1155 skjálftar síðustu tvo sólarhringa

17.08.2014 - 20:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Alls hafa mælst 1155 jarðskjálftar í Vatnajökli undanfarna tvo sólarhringa. Langflestir skjálftanna, eða um 800, mælast einn til tveir að stærð. Tíu skjálftar hafa mælst yfir þrír að stærð.

Viðvarandi skjálftavirkni hefur verið undir Bárðarbungu í dag og hefur hún færst norðar og austar. Virknin er mest áberandi í tveimur þyrpingum norðan og austan Bárðarbungu. GPS-gögn staðfesta að um er að ræða kvikuhreyfingar. Engin merki eru sjáanleg um að gos sé hafið en áfram er fylgst með framvindu mála þar sem atburðarás sem þessi kann að vera undanfari eldgoss.

Vísindamenn hafa aukið vöktun sína á svæðinu og lögreglustjórarnir á Húsavík, Hvolsvelli og Seyðisfirði auk Vatnajökulsþjóðgarðs hafa farið yfir  viðbragðsáætlanir sínar.

Vegna mögulegra flóða í kjölfar eldgoss, hefur lögreglustjórinn á Húsavík ákveðið að loka Gæsavatnaleið og öðrum hálendisvegum austan Skjálfandafljóts að Öskju, einnig hluta leiða að Herðubreiðarlindum.

Lokaðar leiðir má sjá á skýringarmynd.