RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Öll elskum við Sögu

Bron III Broen III
Sofia Helin as Saga Norén
Thure Lindhardt as Henrik
Director: Henrik Georgsson, Rumle Hammerich
Photo: Baldur Bragason
Produced by Filmlance International AB
 Mynd: Rúv Rúv - RÚV RÚV
Enginn miðill sameinar fólk með sama hætti og sjónvarpið, þegar fjölskyldan safnast saman til að njóta saman spennandi viðburða og dagskrár á skjánum. Þessar stóru stundir eru merkilega margar.

Stórir íþróttaviðburðir, skemmti- og spurningaþættir, Áramótaskaup og Söngvakeppnin hafa á undanförnum árum fyllt þennan flokk sjónvarpsviðburða sem sameinar þjóðina fyrir framan viðtækin.

En nýlega hefur stór hluti þjóðarinnar líka tekið fagnandi nýjum íslenskum, leiknum þáttaröðum eins og Ófærð, Föngum og Ligeglad og beinar útsendingar frá leiksýningum og sinfóníutónleikum hafa fallið í kramið.  Er þessi viðbót í takt við stóraukna áherslu RÚV á framboð á íslensku efni á íslenskri tungu.

Norrænt gæðaefni á RÚV

Á mánudag bættist enn í þennan hóp, þegar um þriðjungur landsmanna fylgdist agndofa með tveimur lokaþáttum sænsk-dönsku þáttanna Brúarinnar. Örlög Sögu vöktu umræður á samfélagsmiðlum, helteknir aðdáendur söfnuðust jafnvel saman á öldurhúsum til að verða vitni að endalokunum. Og hver sá sem ljóstraði þeim upp mátti búast við hörðum viðbrögðum þeirra sem ekki vissu.

RÚV skynjaði þennan mikla áhuga og brá þess vegna á það ráð að sýna lokaþættina tvo sama kvöld. En kvöldið markaði líka önnur tímamót, því að um leið voru allir þættirnir af Brúnni, allt frá upphafi, gerðir aðgengilegir í nýjum spilara RÚV á RÚV.is. Það er merkilegt af fleiri en einni ástæðu.

Á árum áður hefði það talist til tíðinda ef stór hluti þjóðarinnar hefði setið á sætisbrúninni yfir skandinavískum þætti. Mín kynslóð man helst eftir dönskutímum í skóla og efninu sem þar var sýnt. Hvorugt var sérstaklega vinsælt. Sem betur fer eru tímarnir breyttir. Nú er norrænt leikið efni komið í fremstu röð á heimsvísu, danska ríkisútvarpið DR tók við Emmy-verðlaunum í fyrra, norska ríkisútvarpið NRK á síðasta ári og aldrei hefur verið meiri eftirspurn eftir leiknu íslensku sjónvarpsefni.

RÚV hefur mætt þessum breytta áhuga og kröfum, dregið úr framboði á bandarísku afþreyingarefni og aukið efni á öðrum tungumálum – þar með talið á íslensku. Erlendar efnisveitur bjóða upp á sífellt meira af vandaðri afþreyingu á ensku svo að nánast má tala um ofgnótt. Meðal annars af þeirri ástæðu setjum við í forgrunn íslenska dagskrárgerð og framboð af gæðaefni frá Norðurlöndunum, Evrópu og ýmsum hornum heimsins. Vandað leikið efni, fræðslumyndir og heimildarmyndir hafa forgang. Og það ánægjulega er að þvert á spár margra dró ekki úr áhorfi landsmanna við þessar breytingar, heldur hefur það haldist stöðugt. Reglulegar viðhorfsmælingar staðfesta að viðhorf í garð  RÚV er jákvæðara nú en um langt árabil.

Nýjar miðlunarleiðir

Nýr spilari er einnig til marks um breyttar áherslur RÚV. Almannaþjónusta á að bjóða eitthvað fyrir alla; upplýsa, fræða og skemmta. Hún þarf líka að mæta breyttu notkunarmynstri almennings, breyttum kröfum og tækni. Það gerir RÚV með nýjum spilara, bæði í tæknilegum skilningi og með því að bjóða þar upp á annars konar áhorfsmynstur – til dæmis að horfa á alla þætti Brúarinnar frá upphafi.

Til að bæta og auka enn framboð á framúrskarandi norrænu efni hafa almannaþjónustumiðlar á Norðurlöndunum, DR, NRK, RÚV, SVT og YLE nú gert samkomulag um stóraukið samstarf og samframleiðslu. Þessi aukning mun skila sér beint til íslenskra áhorfenda með meira gæðaefni frá systurstöðvum RÚV, bæði í línulegri dagskrá sem og í nýjum spilara sem býður upp á notkun hvar og hvenær sem hverjum hentar.

Sem fyrr skiptir mestu máli að efnið sjálft spegli okkar líf, segi okkar sögu eða setji umheiminn í samhengi. Því öll elskum við góða sögu.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri

 

23.02.2018 kl.14:02
Magnús Geir Þórðarson
Birt undir: Bloggið, Bloggið