RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Menningin og RÚV

Mynd með færslu
 Mynd:
Á þessari eyju sem við byggjum hafa ætíð verið sagðar sögur. Þó menn hafi oft þurft að hafa fyrir lífinu hér á landi, þá stöðvaði það ekki forfeður okkar og mæður í því að skapa, skrifa og túlka. Enda er það jú svo að þó að lífið sé saltfiskur eins og Laxness sagði, þá er það ekki bara saltfiskur. 

Ein af eilífðarspurningunum sem við stöndum öll reglulega frammi fyrir er hver sé tilgangurinn með þessu öllu. Flestir svara því eflaust til að tilangur lífsins sé að geta af okkur afkvæmi og elska. En nátengt þessum tilgangi er þörfin til að skapa, láta snerta sig, finna til samkenndar – að lifa. Þannig má segja að menningin sé það sem gerir okkur mennsk.  

Ýmist meðvitað eða ómeðvitað hafa flest okkar þörf fyrir að skapa eða njóta sköpunar. Sumir hreinlega verða að skapa til að komast af. Sú er raunin með Heklu, aðalpersónu í nýrri frábærri skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Ungfrú Ísland, sem kom út fyrir jólin. Á einum stað í sögunni lýsir Hekla þörfinni til sköpunar þannig:  

Ég sæki ritvélina undir rúmið, opna dyrnar fram í eldhús, legg ritvélina á eldhúsborðið og dreg blað í hana. 

Ég held á tónsprotanum.  

Ég get kveikt stjörnu á svartri hvelfingunni. 

Ég get líka slökkt á henni.  

Heimurinn er mín uppfinning.  

Á örlagastundu í síðari heimstyrjöldinni, á miklum niðurskurðartímum í Bretlandi, svaraði Winston Churchill fyrir tillögu sína um aukin útgjöld til lista með orðunum: „Ég geri þetta til að minna okkur á fyrir hverju við berjumst“. Í þessari afdráttarlausu afstöðu forsætisráðherrans birtist elska á mennskunni og djúpur skilningur á mikilvægi menningar fyrir þjóðina.  

Sem betur fer stöndum við á Íslandi ekki í stríði. Hér gengur vel og blásið hefur byrlega í efnahagslífinu á undanförnum árum. Þrátt fyrir það eru blikur á lofti, við stöndum á tímamótum. Ógnin, er við köllum svo, er stóraukið framboð af erlendu afþreyingarefni, einkum á enskri tungu í gegnum alþjóðlegar efnisveitur. Þetta efni stendur öllum til boða hvenær sem er. Þessi staða er að sjálfsögðu á margan hátt jákvæð og í henni felast mörg tækifæri en á sama tíma getur hún, ef ekki er rétt á spilum haldið, verið stórhættuleg íslenskri menningu og tungu. Þessi staða krefur okkur öll því um viðbrögð og aðgerðir.   

Því er  það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við leggjum enn meiri áherslu en áður á að segja okkar sögur. Sögur af lífinu í landinu okkar og á okkar tungumáli.  

Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ef við ætlum að tryggja að börnunum okkar standi til boða íslenskt menningarefni á íslenskri tungu, þá þurfum við að vera enn einbeittari en áður. Framtíð tungunnar og sagna okkar er í húfi.  

Þetta er ekki síst verkefni okkar hjá Ríkisútvarpinu. Til þess að standa undir því höfum við á undanförnum árum forgangsraðað þannig að menningarefni, innlent efni og þjónusta við börn er í algerum forgangi. Við segjum sögur úr okkar umhverfi og þær sögur segjum við á íslensku.  

Við höfum stóraukið framlag okkar til leikins efnis sem heillar nú Íslendinga og raunar áhorfendur um allan heim – íslenskar sögur eiga jú ekkert endilega bara erindi við Íslendinga. Við höfum fjölgað mikið útsendingum frá menningarviðburðum af öllu tagi, íslensk tónlist er í forgrunni á Rás 2, menningarumfjöllun hefur verið aukin og sett á sterkari tíma í dagskránni, nýr menningarvefur var opnaður, bókmenntalestrum fjölgað og KrakkaRÚV hefur gert kraftaverk í barnamenningu hér á landi.  Þannig hefur RÚV kappkostað að miðla menningu, hafa frumkvæði í listsköpun, hvetja til menningariðkunar og segja frá menningu.  Sögur – menningarhátíð barnanna lýsti vel nálgun KrakkaRÚV á þessu sviði. Þar var kjörorðið #Krakkargeta, því auðvitað er það svo að krakkar geta allt. Þeir geta skrifað, leikið, dansað, sungið og skapað. Þá er það okkar að skapa aðstæðurnar og umgjörðina.  

Í samfélagi okkar á það að vera sjálfsagður hlutur að njóta menningar og taka þátt í sköpun, því  “Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni”  eins og Jón Prímus sagði í Kristnihaldi undir Jökli.  

Menningarviðurkenningar RÚV eru orðnar að föstum lið í menningarlífi landsins. Hér veitum við viðurkenningar og fögnum þeim frábæra hópi listamanna sem hlotið hafa mikilvægan stuðning í gegnum menningarsjóði okkar. Ég vil nota tækifærið og óska þeim öllum til hamingju. Á sama tíma þakka ég þeim og öllum þeim ótal listamönnum og menningarstofnunum sem við áttum í gæfuríku samstarfi við á liðnu ári.     

Við hjá RÚV ætlum áfram að vera í fararbroddi í íslenskri menningu. Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að hér á landi búi áfram vakandi og víðsýn þjóð. Á Íslandi verða áfram sagðar sögur, hér verður skrifað, leikið og sungið á íslensku og þjóðin mun áfram lifa í skáldskap. 

Ávarp flutt af Magnúsi Geir Þórðarsyni, útvarpsstjóra við afhendingu menningarviðurkenninga RÚV, 4. janúar 2019.

 

 

05.01.2019 kl.10:00
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Bloggið, Bloggið