11 ára partý í Breiðholtinu

Mynd: RÚV / RÚV

11 ára partý í Breiðholtinu

07.06.2018 - 09:52
Breiðholt festival hófst fyrir tilstilli hjónanna Sigríðar Sunnu Reynisdóttur og Valgeirs Sigurðssonar og var ætlað að vekja athygli á því sem fór fram í upptökuveri þeirra í Seljahverfi. Það hefur heldur betur undið upp á sig og hátíðin er nú hluti af Listahátíð Reykjavíkur.

Selma Reynisdóttir og Ásrún Magnúsdóttir, fulltrúar frá hátíðinni komu og sögðu nánar frá þessari ágætu hátíð. Sigríður og Valgeir byrjuðu með Breiðholt festival sem eins konar gæluverkefni. „Þau langaði að blása lífi hverfið og búa til vettvang þar sem hægt væri að vera með til dæmis markað, tónleika og svo framvegis,” segir Selma.

Fyrst um sinn var hátíðin aðeins haldin í Alaskadalnum svokallaða í Seljahverfi, en í þetta skipti er hún tengd Listahátíð Reykjavíkur og er því dreifðari um hverfið. Það verður hægt að fljóta og hlusta á bíótónlist í Ölduselslaug, fara á ljósmyndasýningu í Rýmd og mæta í Asparfell í partý.

Asparfell er risastór blokk, hátt í 200 íbúðir, og þangað ætla íbúar að bjóða gestum í heimsókn í mismunandi partý í mismunandi íbúðum. „Sum verða mjög lágstemmd en önnur brjálaðri,” segir Ásrún en partýhaldararnir eru á öllum aldri. „Yngsti partýhaldarinn er 11 ára og sá elsti er sennilega um 75 ára,” bætir hún við.

Hægt er að nálgast upplýsingar um viðburðina á Facebook og á heimasíðu Listahátíðar.

Selma og Ásrún voru gestir í Núllinu og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan.