RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Sviss kýs ríkisútvarp eins og aðrar Evrópuþjóðir

Þorpið Saas-Grund í Sviss, neðan við jökulinn Trift.
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Burtu með útvarpsgjaldið! Þannig hljómaði krafa ungliða í flokki frjálslyndra demókrata í Sviss sem nutu stuðnings frá Flokki fólksins. Þeir knúðu fram þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var um helgina.

Ef Svisslendingar hefðu hafnað útvarpsgjaldinu, hefði svissneska ríkisútvarpið SRG í raun verið lagt niður í kjölfarið, svo að atkvæðagreiðslan snerist í raun um hvort Svisslendingar vildu ríkisútvarp.

Afgerandi niðurstaða

Niðurstaðan var afgerandi. Eftir líflega kosningabaráttu voru 71,6% á því að þau vildu greiða afnotagjald og njóta almannaþjónustu áfram. Kosningaþátttaka var meiri en Svisslendingar eiga að venjast og meirihluti kjósenda í öllum kantónum Sviss sýndi stuðning sinn við ríkisútvarp í verki.

Þeir sem styðja almannaþjónustu og vilja viðhalda afnotagjaldinu, segja mikilvægt að allir íbúar landsins fái fréttir á sínu tungumáli, en í Sviss eru fjögur opinber tungumál. Þá komst fjölmiðlastofa Sviss að þeirri niðurstöðu, að endalok ríkisútvarpsins myndu hafa margvísleg neikvæð áhrif og m.a. leiða til hruns auglýsingamarkaðar í ljósvaka þar sem auglýsingar myndu að megninu til flytjast til netmiðla ýmiss konar. Auglýsingaheimildir SRG hafa til þessa verið nokkuð rýmri en heimildir RÚV.

Þótt Sviss sé fjölmennara land en Ísland hefur útvarpsgjaldið þar verið nokkru hærra en hérlendis. Til stendur að það lækki nokkuð frá 2019 en það verður eftir sem áður hærra en útvarpsgjaldið á Íslandi sem hefur lækkað umtalsvert á undanförnum árum.

Mikill stuðningur við almannamiðla

Niðurstaða Svisslendinga er í takt við stuðninginn sem RÚV nýtur meðal landsmanna en nýleg könnun hér á landi sýnir meiri stuðning við RÚV en um árabil. Almannamiðlar njóta raunar yfirgnæfandi stuðnings í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Almenningur gerir ríkulegar kröfur til þessara miðla og vill líflega umræðu um áherslur þeirra og efnisframboð. Það er gott. Almannaþjónustumiðlar eiga að þjóna almenningi. Þeir gegna mikilvægu lýðræðishlutverki, eru menningarstofnanir og söguritarar samtímans. Svisslendingar vilja hafa sitt ríkisútvarp.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri

06.03.2018 kl.09:02
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Bloggið, Bloggið, Ríkisútvarp Sviss, SRG, Sviss, þjóðaratkvæðagreiðsla