Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

100 ár frá síðasta Kötlugosi

12.10.2018 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd: Katla Geopark
Erfitt er að segja til um hvenær Katla gýs næst. Hamfaraflóð af völdum Kötlugoss gæti orðið til þess að hringvegurinn væri í sundur meðan á gosinu stæði en dæmi eru um að Kötlugos vari í marga mánuði.

Í Vík í Mýrdal minnast menn þess að hundrað ár eru í dag frá því Katla gaus síðast. Húsfyllir var í íþróttasal grunnskólans í Vík á ráðstefnu um Kötlu. Á ráðstefnunni var Kötlugosið 1918 rifjað upp og farið yfir viðbragðsáætlanir og mögulegar afleiðingar Kötlugoss í dag. 

Ekki hægt að lagfæra brýr fyrr en að gosi loknu

Guðmundur Valur Guðmundsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni,  segir líklegast að jökulhlaup komi niður austan megin við Vík, með tilheyrandi skemmdum á vegum og brúm. „Það er hringvegur eitt undir á 35 kílómetra kafla og einar 7-8 brýr sem eru þá í hættu,“ segir Guðmundur Valur. Ekki sé talið öruggt að ráðast í lagfæringar á vegum eða brúm fyrr en ljóst er að ekki sé lengur hætta á jökulflóði. „Það er náttúrulega algjörlega háð almannavörnum og lögreglu, hvað menn telja svæðið öruggt til að vinna á, þannig að manni finnst ólíklegt að uppbygging hefjist fyrr en að gosi lýkur.“ 

Þvottur á snúrum varð svartur 

Kötlugosi fylgir jafnan mikið gjóskufall og jökulhlaup, jafnvel hamfarahlaup. Afleiðingar jökulhlaupa geta verið rof á samgöngumannvirkjum, rafmagnslínum og símalínum. Mjög misjafnt er hversu lengi Kötlugos standa, en dæmi eru um að gjósi í fjóra mánuði. Kötlugosið 1918 stóð í 24 daga. Aska frá gosinu barst til Reykjavíkur og þvottur á snúrum á Akureyri varð svartur af sóti.

Þarf að fylgjast með gasstreymi frá Kötlu

Mælingar sýna að gríðarlegt magn koltvísýrings streymir frá Kötlu. Evgenía Ilyinskaya, eldfjallafræðingur við Háskólann í Leeds í Bretlandi, hefur rannsakað þetta. „Okkur finnst líklegt að svona mikið af gasi hljóti að vera framleitt af kviku sem er einhvers staðar undir eldfjallinu, en við getum ekki sagt hve djúpt hún er eða hvort hún sé að safnast upp. Og ef gasið fer að aukast þá gætum við farið að spá í það hvort að það sé einhver breyting í Kötlu í gangi,“ segir Evgenía.

„Mér finnst þetta vera vísbending um það að Katla sé ekki dauð, og við þrufum að fylgjast rosalega vel með henni.“

Ekki mikil kvikusöfnun undanfarin ár

Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur segir fátt benda til þess að von sé á gosi í bráð. „Jarðskorpuhreyfingar setja nokkuð þröngar skorður á þá kvikusöfnun sem getur hafa verið í kötlu síðustu fimmtíu ár, síðan mælingar hófust,“ segir Halldór. Þetta sé hæt að túlka á marga vegu. „Hvort að það þýði að kvikuhólfið í Kötlu sé fullt, af því að það er mikil jarðskjálftavirkni í Kötlu, og að það komist ekki meira kvika inn í Kötlu, eða að það getur þýtt líka að aðfærsluæðarnar, sem að fæða Kötlu, séu stíflaðar, að það sé minni kvika að koma inn.“

Hann segir ekki ómögulegt að Katla gjósi, en erfitt sé að segja til um hversu langt er þangað til. „Það er alveg möguleiki á því, jarðskjálftavirknin og óróinn sem er búinn að vera í eldstöðinni síðustu áratugina virðist frekar benda til þess að hún gæti látið á sér kræla en það er mjög erfitt að segja hvenær það gerist. “