Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

10 ár í dag frá falli Glitnis

29.09.2018 - 15:25
Mynd: RÚV / RÚV
Tíu ár eru í dag frá því ríkið eignaðist stóran hluta í Glitni og rétt tæp tíu ár síðan Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segist ekki hafa gert sér grein fyrir hversu vandamálin voru risavaxin þegar hún tók að sér stjórn Glitnis fyrir tæpum tíu árum.

29. september 2008 var á mánudegi. Helgina á undan höfðu tíðir fundir ráðherra, seðlabankastjóra og forystumanna bankanna vakið athygli.

„Ég er búinn að vera tæplega viku í burtu og er að setja mig inn í það sem hefur verið að gerast hérna heima. Og þingið er að koma saman, fjárlögin koma á næstunni, og það er heilmargt að tala um. Þannig að þetta er nú ekkert óeðlilegt,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra 28. september 2008. Þá um kvöldið og nóttina voru fundir í Seðlabankanum, Glitni og hjá Stoðum, stærsta hluthafa Glitnis.

Morguninn eftir var fréttamannafundur þar sem fram kom að ríkissjóður hefði eignast 75 prósent í Glitni. Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri sagði að ef bankinn fengi ekki hjálp á þrengingartímum, fengi ekki fjármögnun, þá myndi bankinn ekki lifa af. „Það er ekki flóknara en það,“ sagði Davíð.  

„Ég er ekki viss um á þeim tímapunkti að ég hafi gert mér grein fyrir því hvað ég var að taka að mér. Verkefnið var risastórt og risavaxið. Og vandamálin í sjálfu sér stærri heldur en ég hafði búist við,“ segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, sem skipuð var bankastjóri Glitnis 15. október 2008, en hafði áður verið framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs hjá Glitni. 

„Náttúrlega flestir okkar viðskiptavinir voru með einhverja óvissa stöðu, sem við þurftum að vinna í og hjálpa. Og síðan náttúrulega starfsfólkið okkar, sem var líka óöruggt, hvað myndi gerast með þeirra starf og hvernig var framtíð bankans, hvernig hún myndi verða,“ segir Birna. 

Málaferlum sem tengjast Glitni er ekki lokið. Í vikunni var í málflutningur í Aurum málinu í fjórða sinn en það snýst um lánveitingar Glitnis til kaupa á skartgripakeðjunni Aurum. Ríkið á Íslandsbanka og fékk 13 milljarða króna í arðgreiðslu frá bankanum í ár. Ekki er búið að ákveða hvenær bankinn verður seldur. 

Birna segir fjármálamarkaðinn allt annan en var fyrir hrun. Nú séu ríkari kröfur, sterkari umgjörð og regluverk. „Það er aukin skynsemi. Og auðvitað vitum við og viðskiptavinir okkar hvaðan við erum að koma. Fólk er að taka minni hluta að láni og það er meira eigið fé í þeim verkefnum sem við sjáum. Ég held að það sé svo mikilvægt tíu ár frá hruni. Það eru einungis 42 prósent af starfsmönnum bankans sem voru hér fyrir tíu árum síðan. Við verðum svo sannarlega að rifja upp söguna en að sjálfsögðu halda áfram líka. Og muna hvaðan við komum og læra af því.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV