Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

12 deilibílar í Reykjavík

25.03.2018 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tólf deilibílar eða Zipcars eru nú í notkun í Reykjavík og var þeim fjölgað um þrjá fyrir helgi. Árni Sigurjónsson, verkefnastjóri Zipcar á Íslandi segir að þrjúhundruð áskrifendur séu að bílunum og að þeim fari fjölgandi

Zipcars er deilibílaleiga sem gerir fólki kleift að leigja bíl í stutta stund og skila honum aftur á sama stað. Bílarnir, sem eru bæði bensín- og rafbílar, eru dreifðir um Reykjavík og fólk sem er í áskrift  hefur aðgang að þeim hvenær sem er.

Árni segir að fyrstu fimm Zip bílarnir hafi verið teknir í notkun í september og héldu menn að það yrði aðallega ungt fólk sem myndi nýta sér þjónustuna. 

„Af því þú ert að nýta app í þetta. Opnar bílinn með appi og læsir honum líka.  En aftur á móti er aldurshópurinn mjög dreifður og þetta er mjög mikið af mismunandi fólki. Þetta er bæði fyrirtæki og fólk af öllum aldurshópum og nemendur líka.“   
 
Hægt er að bóka bílinn samstundis eða fram í tímann og einungis er greitt fyrir notkunina á bílnum. 

„Við erum með nokkrar áskriftaleiðir. Ódýrasta klukkustundagjaldið er 1300 krónur klukkustundin og það er með bensíni, rafmagni, km og tryggingum inniföldum.“  

„Við vorum að bæta við bílum í Borgartúni 7, á Tjarnargötu 11 fyrir utan Ráðhúsið og á Lindargötu fyrir aftan Þjóðleikhúsið.  Og hvað verða þá margir bílar í allt í notkun?  Það verða  12 bílar í alt í notkun.“

„Við erum með rétt yfir 300 meðlimi í dag.“ 

Hver bíll er nú notaður í kringum tvær klukkustundir á dag. „Við viljum sjá allt í 4 til 8 klst en það tekur að sjálfssögðu tíma. Þetta er ný þjónusta en við erum að sjá aukningu í bæði meðlimum og notkun í hverjum einasta mánuði.“
 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV