Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

10 drepin í Níkaragva á sunnudag

15.07.2018 - 22:54
epa06891878 A view of bullet holes in a window of the Divine Mercy chapel, in Managua, Nicaragua, 15 July 2018. Two students were killed when pro government paramilitary groups attacked a group of protesters who were seeking refuge inside the Divine Mercy
Gat á rúðu kirkju hinnar guðdómlegu náðar í Managva, höfuðborg Níkaragva. Tveir ungir menn, stjórnarandstæðingar, sem leituðu skjóls í kirkjunni voru skotnir til bana þar innan dyra á laugardag. Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst tíu féllu og um 20 til viðbótar særðust í aðgerðum lögreglu og vopnaðra öryggissveita í suðurhluta Níkaragva í dag, að sögn Mannréttindasamtaka Níkaragva (ANPDH).AFP-fréttastofan hefur eftir Alvaro Leiva, formanni samtakanna, að sex óbreyttir borgarar, þar af tvö börn, hafi látið lífið í aðgerðunum, en fjórir lögreglumenn féllu líka. Leiva segir þetta bráðabirgðatölur, allt eins sé líklegt að fleiri hafi fallið.

Lögregla og öryggissveitir réðust til atlögu í borginni Masaya og þremur nærliggjandi byggðum.  Aðgerðirnar eru sagðar beinast gegn herskáum hópum stjórnarandstæðinga sem hafi hreiðrað um sig á þessu svæði. Leiva segir leyniskyttur lögreglu hafa komið sér fyrir á nokkrum stöðum á borginni og hafa samtökin látið boð út ganga, þar sem fólk er hvatt til að halda sig heima. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV