Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

12 vélar lentu á hálftíma

27.05.2016 - 08:09
Mynd með færslu
 Mynd: Guðni Sigurðsson - RÚV
Mikil örtröð er á Keflavíkurflugvelli þessa stundina. Eftir flugbann sem stóð frá 2 í nótt til 7 í morgun lenti fyrsta vélin klukkan korter yfir 7. Á rúmum hálftíma lentu 11 vélar til viðbótar en áætlað er að 14 vélar bætist við það fram til klukkan 10. Flugbannið stafar vegna veikinda flugumferðarstjóra en tveir þeirra voru veikir í nótt og vegna yfirvinnubanns var ekki ekki hægt að leysa þá af.

Fyrsta vél til Evrópu frá vellinum var vél Primera til Alicante sem fór í loftið 7:08 og er áætlað að tæplega 30 vélar taki á loft fyrir hádegi. Ljóst er að brottfarartími mun riðlast og tafir verða líklega fram eftir degi.

Þetta er í þriðja sinn sem raskanir verða á millilandaflugi vegna yfirvinnubannsins en einu sinni hafa orðið raskanir á innlandsflugi. Engin lausn er í sjónmáli í deilunni sem virðist vera harðna. Í gær birti Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins, pistil undir yfirskriftinni „Flugumferðarstjórar komi niður úr skýjunum“. Þorsteinn segir þar að kröfur þeirra séu langt umfram aðra kjarasamninga.

Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, vísar fullyrðingum Samtaka atvinnulífsins á bug og segir kröfurnar ekki óhóflegar. Hann hvatti SA til að setjast að samningaborðinu. Þar yrði deilan leyst en ekki í fjölmiðlum. Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað nýjan fund í viðræðunum.