Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

109 hermenn fengu heilahristing í loftárásum Írana

11.02.2020 - 04:40
epa08110675 US soldier stand near to military trucks in Kirkuk, Iraq, 08 November 2003 (issued 07 January 2020). US Defence Secretary Mark Esper denied reports on a decision to pull US troops out of Iraq, two days after the Iraqi Parliament took the first step toward expelling all foreign troops deployed in the country in the wake of killing Islamic Revolutionary Guard Corps commander Qasem Soleimani and the deputy leader of the Popular Mobilization Forces militia, Abu Mahdi al-Muhandis, in a drone strike at the Baghdad airport.  EPA-EFE/ALI HAIDER
 Mynd: epa
109 bandarískir hermenn hlutu heilaáverka í flugskeytaárásum Írana á írakska flugvelli í janúar. Bandaríkjaher er með aðstöðu á báðum flugvöllunum og voru árásirnar gerðar í hefndarskyni fyrir dráp Bandaríkjamanna á íranska hershöfðingjanum Qassem Soleimani í byrjun árs. Ekkert manntjón varð í eldflaugaárásunum og lítið var gert úr hvorutveggja meiðslum á fólki og tjóni á mannvirkjum lengi vel.

Í lok janúar upplýsti bandaríska varnarmálaráðuneytið að 64 hermenn hefðu hlotið heilaáverka. Í gær greindi Reutersfréttastofan svo frá því að 45 til viðbótar hefðu greinst með heilahristing eftir árásirnar. Varnarmálaráðuneytið staðfesti þetta síðar í gær og sagði í tilkynningu að alls hefðu 109 hermenn fengið vægan heilahristing í árásunum. Enginn hefði þó meiðst alvarlega og 76 hefðu þegar snúið aftur til starfa.

Samkvæmt gögnum varnarmálaráðuneytisins hafa alls um 408.000 bandarískir hermenn fengið heilahristing við störf sín frá árinu 2000. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV