Sjónvarp

Innlend dagskrá – staður stóru stundanna

Sjónvarpsárið 2019

Sjónvarpsárið 2019 var viðburðaríkt og einkenndist af vönduðu dagskrárefni og fjölbreyttum menningar- og íþróttatengdum viðburðum, til dæmis beinum útsendingum frá leiksýningum, tónleikum, verðlaunahátíðum og íþróttamótum, innlendum og erlendum, þar sem fremsta afreksfólki okkar var fylgt eftir.  

Sjónvarpsáhorf hélt áfram að breytast á árinu og merkja mátti töluverða aukningu á svokölluðu hliðruðu áhorfi. Það er allt áhorf eftir frumsýningu í línulegri tímasettri dagskrá á sérstakri sjónvarpsrás, endursýningar og áhorf í spilara á RÚV.is og efnisveitum símafélaga. Þannig hefur heildaráhorf lítið breyst en dreifingin er orðin meiri, efnið sótt víðar og yfir lengra tímabil.  

Nýr spilari er dagskrársettur þannig að efni RÚV er miðlað þar með öðrum hætti og öðrum áherslum en í línulegri dagskrársetningu. Byrjað var að frumsýna efni í meira mæli á spilara RÚV, að gera heilu þáttaraðir aðgengilegar á meðan, og jafnvel áður, en sýning hefst í hefðbundinni línulegri dagskrá RÚV.  

Landinn

Dagur í lífi landans

Gæði, styrkur og erindi þess sjónvarpsefnis sem RÚV bauð þjóðinni upp á á árinu endurspeglaðist í fjölda tilnefninga til Edduverðlauna og jöfnu og góðu áhorfi. Stórir viðburðir á borð við Söngvakeppnina og Eurovision, Áramótaskaupið, beinar útsendingar frá þýðingarmiklum leikjum landsliðanna á stórmótum og í undankeppnum njóta mikilla vinsælda og það sama á við um leikið innlent efni sem áhorfendur sækja mjög í og telja greinilega til stærri sjónvarpsviðburða.   

Sá viðburður sem vakti einna mesta athygli var án efa sólahrings-afmælisútsending Landans, Dagur í lífi landans, þar sem liðsmenn Landans og fjölmörg tökuteymi ferðuðust vítt og breitt um landið og héldu uppi samfelldri dagskrá í beinni útsendingu í 24 klukkustundir. Þetta mæltist vel fyrir og landsmenn tóku virkan þátt, bæði sem áhorfendur og þátttakendur, og fögnuðu hundraðasta þætti eins vinsælasta sjónvarpþáttar RÚV í mörg ár.  

Stúlka ekki brúður

RÚV tók þátt í tveimur stórum og mikilvægum átaksverkefnum á haustmánuðum. Annars vegar umræðuþættinum Vaknaðu sem var í beinni útsendingu og fjallaði um fíkniefnaneyslu ungmenna á Íslandi. Þátturinn tengdist átakinu Á allra vörum sem lagði lið samtökunum Ég á bara eitt líf. Hins vegar var landssöfnunin UN Women, Stúlka ekki brúður, í beinni útsendingu í byrjun nóvember. Að þessu sinni var fjallað um skaðlegar afleiðingar þvingaðra barnahjónabanda í Malaví.  

Enn var aukin áherslan á að sinna sem breiðustum hópi landsmanna, á öllum aldri, í öllum miðlum, með áframhaldandi innleiðingu á sértækri þjónustu. KrakkaRÚV, þjónusta fyrir börn yngri en sextán ára, hélt áfram göngu sinni með auknu framboði af vönduðu innlendu efni sem gjarnan er skapað af börnum. UngRÚV, þjónusta ætluð krökkum á aldrinum 13-16 ára, hélt áfram að festa sig í sessi með dagskrárgerð sem er mikið til í höndum fólks á þeim aldri. Þá var mikill kraftur í RÚV núll sem er þjónusta ætluð ungu fólki á aldrinum 16-29 ára, drifin áfram af dagskrárgerðarfólki á sama aldri.   

500x500_spilarinn

Leikið íslenskt efni í forgrunni 

Fyrir fáeinum árum var tekin stefnumótandi ákvörðun um að auka markvisst, jafnt og þétt, áherslur og framboð á leiknu íslensku efni. Kallast það með beinum hætti á við yfirlýsta dagskrárstefnu RÚV um aukna áherslu á frumskapað íslenskt dagskrárefni; leiknar sögur sagðar á íslensku fyrir íslenska áhorfendur. Það var jafnframt svar við augljósri eftirspurn því að leikið íslenskt efni reynist nær undantekningalaust vera meðal þess efnis sem allra mest er horft á.  

Þrjú stór leikin verkefni voru á dagskrá á árinu. Í upphafi árs hélt önnur þáttaröðin af hinum geysivinsælu glæpaþáttum Ófærð eftir Baltasar Kormák áfram en tveir fyrstu þættirnir voru frumsýndir á RÚV í árslok 2018. Þættirnir voru tíu og skörtuðu sem fyrr þeim Ólafi Darra Ólafssyni, Ilmi Kristjánsdóttur og Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverkum. Þættirnir slógu áhorfsmet og hafði enginn dagskrárliður, hvorki fyrr né síðar, fengið jafn mikið hliðrað áhorf.  

Í október var frumsýnd ný sex þátta leikin þáttaröð, Pabbahelgar, eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, sem einnig leikstýrði þáttunum og lék aðalhlutverkið. Þættirnir fjalla um Karen, 38 ára hjónabandsráðgjafa og þriggja barna móður, sem stendur frammi fyrir erfiðum ákvörðunum þegar hún kemst að því að eiginmaður hennar hefur verið henni ótrúr. Þættirnir vöktu mikla athygli fyrir hispurslausan leik og skemmtilega nálgun á umfjöllunarefni sem stór hluti Íslendinga þekkir eða getur tengt við: sambandsslit, skilnað, ástarsorg, skiptingu eigna og umgengni við börn sín.  

Brot

Í árslok, eða á jóladag, var fyrsti þáttur í nýrri spennuþáttaröð, Brot, heimsfrumsýnd á RÚV. Þættirnir eru sköpunarverk Þórðar Pálssonar sem jafnframt er  einn af leikstjórum þáttaraðarinnar ásamt þeim Davíð Óskari Ólafssyni og Þóru Hilmarsdóttur. Þættirnir fjalla um rannsóknarlögreglukonuna Katrínu sem áttar sig smám saman á því að hún er að fást við fyrsta íslenska fjöldamorðingjann. Nanna Kristín Magnúsdóttir leikur annað aðalhlutverkið ásamt Birni Thors, sem leikur kollega hennar starfandi í Noregi. Netflix tryggði sér sýningarréttinn utan Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem efnisveiturisinn kemur með eins umfangsmiklum hætti að fjármögnun og framleiðslu íslenskrar þáttaraðar.  

Á árinu var tekin upp sú nýbreytni að bjóða upp sýningu á stærstu leiknu verkefnunum með enskum texta á RÚV 2, þar með talið á íslensku leiknu þáttaröðunum, Áramótaskaupinu og völdum íslenskum bíómyndum. Þetta er hluti af nýrri þjónustu RÚV English sem hefur það markmið að ná til nýrra Íslendinga sem enn hafa ekki náð tökum á íslenskri tungu en vilja njóta þess dagskrárefnis sem í boði er.  

Sem endranær voru fjölmargar íslenskar kvikmyndir frumsýndar á árinu.  Íslenska fjölskyldumyndin Sumarbörn eftir Guðrúnu Ragnarsdóttur var frumsýnd að kvöldi nýársdags og tvær verðlaunamyndir voru frumsýndar í hátíðardagskrá í kringum páska: Andið eðlilega eftir Ísold Uggadóttur var frumsýnd föstudaginn langa og Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson að kvöldi páskadags. Meðal annarra íslenskra bíómynda sem frumsýndar voru á árinu má nefna Boðbera eftir Hjálmar Einarsson og Lof mér að falla eftir Baldvin Z.  

Víkingur Heiðar

Aðgengilegt menningarefni 

Menningartengd dagskrárgerð var í hávegum höfð sem fyrr segir. Á fyrsta degi ársins var frumsýnd uppfærsla Íslensku óperunnar á verkinu Brothers eftir Daníel Bjarnason sem unnin var í samstarfi við Den Jyske Opera og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verkið byggist á samnefndri og margverðlaunaðri kvikmynd eftir Susanne Bier 

Um páskana voru sýndar upptökur frá þremur stórum viðburðum: útgáfutónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar í Eldborg í Hörpu haustið 2018 sem helgaðir voru verkum Johanns Sebastians Bachs; 70 ára afmælistónleikum lagahöfundarins og textaskáldsins Magnúsar Þórs Sigmundssonar í Háskólabíói þar sem fram komu meðal annars Páll Óskar, Ragnheiður Gröndal, Jónas Sig, Þórunn Antonía, Jóhann Helgason, Sverrir Bergmann og Fjallabræður; og uppistandssýningu Jóns Gnarr í tilefni tuttugu ára afmælis sýningarinnar Ég var einu sinni nörd.  

Kappsmál

Menningartengdar þáttaraðir sem sýndar voru á árinu voru meðal annars Sporið, ný íslensk þáttaröð í sex hlutum í umsjón Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur þar sem farið var yfir sögu dansins á Íslandi, mismunandi danstegundir kannaðar og við kynntumst því hvernig dansinn brýst fram á ólíklegustu stöðum. 

Í þáttaröðinni Fyrir alla muni var heimur íslenskrar sögu og sagna kannaður með því að skoða muni sem tengjast sérstökum atburðum í sögu þjóðarinnar. Þættirnir voru í umsjón Viktoríu Hermannsdóttur og Sigurðar Helga Pálmasonar, en Sigurður Helgi var sjálfur safnari til fjölda ára.  

Nörd í Reykjavík er sjálfstætt framhald þáttaraðarinnar Djók í Reykjavík sem sýnd var á síðasta ári. Að þessu sinni fór Dóri DNA á stúfana og kynntist nördum í Reykjavík og komst að því hvernig nördar eiga eftir að erfa heiminn.  

Hversdagslegri matarmenningu var einnig gerð skil í stuttu ferða- og matreiðsluþáttunum Soð. Kristinn Guðmundsson ferðaðist með Janusi Braga vini sínum um heimaslóðir á Reykjanesskaga og eldaði fyrir hann. 

Á árinu réðst RÚV í að þróa nýjan spurninga- og skemmtiþátt um íslenska tungu, Kappsmál. Þátttakendur kepptu meðal annars í taugatrekkjandi stafsetningarkeppni, sérhannaðri útgáfu af hengimanni og ýmsum öðrum þrautum. Umsjónarmenn þáttanna eru Björg Magnúsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason. Þátturinn var þróaður í framhaldi af Orðbragði sem vakti mikla athygli á sínum tíma.  

Fastir liðir og ómissandi 

Af föstum dagskrárliðum og áframhaldandi þáttaröðum ber að nefna Landann, sem enn ber höfuð og herðar yfir alla sambærilega þætti hvað áhorf varðar. Sérstök 24 klukkustunda afmælisútsending Landans vakti mikla athygli á haustmánuðum og sameinaði þjóðina sem fylgdist spennt með hverju fótmáli Landahópsins.  

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur hélt áfram að kryfja og vekja athygli á mikilvægum málum í þjóðfélaginu á þriðjudagskvöldum. Samherjaþátturinn í nóvember vakti án efa mestu athyglina á árinu. Í þættinum var fjallað um gögn sem lekið var til Wikileaks og Kveikur hafði rannsakað í samstarfi við Al Jazeera Investigates og Stundina, en samkvæmt þeim á Samherji að hafa í áratug greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu hundruð milljóna í þeim tilgangi að komast yfir eftirsóttan kvóta.  

Kiljan í umsjón Egils Helgasonar fjallaði sem fyrr um bókaútgáfu, sagnahefð og menningarsögu þjóðarinnar á miðvikudögum og Bergsteinn Sigurðsson og Guðrún Sóley Gestsdóttir gerðu helstu menningarfréttum og því sem almennt bar hæst í lista- og menningarlífi þjóðarinnar góð skil fjóra daga vikunnar í Menningunni.   

Vikan með Gísla Marteini

Fjórða þáttaröðin af Ferðastiklum var sýnd á árinu. Lára Ómarsdóttir fór um landið, ásamt föður sínum Ómari Ragnarssyni, hitti alls konar fólk, skoðaði náttúrugersemar og sagði sögur af landi og þjóð.  

Níunda þáttaröð Með okkar augum, þessara margverðlaunuðu þátta sem vakið hafa athygli fyrir nýstárleg og frumleg efnistök, var á dagskrá á haustmánuðum. Sem fyrr er það fólk með þroskahömlun sem vinnur þættina með fagfólki í sjónvarpsgerð og miðlar þannig fjölbreytileika íslensks samfélags. Fyrr á árinu stóð sama teymi bak við gerð tveggja þátta, Heimsleikar Special Olympics. Þar fylgdust Katrín Guðrún og Steinunn Ása úr Með okkar augum með Heimsleikum fatlaðra sem fóru fram í borgunum Abú Dabí og Dubai í mars.  

Heilabrot eru sjálfstætt framhald Edduverðlaunaþáttaraðarinnar Framapots. Í þáttunum kryfja Steiney Skúladóttir og Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir til mergjar geðheilsu og greiningu á andlegri vanheilsu ungs fólks. Í nýrri þáttaröð Paradísarheimtar ræðir Jón Ársæll Þórðarson við fólk sem syndir á móti straumnum og er svolítið öðruvísi en flest annað fólk. Í annarri þáttaröðinni af Veröld sem var fjölluðu Margrét Blöndal og Felix Bergsson um sameiginlegar minningar íslensku þjóðarinnar á léttan og nýstárlegan hátt. 

Af afþreyingar- og skemmtiefni er helst að nefna að tólfta þáttaröð Útsvars lauk göngu sína í janúar og er sú síðasta, í það minnsta að sinni. Gettu betur var á sínum stað í febrúar og mars og Vikan með Gísla Marteini festi sig enn frekar í sessi sem ómissandi partur af föstudagskvöldi landsmanna. 

Hatari

Söngvakeppni í hámælum og sívinsælt Skaup 

Söngvakeppnin 2019 fangaði sem fyrr hug og hjörtu þjóðarinnar. Að þessu sinni var það hjómsveitin Hatari með söngvarana Matthías Tryggvi Haraldsson og Klemens Hannigan fremsta í flokki sem stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins í glæsilegri úrslitakeppni í Laugardalshöll. Hljómsveitin og atriðið sjálft vakti mikla athygli fyrir iðnaðar-teknó-tónlistarstíl sinn, BDSM-legan klæðnað og leikræna tjáningu í tónlistarflutningi sínum. Sigurlagið Hatrið mun sigra keppti fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Lissabon í Portúgal í maí. Lagið komst í gegnum fyrri undanúrslitin og lenti í tíunda sæti keppninnar.  

Af öðrum skemmtiþáttum á árinu má nefna Alla leið,  sem sýndur var í aðdraganda Eurovision, og Sumarið, nýjan og ferskan dægurmálaþátt sem sýndur var fjögur kvöld í viku yfir hásumarið. Umsjón var í höndum Atla Más Steinarssonar, Hafdísar Helgu Helgadóttur og Snærósar Sindradóttur. 

Áramótaskaupið var sem endranær ómissandi endapunktur sjónvarpsársins, en leikstjóri að þessu sinni var Reynir Lyngdal. Einvalalið grínista var í hópi höfunda, þar á meðal Dóra Jóhannsdóttir, Hugleikur Dagsson, Jakob Birgisson, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Reynir Lyngdal, Sævar Sigurgeirsson, Vala Kristín Eiríksdóttir og Þorsteinn Guðmundsson. Áhorfið reyndist með besta móti og viðtökur almennt jákvæðar, bæði í viðhorfskönnunum og af samfélagsmiðlum að dæma. Þátturinn var einnig tilnefndur til Edduverðlauna sem skemmtiþáttur ársins. 

Fjölbreytt og fyrirferðarmikið heimildaefni 

Íslenskar heimildarmyndir voru fyrirferðarmiklar í dagskrá RÚV, en hátt í 30 myndir voru frumsýndar á árinu auk fjölda heimildaþáttaraða. Ákveðið var að gera heimildamyndum hátt undir höfði í upphafi árs með heimildamyndahátíð í janúar þar sem sýndar voru tíu myndir á einum mánuði. Þetta mæltist vel fyrir meðal áhorfenda RÚV og má til að mynda nefna GARN í leikstjórn Unu Lorenzen og UseLess (Sóun) eftir Rakel Garðarsdóttur og Ágústu M. Ólafsdóttur. Báðar myndirnar hafa vakið mikla athygli og sópað til sín verðlauna, bæði hérlendis og erlendis.  

KK

Listamenn í brennidepli  

Hægt er að skipta heimildarefninu sem sýnt var í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi heimildarmyndir sem fjölluðum um listamenn og listir almennt, til að mynda Sjóndeildarhringur eftir Friðrik Þór Friðriksson um myndlistarmanninn Georg Guðna;Blindrahundur um listamanninn Birgi Andrésson; GARN um hóp alþjóðlegra listamanna sem hefur skapað nýja bylgju nútímalistar tengda handverki, hekli og prjónaskap; Skáldagatan í Hveragerði um íslensk skáld sem búsett voru í einni götu í Hveragerði á árum áður,;myndina Á æðruleysinu um tónlistarmanninn KK; Can’t Walk Away um Herbert Guðmundsson; Verksummerki um rithöfundinn og hugsjónakonuna Steinunni Sigurðardóttur; og heimildarmynd í tveimur hlutum um einstaka sögu hljómsveitarinnar Mezzoforte. 

Umhverfismál í víðu samhengi 

Heimildarmyndir um umhverfismál voru þó nokkrar á árinu. UseLess fjallar um neyslu mannsins og hvers vegna við hendum eins miklu og raun ber vitni. Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt fjallar um hvernig maður fer að því að lifa í neyslusamfélagi með sjálfbærni í huga. Borða, rækta fjallar um vistrækt, heildrænt hönnunarkerfi til að skapa sjálfbært samfélag. Draumahúsið fjallar um fyrsta vistvottaða húsið á Íslandi. Katla kemur fjallar um eldstöðina Kötluhættulegasta eldfjall landsins og mögulegar hættur samfara Kötlugosi. Að lokum var sýnd ný íslensk heimildarþáttaröð í tíu hlutum, Hvað höfum við gert? með Sævar Helga Bragason, stjörnufræðing og einn ötulasta umhverfisverndarsinna Íslands, í fararbroddi. Þættirnir fjalla um loftslagsbreytingar, neysluhyggju og ofnýtingu auðlinda. Dregin er upp dökk mynd af áhrifum neyslumenningar okkar á umhverfið, loftslagið, og á okkur sjálf. Þættirnir vöktu gríðarlega athygli víða í þjóðfélaginu og sköpuðust miklar umræður bæði í fjölmiðlum, meðal almennings og hjá ráðamönnum þjóðarinnar um mögulegar lausnir til þess að draga úr loftslagsbreytingum.  

Hvað höfum við gert

Ljóslifandi sögur af fólki 

Kvikmyndir og þáttaraðir um lífshlaup athyglisverða atburði og lífhlaup athyglisverðs fólks í Íslandssögunni voru á dagskrá RÚV á árinu. Litla Moskva eftir Grím Hákonarson fjallar um Neskaupstað og þær stjórnmálalegu breytingar sem orðið hafa í bænum í tímans rás. Í heimildarmyndinni Njósnir, lygar og fjölskyldubönd, varpar kvikmyndagerðarmaðurinn Helgi Felixson ljósi á leyndarmál fjölskyldu sinnar sem leiddi til skelfilegra atburða á Ísafirði fyrir rúmum sjötíu árum. Breska hernámsliðið handtók afa hans og ömmu ásamt fimm öðrum Vestfirðingum og færði í bresk fangelsi. Heimildamyndin Hans Jónatan eftir Valdimar Leifsson fjallar um óvenjulega ævi þræls frá eyjunni St. Croix í Karíbahafi sem barðist fyrir frelsi sínu í Kaupmannahöfn og gerðist síðar verslunarmaður á Djúpavogi. Svarta gengið eftir Kára G. Schram fjallar um Þorbjörn Pétursson, fjárbónda og einsetumann sem þurfti að bregða búi vegna veikinda og neyddist í kjölfarið til að fella allt sauðfé sitt. Í heimildamyndinni Aldrei of seint fjalla Alma Ómarsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir um Ídu Jónasdóttur Herman sem fékk fyrst íslenskra kvenna leyfi til að giftast bandarískum hermanni og flutti vestur um haf undir lok seinni heimsstyrjaldar 

Í þáttaröðinni Sögustöðum fór Eva María Jónsdóttir um landið og sagði sögur af fólki og atburðum úr fortíðinni og sögu réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi gerð skil í heimildarþáttaröðinni Svona fólk eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Frásögnin spannaði fjóra áratugi og rakti baráttu samkynhneigðra fyrir mannréttindum, mannvirðingu og sýnileika allt frá því að fyrsti vísir að hreyfingu þeirra varð til um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og til þess tíma er róttækar lagabætur voru í höfn á fjölskyldurétti samkynhneigðs fólks. Þáttaröðin mæltist vel fyrir og vakti mikla athygli, ekki síst hjá yngri kynslóðum sem telja núverandi réttindi sjálfsögð. 

Pabbahelgar

N12  

Norrænu almannaþjónustustöðvarnar sem vinna saman í Nordvision hafa tekið saman höndum og ýtt úr vör Nordic 12 átakinu. Það miðar að því að tryggja að helstu leiknu verkefnin sem þær framleiða verði sýndar á samstarfsstöðvum annars staðar á Norðurlöndum og gerðar aðgengilegar í ríflegan tíma í ört vaxandi spilurum stöðvanna. Þannig leggja NRK, SVT og DR til þrjár leiknar þáttaraðir ár hvert til samstarfsins, finnska YLE til 2 og RÚV að lágmarki til 1. Verður þannig um meðframleiðslu að ræða og verkin kynnt sérstaklega sem slík. Þessi aukna þjónusta hefur vakið verðskuldaða athygli og stóraukið framboð af vönduðu norrænu leiknu efni á stöðvunum fimm hefur stuðlað að aukinni breidd. Þetta tryggir einnig að þessar þáttaraðir sem eftirsóttar eru um allan heim eru aðgengilegar almenningi í línulegri dagskrá og í spilurum sem hluti af almannaþjónustuhlutverki stöðvanna. Árið 2019 var Pabbahelgar framlag RÚV til N12 samstarfsins og þar með í boði á öllum norrænu almannaþjónustumiðlunum. Meðal annarra N12 þáttaraða sem sýndar voru á RÚV á árinu voru Systur 1968 (Systrar 1968), Dagarnir sem blómin blómstra (De dagar som blommorna blommar) og fyrsta þáttaröðin af Nútímafjölskyldunni (Bonusfamiljen) frá SVT, fyrri þáttaröðin af Á önglinum (Koukussa) og gamanþáttaröðin Donnu blindu (Donna) frá YLE, önnur þáttaröðin af Heimavelli (Heimebane) frá NRK og þriðja og síðasta þáttaröðin af Svikamyllu (Bedrag) frá DR.

Framúrskarandi vinkona

Erlent leikið efni

Árið 2019 stendur upp úr sem eitt stærsta ár til þessa í sýningu á evrópsku leiknu efni, efni frá frændum okkar á Norðurlöndum sem og Bretlandi, Þýskalandi og Ítalíu. Við byrjuðum árið með sýningu á ítölsku seríunni Framúrskarandi vinkona (L’amica geniale) sem byggð er á sögubálki Elenu Ferrante, sýndum nýjustu seríu af Skylduverkum (Line of Duty 5) en þáttaröðin er orðin ein af hápunktunum í dagskrá RÚV. Danska þáttaröðin Svikamylla (Bedrag III) rann sitt skeið í þriðju þáttaröðinni sem og Poldark (Poldark). Stórar þýskar framhaldseríur birtust á skjám landsmanna Babýlon Berlín (Babylon Berlin) sem byggð er á metsölubókum Volker Kutscher og Kafbáturinn (Das Boot) sem byggð er á samnefndri kvikmynd. Frá BBC sýndum við nýja framleiðslu á Vesalingunum, skáldsögu Victor Hugos (Les Misérables)Enn það voru góðkunningjar okkar þeir Séra Brown (Father Brown), Martin Læknir (Doc Martin) og síðast enn ekki síst seinheppnu ærslabelgirnir í Trúði (Klovn) en þeir Frank og Casper reyndust vinsælasta leikna efnið árið 2019. 

Við héldum áfram að þematengja kvikmyndir sem við sýndum um helgar. Teiknimyndaást, dansást og norrænir bíódagar þar sem úrval kvikmynda rataði á skjáinn, til dæmis Leitin af Nemo (Finding Nemo), Aulinn ég  (Despicable Me), Paradísarbíóið (Cinema Paradiso), Nútíminn (Modern Times), Arfurinn (Arven), Elling (Elling), Trú, von og kærleikur (Trohåb og kærlighed) og Laugardagsfár (Saturday Night Fever).

Dynasties

Erlendar heimildarmyndir og fræðsluþættir

Heimildaþáttaraðir frá BBC skipuðu stóran sess í dagskránni stærsta þáttaröð ársins Lífsbarátta í tturunni (Dynasties) reyndist vinsælasta erlenda heimildaþáttaröðin. Haldið var upp á 50 ára afmæli tungllendingarinnar í júlí með fræðsluþáttum á borð við 8 dagar – Til tunglsins og heim á ný ( 8 Days – To the Moon and Back) og Geimfarar – Erfiðasta starf í alheiminum (Astronauts The Toughest Job in the World). Við héldum áfram að kynnast undrum alheimsins á haustdögum í heimildaþáttaröðinni Reikistjörnurnar (Planets) þar sem eðlisfræðingurinn Brian Cox fer á kostum, stór hluti þáttanna var tekin upp á Íslandi. Umdeildustu þættir ársins voru án efa þættirnir Týndu drengirnir í Hvergilandi  (Leaving Neverland) þar sem meint kynferðisofbeldi poppstörnunnar Michaels Jackson er dregið fram í dagsljósið á mjög áhrifamikinn hátt. Þrælaslóðir (Slavery Routes) voru einnig á dagskrá þar sem rakinn er saga þrælaviðskipta í heiminum ígegnum aldirnar. Tónlistatengdir þættir voru einnig á dagskrá má þar nefna: Rómantísku meistararnir: Tónlistabylting 19.aldar (Musical Masters of the 19th Century), Oasis (Oasis: Supersonic)Með eigin orðum: Bruce Springsteen (Bruce Springsteen: In His Own Words) og Duran Duran  (Duran Duran, There is something you should know) svo einhverjar séu nefndar. Við fylgdums einnig með Sælkeraferðum Rick Stein (Rick Stein’s Long Weekends) þar sem hann meðal annars heimsótti Reykjavík. Joanna Lumely kynnti okkur fyrir undrum Japans og síðast enn ekki síst leiddi vísindamaðurinn Stephen Hawking okkur í sannleikann um skipulag alheimsins (Stephen Hawking’s Grand Design). 

Rás 1

Fyrir forvitna

Aukin markaðshlutdeild Rásar 1  

Rás 1 hefur verið á mikilli siglingu undanfarin ár eftir að breytingar hafa verið gerðar á dagskrárramma og dagskrárframboði. Sömuleiðis hefur orðið talsverð endurnýjun í starfsmannahópnum þar sem hópur af ungu dagskrárgerðarfólki hefur verið ráðinn til starfa. Þessar breytingar hafa skilað sér í því að hlustun hefur aukist um þriðjung á línulega dagskrá og Rás 1 á iðulega nokkur af vinsælustu hlaðvörpum landsins í hverri viku. Þáttur Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar, hefur reyndar verið langvinsælasta hlaðvarp landsins síðustu 3-4 ár og var Vera valinn vinsælasti útvarpsmaður landsins í byrjun árs. Á árinu bættust Heimskviður á þennan lista útvarpsþátta Rásar 1 sem hafa gert það gott, bæði í línulegri dagskrá og sem hlaðvarp. Umsjónvarmenn þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir en hann er afrakstur samstarfs Rásar 1 og fréttastofu RÚV. Þáttur Önnu Marsibiljar Clausen, Grár köttur, naut einnig talsverðra vinsælda á fyrri hluta síðast árs og sömuleiðis Skyndibitinn í umsjón Önnu Gyðu Sigurgísladóttur. Allir þessir þættir eru dæmi um dagskrárgerð sem sérstaklega er hugsuð með ólínulega hlustun í huga. Þeir eru sértækir að efni og byggja allir á spennandi og fjölbreyttri hljóðmynd. Hið sama má segja um ýmsar þáttaraðir sem framleiddar voru á árinu, svo sem Ég segi ekki alltaf allt gott, Börn tímans, Blindfull á sólríkum degi, Spekileki, Hyldýpi, Fallnar borgir, Listin að brenna bækur, Völuspá, Ymur II og Loftslagsþerapían en fyrir þá síðastnefndu var Arnhildur Hálfdanardóttir, dagskrárgerðar- og fréttakona, tilnefnd til Blaðamannaverðlaunanna.

