RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Er liðsheildin sterkasta vopnið?

Mynd:  / 
KrakkaRÚV var sett á laggirnar í október 2015. Síðan þá höfum við fengið að vinna með ungum snillingum af landinu öllu sem hafa fengið okkur til að hlæja, tárast, undrast, gleðjast og allt þar á milli.

Með hnyttnum tilsvörum, óvæntum hæfileikum, hugmyndaauðgi, jákvæðni og gleði hafa krakkar sýnt okkur að það er svo sannarlega óhætt að horfa björtum augum til framtíðar. Við höfum einnig átt í frábæru samstarfi við fólk og stofnanir um allt land og sjáum mikil tækifæri í enn meiri samvinnu.

#krakkargeta

Frá upphafi hefur leiðarljós okkar hjá KrakkaRÚV verið #krakkargeta. Við vildum skapa vettvang sem hvetur börn til að veita fjölbreyttum hugmyndum sínum og snilligáfu athygli og að þau öðlist skilning á því að innra með þeim búa ótrúleg verðmæti sem geta breytt heiminum. Það má vel færa rök fyrir því að börnin séu framtíðin, eins og Whitney söng, en krakkar búa víst í nútíðinni, líkt og við hin. Við viljum að þau blómstri í dag. Það er kjarninn í starfi KrakkaRÚV. Við erum þakklát fyrir þær frábæru viðtökur sem við höfum fengið og keppumst við það á hverjum einasta degi að gera þjónustuna enn betri.

Frábært starf um allt land

Það eru ekki eingöngu krakkarnir sem hafa veitt okkur hjá KrakkaRÚV innblástur. Um allt land er unnið frábært og fjölbreytt starf í þágu barna. Maður fyllist miklum eldmóði við að upplifa kraftinn, dugnaðinn og það hugsjónastarf sem fer fram svo víða. Hver kannast ekki við starfsmanninn á félagsmiðstöðinni sem vakir alla nóttina til þess að söngvakeppnin verði sem flottust fyrir krakkana? Hver kannast ekki við kennarann sem eyðir allri helginni í að undirbúa leikritið með krökkunum? Hver kannast ekki við starfsmanninn sem leggur alltaf aðeins meira á sig en hann þarf, bara vegna þess að hann vill það besta fyrir krakkana?

Við hjá KrakkaRÚV könnumst vel við þetta fólk. Það hefur verið ómetanlegt fyrir okkur að fá tækifæri til að vinna með þessum snillingum og læra af þeim.

Árangursrík samvinna

Í nýrri stefnu RÚV er mikil áhersla lögð á samstarf og frá upphafi hefur KrakkaRÚV tekið fagnandi öllum hugmyndum um samvinnu og jafnvel leitað uppi spennandi tækifæri til samstarfs. Gott dæmi um árangursríkt samstarfsverkefni er Kóðinn, forritunarkennsla fyrir krakka. Verkefnið var valið eitt af sprotaverkefnum ársins hjá EBU og vakti eftirtekt um alla Evrópu. Það vakti mikla eftirtekt hve víðtækt samstarfið var, en að verkefninu stóðu RÚV, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og Samtök iðnaðarins ásamt fjölmörgum upplýsingatæknifyrirtækjum.

Önnur gjöful samstarfsverkefni sem nefna má eru Krakkakosningar í samstarfi við umboðsmann barna, Ungir fréttamenn í samstarfi við Barnamenningarhátíð í Reykjavík, Tíkallinn í samstarfi við Stofnun um fjármálalæsi, Söguboltinn í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, Umferðarfræðsla í samstarfi við Samgöngustofu, Umhverfisfræðsla í samstarfi við Umhverfisstofnun og loks Sögur, verðlaunahátíð barnanna. Það er því á hreinu að samstarfsverkefnin hafa verið gjöful og hjálpað okkur að ná markmiðum okkar.

