Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

12 manns bjargað þegar skúta sökk

09.08.2013 - 07:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Rétt eftir klukkan 11 í gærkvöld barst Landhelgisgæslunni neyðarkall frá þýskri seglskútu sem þá var stödd vestur af Garðskaga. Skútan lak og 12 manns voru um borð.

Nærstödd skip, þyrla gæslunnar og björgunarskip voru send á vettvang eftir að neyðarkallið barst. Togarinn Hrafn Sveinbjarnarson kom á vettvang rétt fyrir miðnætti, um hálftíma eftir útkall og þyrla gæslunnar skömmu síðar. 

Ekki reyndist mögulegt að koma björgunarmönnum um borð strax vegna veðurs og sjólags en rétt fyrir 2 í nótt tókst áhöfn björgunarskipsins Fiskakletts frá Hafnarfirði loks að koma mönnum og sjódælu um borð. 

Nokkurn tíma tók að ná áhöfninni um borð í björgunarskip. 

Björgunarskip gerði svo tilraun til að komast í land með skútuna í togi. Sjódælan bilaði á leiðinni  og endaði með því að um fimmleytið var ákveðið að skera yrði á og skútan sökk. 

Skipið er nú komið í land en að sögn talsmanns Landhelgisgæslunnar var hluti áhafnarinnar mjög illa klæddur og sumir því kaldir og hraktir.