RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Orð í belg - skýrsla um rekstrarumhverfi fjölmiðla

Mynd með færslu
 Mynd:
Í gær var opinberuð skýrsla um rekstrarumhverfi fjölmiðla. Skýrslan er um margt gott innlegg inn í nauðsynlega umræðu um íslenska fjölmiðlun.

Í skýrslunni er margt áhugavert að finna og víða mikill samhljómur milli þessarar greiningar á stöðu íslenskra fjölmiðla og stefnu RÚV sem kynnt var í fyrra (og má nálgast hér). Þetta lýtur ekki síst að þeim miklu breytingum sem hafa orðið á umhverfi fjölmiðla og hlutverki þeirra, meðal annars vegna tækniþróunar og innrásar erlendra efnisveitna. Það er ekki að ástæðulausu sem stefna RÚV tekur sérstaklega til hlutverks RÚV í þessu samhengi og það er bæði ánægjulegt og mjög jákvætt að hefja umræðu um hvernig aðrir fjölmiðlar takast á við þessar áskoranir – þá bæði hvaða hlutverki þeir gegna sem og hvernig kann að vera hægt að létta þeim að sinna því hlutverki.  Við viljum jú öll að hér á landi þrífist fjölbreyttir einkareknir miðlar við hlið öflugs ríkisútvarps. 

Skoðum nokkur lykilatriði í skýrslunni 

Í skýrslunni er rætt um nokkrar mögulegar leiðir til að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla. Þarna eru aðgerðir sem snerta RÚV lítið með beinum hætti en sumar gætu haft jákvæð áhrif á einkarekna miðla og fjölmiðlalandslagið í heild. Lagðar eru til breytingar á skattaumhverfi, endurgreiðslu á kostnaði við gerð fréttaefnis, textunar og talsetningar og undanþágur frá textunum. Einnig er lagt til að áfengis- og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar.  

RÚV af auglýsingamarkaði er sú tillaga nefndarinnar sem snertir RÚV með beinum hætti og sú sem hefur verið langfyrirferðarmest í fjölmiðlaumfjöllun. Nefndin klofnar í afstöðu sinni til hennar. Að auki virðist vera lítil sannfæring meðal nefndarmanna um að þessi aðgerð hafi í raun jákvæð áhrif á aðra íslenska fjölmiðla. Í skýrslunni eru raunar dregin fram mörg rök fyrir því að brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði geti verið óskynsamlegt. Þar er vísað í misheppnaðar tilraunir af sama tagi í Frakklandi og á Spáni. Einnig er bent á að ólíklegt sé að tekjurnar sem RÚV yrði af myndu flytjast til einkamiðlanna, heldur sé í raun mun líklegra að kakan minnki verulega eða að fjármunir færist í enn ríkari mæli til erlendra efnisveitna. Sjálfstæðir framleiðendur óttast enn fremur að framleiðsla sjónvarpsauglýsinga hér á landi myndi dragast verulega saman við þetta. Loks er undirstrikað að núverandi staða RÚV sé alls ekki einsdæmi í Evrópu, því flestir ríkisfjölmiðlar hafi hluta tekna sinna af sölu auglýsinga og kostunar.    

Það er að sjálfsögðu viðfangsefni stjórnmálamanna að taka afstöðu til þess hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almannaþjónustu sé heppilegast, hvort það sé gert með blandaðri leið útvarpsgjalds og auglýsingasölu eða með útvarpsgjaldinu einu. Það sem skiptir öllu máli er að RÚV sé sjálfstætt og fært um að uppfylla lögbundið hlutverk sitt – og til þess þarf fjármuni.  

Að undanförnu hefur verið  skerpt á hlutverki Ríkisútvarpsins og við gerum nú meira en áður af því sem flokkast undir almannaþjónustuhlutverk RÚV en minna af því sem nálgast má í gegnum alþjóðlegar og innlendar efnisveitur.  Á sama tíma vinnum við hörðum höndum að því að þróa RÚV inn í nýja stafræna framtíð. Mikilvægi fyrir öfluga almannaþjónustu hefur sjaldan verið meira en nú á tímum falsfrétta og þegar gríðarlegt framboð er af erlendri afþreyingu á  erlendum tungumálum.  Þjóðin vill öfluga þjónustu RÚV og hefur staðfest það ítrekað í trausts- og viðhorfsmælingum sem sýna afar sterka stöðu RÚV um þessar mundir.   

Hvað skiptir máli í raun og veru?  

Við viljum öll að á Íslandi sé fjölbreytt fjölmiðlalandslag sem sinnir lýðræðislegum og menningarlegum kröfum þjóðarinnar. Þá þarf að gera skýran greinarmun á eðli miðlanna, muninum á alvöru fjölmiðlum og einföldum efnisveitum. Til þess að færa umræðuna um íslenska fjölmiðlun á næsta stig þarf að ræða hvaða fjölmiðlun skiptir máli fyrir íslenska menningu, lýðræði og upplýsingafrelsi. Á tímum þar sem traust á stofnunum samfélagsins, í víðasta skilningi þess orðs, fer þverrandi er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að staðinn sé vörður um það sem sannara reynist, svo vitnað sé í Ara fróða.  Hvaða fjölmiðlun þarfnast stuðnings og jafnvel verndar fyrir risavöxnum, erlendum risum, hvaða kröfur á að gera til einkamiðla og hvaða fjölmiðlaverkefni má að skaðlausu eftirláta risunum.  Það má vel styrkja ákveðna þætti án þess að það þýði að aðrir veikist.  

Þetta er stórt og mikilvægt verkefni. Það snýst jafnvel um sjálfstæði þjóðarinnar og menningararf hennar, lýðræðislega umræðu og heilbrigt samfélag. Það er okkar allra að taka þátt í þeirri umræðu, efla þannig grunnstoðir vandaðrar fjölmiðlunar – almannaþjónustunnar og einkamiðla –  og tryggja með því íslenskum almenningi þá þjónustu sem hann á heimtingu á. 

Magnús Geir  Þórðarson, útvarpsstjóri

26.01.2018 kl.16:24
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Bloggið, Bloggið