1200-1500 ný störf í fiskvinnslu

16.03.2011 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Þjóðarbúið gæti hagnast um sex milljarða króna á ári ef öllum fiski væri landað á Íslandi segir framkvæmdastjóri fiskframleiðenda og útflytjenda. 1500 ný störf spara þrjá milljarða á ári í atvinnuleysisbætur og aðrir þrír milljarðar fengjust með auknum útflutningsverðmætum.

Þetta segir Elín Björg Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda. Hún vill einnig jafna samkeppnisstöðu á fiskmarkaði með því að koma á einu markaðsverði á fiski.

Í frumvarpi Hreyfingarinnar, sem rætt var á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í dag, er lagt til að fiski verði öllum landað á Íslandi til þess að skapa ný störf og auka verðmæti aflans. Elín Björg Ragnarsdóttir segir eftir miklu að slægjast nú þegar svo margir séu án vinnu.


Að sögn Elínar Bjargar var um 37 þúsund tonnum landað erlendis á síðasta fiskveiðiári. Með því að landa þessum afla hérlendis mætti skapa bæði bein störf við fiskvinnslu og eins afleidd störf annars staðar í þjóðfélaginu. Samtals gætu þetta verið á bilinu 1200 til 1500 störf.

Með þessu mætti spara 3 milljarða í atvinnuleysisbætur og útflutningstekjur ykjust um þrjá milljarða um það bil segir Elín Björg.


Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda styðja hugmyndir um eitt markaðsverð á fiski til þess að jafna samkeppnisstöðu fiskvinnsla. Nú gildir verðlagsstofuverð í viðskiptum þegar fiskvinnsla á viðskipti við útgerð í eigu sama aðila, það verð er lægra en verð á opnum fiskmörkuðum. Munurinn getur verið um 200 milljónir á ári fyrir litla vinnslu að sögn Elínar Bjargar.

Þeir sem kaupa fiskinn á verðlagsstofuverði hafa þá samkeppnisforskot upp á 200 milljónir króna á ári og geta til dæmis nýtt mismuninn til að kaupa viðbótarhráefni á mörkuðum við hærra verði en þar gerist eða undirboðið fullunnar vörur á markaði. Elín Björg segir að með því að breyta þessu yrði viðskiptaumhverfið eðlilegra.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi