Deilur og stríð

Myndskeið
Friðarverðlaunahafinn John Hume látinn
John Hume, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels ásamt David Trimble fyrir friðarsamkomulagið á Norður-Írlandi, er látinn. Hann var 83 ára. Hume, sem var leiðtogi stærsta flokks kaþólikka skrifaði ásamt Trimble undir Belfast-samkomulagið í apríl 1998. Þeir sneru síðan bökum saman og tryggðu samkomulaginu sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu, meðal annars með því að koma fram á tónleikum írsku rokksveitarinnar U2.
03.08.2020 - 10:10
Skotárás á fangelsi í Afganistan
Að minnsta kosti þrír létust og fimm særðust í skotárás á fangelsi í borginni Jalalabad í Austur-Afganistan í dag. Árásarmenn komu fyrir bíl fullum af sprengjum við fangelsið og skutu að fangavörðum. AFP fréttastofan greinir frá.
02.08.2020 - 18:10
Fimm hundruð talibanar látnir lausir
Ashraf Ghani, forseti Afganistans, fyrirskipaði í dag að fimm hundruð talibönum yrði sleppt úr fangelsi. Þriggja sólarhringa vopnahlé er gengið í gildi í landinu vegna Eid al-Adha trúarhátíðarinnar.
31.07.2020 - 15:08
Nýtt vopnahlé í Úkraínu
Nýtt vopnahlé hófst í austurhluta Úkraínu í gærkvöld. Það er í samræmi við samkomulag sem náðist í viðræðum milli Úkraínumanna og Rússa í síðustu viku sem Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hafði milligöngu í.
27.07.2020 - 09:16
Yfir 60 myrt af vígamönnum í Súdan
Yfir 60 óbreyttir borgarar voru myrtir og minnst 60 til viðbótar særðust þegar hundruð vopnaðra manna réðust á smábæ í vesturhluta Darfur-héraðs í Súdan í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samræmingarskrifstofu mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar segir að árásarmennirnir hafi ráðist sérstaklega að fólki af Masalít-þjóðinni, myrðandi og meiðandi, og farið ránshendi um heimili þess áður en þeir brenndu þau til kaldra kola.
27.07.2020 - 00:42
Talibanar segjast tilbúnir í friðarviðræður
Talibanar í Afganistan segjast tilbúnir að hefja friðarviðræður við stjórnvöld í Kabúl í næsta mánuði. Skilyrðið sem þeir setja er að öllum föngum, sem samið hafði verið um að yrðu látnir lausir, hafi þá verið sleppt.
23.07.2020 - 17:46
Rússar og Tyrkir hvetja til vopnahlés
Rússar og Tyrkir hafa sammælst um að þrýsta á deilendur í Líbíu að semja um vopnahlé. Öryggisráðgjafi Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta greindi frá þessu í morgun.
23.07.2020 - 08:46
45 talibanar og óbreyttir borgarar féllu í loftárásum
Minnst 45 fórust í loftárásum afganska hersins á ætlaðar bækistöðvar talibana í austurhluta Afganistans í gær, miðvikudag. Fréttastöðin Al Jazeera hefur eftir Ali Ahmad Faqir Yar, svæðisstjóra í Adraskan í Herat-héraði, að minnst átta óbreyttir borgarar hafi verið í hópi hinna látnu. Hvort fleiri óbreyttir borgarar hafi fallið er óljóst enn.
23.07.2020 - 06:38
Ekkert fararsnið á Tyrkjum
Tyrkneskt herlið verður áfram í Sýrlandi þangað til búið verður að tryggja þar frið, öryggi og frelsi fyrir þegna landsins. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í dag.
21.07.2020 - 16:01
Egypska þingið heimilar hernað í Líbíu
Egypska þingið samþykkti í gær að herinn fengi heimild til hernaðaraðgerða utan landamæra ríkisins. Ástæðan er aukin spenna í grannríkinu Líbíu.
21.07.2020 - 08:25
Armenar og Aserar berjast enn
Bardagar blossuðu upp á ný á landamærum Armeníu og Aserbaísjan í nótt, en að minnsta kosti sextán hafa fallið í bardögum þar síðan um helgi.
16.07.2020 - 08:56
Egyptar fá grænt ljós í Líbíu
Þingið í Benghazi í Líbíu samþykkti í morgun að Egyptar gætu tekið beinan þátt í hernaðinum í landinu til að bregðast við aukum áhrifum Tyrkja, sem styðja alþjóðlega viðurkennda stjórn í Trípólí. Þetta er talið auka hættu á átökum milli erlendra herja í Líbíu.
14.07.2020 - 12:03
Mannfall í landamæradeilum
Ellefu hermenn frá Aserbaísjan hafa fallið í átökum við armenska hermenn á landamærum ríkjanna undanfarna tvo daga. Fulltrúi varnarmálaráðuneytis Aserbaísjan staðfesti þetta í morgun.
14.07.2020 - 11:09
Óttast að olíumengunarslys kunni að vera í uppsiglingu
Óttast er að yfirgefið og illa farið olíuflutningaskip úti fyrir ströndum Jemen kunni að valda mengunarslysi verði ekki brugðist við. Tankar skipsins eru hálffullir af hráolíu og er óttast að hún leki út frá skipinu vegna ryðs og tæringar. Alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld í Jemen hafa leitað til Sameinuðu þjóðanna og sagt að skipið gæti sprungið og valdið stærsta umhverfisslysi í heimshlutanum og jafnvel á heimsvísu.
12.07.2020 - 11:36
Rússar höfðu sitt fram: Aðeins ein leið til Sýrlands
Öryggsiráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag að heimila flutninga hjálpargagna til Sýrlands í gegnum eina landamærastöð á landamærum þess að Tyrklandi í eitt ár.
Lokað á alla utanaðkomandi mannúðaraðstoð til Sýrlands
Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna tókst ekki að ná sátt um tilhögun utanaðkomandi mannúðaraðstoðar til milljóna stríðshrjáðra Sýrlendinga í gærkvöld og því eru alþjóðlegum hjálparsamtökum nú allar leiðir lokaðar inn í Sýrland, þar sem milljónir almennra borgara líða alvarlegan skort á öllum helstu nauðsynjum.
Hvetur Ísraelsmenn til að hætta við
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hvatti í morgun Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, til að hætta við áform um innlimun svæða Palestínumanna í Ísrael. Leiðtogarnir ræddust við í síma í morgun. 
Erlend afskipti í Líbíu hafa „náð áður óþekktum hæðum“
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, greindi Öryggisráði samtakanna frá því í gærkvöld að borgarastríðið í Líbíu væri komið á annað og enn alvarlegra stig en áður, þar sem „erlend afskipti hafa náð áður óþekktum hæðum." Borgarastyrjöld hefur geisað - með mislöngum hléum - allar götur síðan Muammar Gaddafi var steypt af stóli með aðstoð herja Atlantshafsbandalagsins árið 2011.
09.07.2020 - 05:52
Vígamenn íslamista felldu 23 nígeríska hermenn
23 nígerískir hermenn féllu þegar vígasveitir öfgaíslamista gerðu sveit þeirra fyrirsát í Borno-héraði í Norðuausturhluta Nígeríu í dag. Þetta er haft eftir heimildarmönnum innan Nígeríuhers. Auk þeirra sem féllu er nokkurra hermanna saknað eftir árás vígamannanna, en ekki hefur verið upplýst hversu margir eru horfnir.
09.07.2020 - 03:44
Sýrland
Tillaga Rússa um að takmarka neyðaraðstoð felld
Tillaga Rússa um að draga úr utanaðkomandi mannúðaraðstoð við stríðshrjáða Sýrlendinga var felld í Öryggisráðinu í gærkvöld með atkvæðum sjö ríkja gegn fjórum. Fulltrúar fjögurra ríkja sátu hjá. Á þriðjudag beittu Rússar og Kínverjar neitunarvaldi til að koma í veg fyrir framlengingu samkomulags um mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna við nauðstadda Sýrlendinga, í gegnum tvær landamærastöðvar á mörkum Tyrklands og Sýrlands.
Ásakanir um stríðsglæpi í Idlib
Rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sakar stríðandi fylkingar í Sýrlandi um stríðsglæpi í bardögum undanfarna mánuði. Sprengjum hafi verið varpað á skóla, sjúkrahús, markaði og fólk á flótta frá átakasvæðum.
08.07.2020 - 08:12
Bandaríkjaþing samþykkir hertar aðgerðir gegn Kína
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti einróma að beita þungum refsiaðgerðum gegn kínverskum embættismönnum og lögreglunni í Hong Kong vegna nýrra öryggislaga gagnvart íbúum Hong Kong. Á fyrsta degi nýju laganna voru nokkur hundruð handtekin í héraðinu.
02.07.2020 - 01:51
Pompeo hótar aðgerðum gegn Kína
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, boðar nýjar aðgerðir gegn Kína vegna samþykktar nýrra öryggislaga er varða Hong Kong. Hann segir þetta sorglegan dag fyrir Hong Kong og frelsisdýrkendur í Kína. Í yfirlýsingu Pompeo segir að Donald Trump forseti hafi ákveðið að afnema stefnumál gagnvart sérstakri stöðu Hong Kong, með örfáum undantekningum. Bandaríkin ætli ekki að sitja hjá þegar Kínverjar setja Hong Kong undir járnhælinn sinn. 
01.07.2020 - 01:51
Ísrael: Gantz vill fresta innlimun
Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels og tilvonandi forsætisráðherra, segir að bíða verði með að innlima svæði Palestínumanna á Vesturbakkanum þar til tökum hafi verið náð á COVID-19 farsóttinni.
Tugir létust í sprengjuárás á markað
Að minnsta kosti 23 almennir borgarar létu lífið þegar sprengjuárás var gerð í dag á markað í Helmandhéraði í suðurhluta Afganistans. Fimmtán særðust. Bílsprengja sprakk á markaðinum og á hann var skotið fjórum flugskeytum, segir í yfirlýsingum frá héraðsstjóranum í Helmand og afganska hernum.
29.06.2020 - 15:02