Sögur, verðlaunahátíð barnanna

Verðlaunahátíð barnanna, Sögur, var haldin í Eldborgarsal Hörpu 22. apríl. Á þessum stórviðburði verðlaunuðu börn það sem stóð upp úr í menningarlífinu um leið og skapandi krakkar hlutu viðurkenningar. Í tengslum við verkefnið var framleidd sjónvarpsþáttaröð um skapandi skrif, fjórar ritsmíðasamkeppnir voru haldnar, bókaormaráð KrakkaRÚV var stofnað, átta stuttmyndir eftir krakka voru framleiddar af fagfólki, rafbók með smásögum var gefin út af Menntamálastofnun og Borgarleikhúsið hyggst setja upp tvö leikverk eftir krakka á næsta leikári. Skoðanir barna og sköpunarverk þeirra voru sett í fyrsta sæti.

Hátíðin sló algjörlega í gegn en hefði aldrei orðið að veruleika ef ekki hefði verið fyrir frábært samstarf ólíkra stofnana sem leyfðu sér að setja markið hátt og ná í leiðinni þremur sameiginlegum markmiðum:

  1. Að auka lestur barna.
  2. Að upphefja barnamenningu.
  3. Að hvetja börn til skapandi verka.

Nú þegar er hafinn undirbúningur að því að endurtaka leikinn á næsta ári og og við hlökkum mikið til að þróa verkefnið áfram.

Samstarfið um UngRÚV

Nú er í bígerð samstarfssamingur á milli RÚV og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um UngRÚV, vefsjónvarp fyrir unglinga. Þar fá dagskrárgerðarmenn framtíðarinnar tækifæri til að láta ljós sitt skína en hjá UngRÚV er allt efni framleitt af unglingum í 8., 9. og 10. bekk. Ungmennaráð sér um að móta þjónustuna í samstarfi við starfsfólk RÚV og fá tæknimenn og dagskrárgerðarmenn kennslu í framleiðslu vandaðs sjónvarpsefnis. UngRÚV leggur áherslu á fjölbreytileika, styður við unglingalýðræði og er vettvangur fyrir raddir unglinga í íslensku samfélagi. Það er spennandi að fylgjast með því hvað gerist þegar ungmenni, sem hafa alist upp við að deila myndbandsupptökum og náð ótrúlegri hæfni í myndmiðlun á unga aldri, fá sinn eigin íslenska miðil.

Náum við meiri árangri saman?

Í nýlegri viðhorfskönnun á vegum RÚV kemur fram að mikil ánægja er með störf KrakkaRÚV og að meira en 80% heimila nýta sér þjónustu þess. Eins og áður sagði erum við mjög þakklát fyrir þessar móttökur en við erum einnig þakklát þetta gjöfula samstarf sem við höfum átt við stofnanir um allt land. Við höfum styrkt fjölmörg verkefni með þátttöku okkar og á sama tíma náð okkar eigin markmiðum betur.

Og talandi um frábæra samvinnu. Við getum lært ótal margt af íslenska karlalandsliðinu í fótbolta. Það hefur náð undraverðum árangri sem þakka má skýrri framtíðarsýn og samhentu átaki um allt land. Þar var markmiðið skýrt: Að verða betri í fótbolta. Getum við  lært eitthvað af árangri landsliðsins þegar kemur að menntun og barnamenningu? Er liðsheildin kannski sterkasta vopnið? Náum við meiri árangri saman?

Gerum eitthvað einstakt

Í október efnum við til málþings í Útvarpshúsinu og ræðum við fólk sem vinnur að menntun og  barnamenningu hér á landi og fáum til okkar frábæra erlenda gesti sem munu miðla sinni reynslu. Við munum einnig beina sjónum okkar að hlutverki fjölmiðla gagnvart unga fólkinu og hvernig miðlun til þeirra er að þróast. Við vonumst til að þessi vettvangur skapi ný tækifæri til gjöfuls samstarfs á sviði barnamenningar og menntunar. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar.

Vonandi sjáum við ykkur sem flest í október. Gerum eitthvað einstakt!

Sindri Bergmann Þórarinsson

KrakkaRÚV-stjóri