Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

100 reiðhjól verða boðin upp

08.06.2013 - 08:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmlega 100 reiðhjól verða boðin upp hjá óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag klukkan 11. Hjólin hafa fundist í óskilum víða í umdæminu og enginn hirt um að sækja þau. Uppboðið verður haldið í húsnæði Vöku í Skútuvogi í Reykjavík.

Vænta má góðrar mætingar enda er uppboðið jafnan vel sótt, en það er haldið einu sinni ár ári. Fyrst verða boðnar upp fáeinar barnakerrur og barnavagnar en síðan reiðhjólin.

Á síðasta ári voru tilkynningar um stolin reiðhjól rúmlega 700 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er ljóst hvað verður um meirihluta þeirra enda berst aðeins hluti hjólanna til óskilamunadeildar. Algengt er að hjól berist þangað nokkrum mánuðum eftir að þeim var stolið samkvæmt því sem fram kemur á vef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hjólreiðamönnum er bent á mikilvægi þess að geyma reiðhjól á eins öruggum stað og unnt er og alls ekki skilja þau eftir ólæst. Ef hjóli er stolið kemur sér vel ef eigandinn hefur raðnúmer (stellnúmer) þess tiltækt. Það auðveldar lögreglu að koma því til skila ef það á annað borð kemur í óskilamunadeild hennar.