór í skoðunarferð austur í Mývatnssveit í morgun. Magellan fer frá Akureyri í kvöld og kemur í höfn á Ísafirði og í Reykjavík.

120 þúsund farþegar í sumar

Að sögn Péturs Ólafssonar, hafnarstjóra Hafnarsamlags Norðurlands, er áætlað að 101 skip komi til þeirra í sumar. 92 til Akureyrar, en 9 til Grímseyjar. „Við reiknum með að 84000 farþegar komi með þessum skipum til Akureyrar og um 2000 til Grímseyjar,“ segir Pétur. „Ef áhafnirnar eru meðtaldar verða þetta um 120 þúsund manns.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV