Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

10 flokkar fram í borginni í vor

Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Dagur B. Eggertsson er eini upphaflegi oddvitinn í borgarstjórn frá kosningum 2014 sem ætlar að gefa kost á sér til endurkjörs í Reykjavík. Að minnsta kosti 10 flokkar ætla að bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum sem verða eftir tæpa fimm mánuði. Ýmsir spá því að fleiri framboð eigi eftir koma fram.

Styttist í kosningar

Það eru tæpir fimm mánuðir þar til landsmenn ganga til sveitarstjórnarkosninga laugardaginn 26. maí. Undirbúningur og aðdragandi kosninganna hefur fallið í skuggann af alþingiskosningum sem óvænt voru boðaðar í haust. Skipulag og undirbúningur flokkanna sem oft hefst á haustin var lagður til hliðar og kröftunum beint að alþingiskosningunum. Sveitarfélögin eru 73 sem þýðir að hvert þessara sveitarfélaga þarf að efna til kosninga um fólk í sveitarstjórnir. Sveitarfélögunum fækkaði um eitt þegar samþykkt var að sameina Garð og Sandgerði fyrir nokkru. Ef miðað er við kjörsókn hefur áhugi kjósenda farið minnkandi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Kjörsókn 2014 var sú dræmasta hingað til, 66,5%, minni meðal þeirra yngri en þeirra eldri, rétt yfir 50% í aldurshópnum 18 til 19 ára og vel undir 50% í aldurshópnum 20 til 24 ára. Og þess má geta að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst í lok mars eða átta vikum fyrir kosningarnar.

Kosið um 23 borgarfulltrúa

Það kemur ekki á óvart að enn sem komið er hefur athyglin einkum beinst að stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík. Að þessu sinni verður kosið um 23 borgarfulltrúa. Samþykkt var í borgarstjórn í haust að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23. Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að í sveitarfélögum með yfir eitt hundrað þúsund íbúa geti fjöldi sveitarstjórnarmanna verið frá 23 upp í 31. Þessi ákvörðun borgarstjórnar var umdeild og greiddu Sjálfstæðismenn atkvæði gegn henni. Þeir telja að kostnaður muni aukast og verið sé að belgja út kerfið. Önnur sjónarmið eru þau að með því að fjölga borgarfulltrúum sé í raun verið að spara því þessir fulltrúar munu í auknum mæli sitja í ráðum og nefndum í stað varaborgarfulltrúa. Viðmælendur Spegilsins eru sammála um að fjölgun borgarfulltrúa muni leiða eða geti leitt til fjölgunar framboða. Í síðustu kosningum buðu 8 flokkar fram í Reykjavík. 6 þeirra fengu kjörna fulltrúa. Ólíkt alþingiskosningum eru engir þröskuldar settir um lágmarksfylgi í sveitarstjórnarkosningum. Nú þegar fulltrúarnir verða 23 geta rétt rúm 4% nægt til að koma að manni í borgarstjórn. Ef mjög margir bjóða fram er næsta víst að einhver hluti atkvæða mun falla dauður niður sem myndi þá lækka þessa prósentu.

Allir núverandi flokkar í borgarstjórn bjóða fram í komandi  kosningum. Sjálfstæðismenn ríða á vaðið með leiðtogaprófkjöri þar sem oddviti flokksins verður sérstaklega valinn. Kjörnefnd mun síðan velja aðra frambjóðendur eða gera tillögu um þá sem munu verma 2. sætið og niður úr. Það verður kosið 27. janúar um leiðtoga borgarstjórnarflokksins. Frestur til að skila inn framboðum rennur út á miðvikudaginn kemur, 9. janúar. Athygli vekur að fáir hafa gefið upp að þeir ætli að taka þátt í prófkjörinu. Borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir ætla að gefa kost á sér. Aðrir hafa ekki tekið af skarið og lýst fyrir framboði. Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, sem féll út af þingi í haust segist vera að spá í framboð en hún hafi ekki tekið ákvörðun. Fjölmörg önnur nöfn hafa verið nefnd og það stefnir í það að fjöldi frambjóðenda komi ekki í ljós fyrr en á miðvikudaginn þegar framboðsfrestur rennur út. Sjálfstæðisflokkurinn fékk tæp 26% í síðustu kosningum og fjóra menn kjörna.

Dagur B. Eggertsson Samfylkingu virðist vera eini upphaflegi oddvitinn sem ætlar að halda áfram og útlit er fyrir að nær allir núverandi borgarfulltrúar flokksins gefi kost á sér til endurkjörs. Efnt verður til prófkjörs um val á lista. Samfylkingin fékk í síðustu kosningum tæp 32% og fimm menn kjörna.

Björn Blöndal oddviti Bjartrar framtíðar ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, hefur verið orðuð við framboð. Hún hefur ekki tekið ákvörðun um að fara fram. Flokkurinn galt afhroð í alþingiskosningunum en er með sveitarstjórnarfulltrúa í sex sveitarfélögum og stefnir að því að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum aftur. Flokkurinn fékk 15,6% í borginni síðast og tvo menn kjörna.

Oddviti Pírata, Halldór Auðar Svansson, ætlar að hætta. Píratar stefna að því að efna til prófkjörs. Píratar fengu tæp 6% í Reykjavík og einn mann kjörinn.

Sóley Tómasdóttir eini borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík eftir kosningar, er hætt. Líf Magneudóttir tók við af henni. Hún ætlar að gefa kost á sér til endurkjörs. Ekki náðist í Sóleyju Tómasdóttur en hún hefur verið orðuð við femínistaframboð. VG fékk rúm 8% og einn mann kjörinn.

Það hefur gengið á ýmsu hjá Framsókn og flugvallarvinum. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti flokksins, sagði sig úr flokknum í haust og situr nú sem óháður borgarfulltrúi. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir situr ein sem fulltrúi borgarstjórnarflokksins. Hún er reyndar gengin til liðs við Miðflokkinn og var í fyrsta sæti í Reykjavík norður í alþingiskosningunum fyrir flokkinn en náði ekki kjöri. Miðflokkurinn ætlar að bjóða fram í borginni en ekki er ljóst hverjir verða í framboði fyrir flokkinn. Framsóknarflokkurinn ætlar að bjóða fram. Kjördæmaþing verður haldið 10. janúar þar sem tekin verur ákvörðun um hvernig staðið verður að vali á lista. Framsókn fékk tæp 11% og tvo menn kjörna.

Dögun og Alþýðufylkingin buðu fram síðast. Af hálfu Dögunar hefur engin ákvörðun verið tekin um framboð. Alþýðufylkingin ætlar hins vegar að bjóða fram í borginni.

Þá eru framboðin komin í 8. Viðreisn er að undirbúa framboð og Flokkur fólksins stefnir að því að bjóða fram í sem flestum sveitarfélögum, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er vitað um aðrar flokka. Ýmsir spá því að fleiri framboð muni skjóta upp kollinum þegar nær dregur kosningum, ekki síst vegna þess að fjölgun borgarfulltrúa gæti aukið líkurnar á að minni framboð gætu náð inn manni í borgarstjórn.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV