Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

100 ár frá fæðingu Jórunnar Viðar tónskálds

Mynd: Úr einkasafni / Úr einkasafni

100 ár frá fæðingu Jórunnar Viðar tónskálds

07.12.2018 - 12:48

Höfundar

Á þessu ári eru liðin 100 ár frá fæðingu Jórunnar Viðar, en hún fæddist í Reykjavík 7. desember 1918. Jórunn var eitt af merkustu tónskáldum Íslands á 20. öld og lengi eina konan í Tónskáldafélagi Íslands.

Jórunn Viðar útskrifaðist úr Tónlistarskólanum í Reykjavík 18 ára gömul 1936 og árið 1937 hélt hún til Berlínar í framhaldsnám. Hún stundaði nám við Hochschule für Musik í Berlín í tvö ár og fór þaðan rétt áður en heimsstyrjöldin fyrri hófst. Jórunn giftist Lárusi Fjeldsted og saman fóru þau til Bandaríkjanna þar sem Jórunn stundaði nám í tónsmíðum í Juilliard-tónlistarskólanum í New York og var í einkatímum í píanóleik. Rétt fyrir jól 1945 var snúið heim til Íslands, en Jórunn átti síðar eftir að dveljast tvo vetur í Vínarborg við frekara píanónám.

Fyrsta kvikmyndatónlistin

Fáeinum árum eftir heimkomuna 1945 fékk Jórunn merkilegt verkefni: að semja tónlist við kvikmynd Óskars Gíslasonar, „Síðasti bærinn í dalnum“. Hún varð þannig fyrst íslenskra tónskálda til þess að semja tónlist við kvikmynd í fullri lengd, en kvikmyndin var frumsýnd árið 1950. Myndin er ævintýri þar sem koma fram tröll, dvergar og álfar og átti hinn þjóðlegi tónlistarstíll Jórunnar vel við efnið. Í viðtali sem Pétur Már Ólafsson tók við Jórunni fyrir tímaritið „Þjóðlíf“ árið 1989 sagði Jórunn þannig frá samningu kvikmyndatónlistarinnar.

Þá sat ég með stoppúrið og mældi út því að allt varð að standast upp á sekúndu. Tónlistin var tekin upp á stálþráð og síðan „sínkróníseruð" við filmuna í London. Ég vandaði mig mjög mikið við þetta.

Fyrsti ballettinn

Sama ár og „Síðasti bærinn í dalnum“ var frumsýndur, 1950, samdi Jórunn tónlist við ballettinn „Eldur“ og var hann frumfluttur í tengslum við Listamannaþing í Þjóðleikhúsinu 5. maí það ár. Dansarar úr Félagi íslenskra listdansara dönsuðu undir stjórn Sigríðar Ármann, og þetta var fyrsti íslenski ballettinn sem fluttur var.

Jólalagið sem ekki er þjóðlag

Á löngum ferli samdi Jórunn margskonar tónsmíðar: sönglög, kórverk, einleiksverk og hljómsveitarverk, og má þar nefna „Hugleiðingar um fimm gamlar stemmur“ fyrir píanó frá árinu 1963, svítuna „Þjóðlífsþætti“ fyrir fiðlu og píanó 1974 og píanókonsertinn „Sláttu“ frá 1977. Þjóðlög höfðu mikil áhrif á Jórunni og hún útsetti mörg þeirra. Eitt af sönglögum hennar, jólalagið „Það á að gefa börnum brauð“, er stundum talið þjóðlag, en lagið er í rauninni frumsamið af Jórunni. Árið 1989 komst Jórunn í heiðurslaunaflokk listamanna og 2004 fékk hún heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna. Hún lést 2017.

Lag sem ekki hefur komið út fyrr

Í tilefni af aldarafmælinu hefur verið gefin út geislaplata þar sem söngkonan Erla Dóra Vogler og píanóleikarinn Eva Þyri Hilmarsdóttir flytja sönglög Jórunnar Viðar. Þar á meðal er lagið „Ung stúlka“, lag sem aldrei hefur áður komið út á plötu. Það verður flutt í þætti Unu Margrétar Jónsdóttur „Á tónsviðinu“ 6. desember kl. 14.03 og þar verða leikin fleiri verk eftir Jórunni Viðar, svo sem ballettinn „Eldur“ og svítan „Þjóðlífsþættir“.

Fjallað var um Jórunni Viðar í útvarpsþættinum Á tónsviðinu á Rás 1. Hlusta má á þáttinn hér að ofan.