
106 dáin og yfir 4.500 sýkt af kórónaveirunni
Heilbrigðisyfirvöld í Hubei-héraði, þar sem sóttin geisar af mestum þunga, greindu frá því í morgunsárið að staðartíma að þar hefðu 24 dáið af völdum veirunnar frá því síðustu tölur voru birtar og 1.291 smitast í héraðinu. Í Kína öllu höfðu þá ríflega 1.770 bæst í hóp smitaðra, sem nú eru alls 4.515 talsins á kínverska meginlandinu, samkvæmt opinberum tölum. Tveir létust utan Hubei-héraðs í gær og heildarfjöldi látinna því 106.
Sterkur grunur leikur á að veiruna megi rekja til villibráðar sem seld var í héraðshöfuðborginni Wuhan og þar búa langflest þeirra sem smitast hafa og dáið. Dauðsföll af völdum veirunnar eru enn sem komið er bundin við meginland Kína, en um 50 smitaðir einstaklingar hafa greinst í fimmtán löndum öðrum í fjórum heimsálfum, nú síðast í Þýskalandi. Í öllum tilfellum var fólkið nýkomið frá Hubei-héraði í Kína, langflest þeirra frá Wuhan.
Þá leikur grunur á að tveir Íslendingar, karl og kona á sextugs- og sjötugsaldri, hafi smitast af veirunni er þau voru á ferð í Kína nýverið. Þau eru nú í einangrun á Torrevieja á Spáni á meðan beðið er niðurstaðna greiningar á sýnum sem tekin voru úr þeim.
Fréttin hefur verið uppfærð.