Mikil og markviss vinna var lögð í að gera hátíðardagskrá Rásar 1 sem veglegasta enda gegnir þessi útvarpsstöð sjaldan jafn stóru hlutverki í lífi landsmanna og um hátíðir. Hlustun á Rás 1 er aldrei meiri en um páska og jól. Gætt hefur verið að því að gera hátíðarþætti aðgengilega í Spilara RÚV og á hlaðvarpi, meðal annars með því að setja þá alla í eitt og sama Hlaðvarpið, sem gengur undir nafninu Fríhöfn Rásar 1, en það er einnig aðgengilegt í Spilaranum. Eins og undanfarin ár hafa nýir bókmenntalestrar Rásar 1 einnig verið aðgengilegir í hlaðvarpi.

Ekki voru gerðar miklar breytingar á dagskrárramma Rásar 1 á árinu. Innra starf miðaði meira að því að styrkja dagskrárgerðina, efni og efnistök í þeim þáttum sem eru á dagskránni. Í daglegri dagskrá var miðað að því að hafa efni sem höfðar til breiðs hóps hlustenda. Samfélagslegri og fréttatengdri umræðu er sinnt í daglegum þáttum á borð við Morgunvaktina, Mannlega þáttinn, Samfélagið og Speglinum. Menningarlegu efni er sinnt í Víðsjá, Lestinni, Lestarklefanum, Hátalaranum, Á tónsviðinu og fleiri þáttum. Og mannlífstengt efni er í Segðu mér, Gestaboði og Mannlega þættinum svo dæmi séu nefnd. Og þótt finna megi efni tengt landsbyggðinni í flestum föstu þáttunum er þeim sérstaklega sinnt í Sögum af landi. Á þessu ári urðu þau tímamót að ráðinn var sérstakur dagskrárgerðarmaður útvarps sem staðsettur er á starfsstöð RÚV á Akureyri og sér sá starfsmaður um þáttagerðina ásamt öðru. Um helgar eru sértækari þættir, svo sem Orð um bækur, Flakk, sem nú heldur úti sérhæfðari umræðu um byggingarlist en áður, Tónlist frá a-ö, sem hóf göngu sína í byrjun árs, Bók vikunnar, Orð af orði, sem fjallar um íslenska tungu, Frjálsar hendur og Samtalið þar sem Ævar Kjartansson stýrir ásamt völdum sérfræðingum umræðum um hugmyndaleg efni, stjórnmálaleg, söguleg og samfélagsleg.

Fjölbreytt tónlistardagskrá

Tónlist er mikilvægur hluti af dagskrá Rásar 1 og kemur við sögu í flestum dagskrárliðum. Árið 2019 voru á dagskrá tónlistarþættir, þar sem umsjónarmenn kynntu tónlist af ýmsu tagi, nýjar tónleikahljóðritanir, bæði innlendar og erlendar og hljóðrit gerð sérstaklega fyrir Ríkisútvarpið, bæði ný og úr safni.

Einn mikilvægasti liðurinn í tónlistardagskrá Rásar 1 er hljóðritun á tónlist. Með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og útsendingum frá ýmsum tónlistarhátíðum og sýningum Íslensku óperunnar gegnir Rás 1 lykilhlutverki við miðlun tónlistar til allra landsmanna. Auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands er Rás 1 í samstarfi um hljóðritanir við Stórsveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, tónlistarhátíðirnar Myrka músíkdaga, Reykjavík Midsummer Music, Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju, Reykholtshátíð og Sumartónleika í Skálholti.

Enn fremur má nefna tónleika Kammersveitar Reykjavíkur, tónleika úr Tíbrárröð Salarins í Kópavogi, tónleika Kammermúsíkklúbbsins, Kúnstpásu Íslensku óperunnar, Sönghátíð í Hafnarborg, tónleika í tónleikaröð Hörpu Sígildum sunnudögum, tónleika á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju og tónleikahljóðritanir frá Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði.

Sígild- og samtímatónlist er í öndvegi í tónlistardagskrá Rásar 1, en einnig djass og dægurlög fyrri tíðar og það sem skarar fram úr í nýrri tónlist af öllum gerðum hérlendis sem erlendis. Rás 1 leitast við að að upplýsa og fræða hlustendur um sögu tónlistar og strauma og stefnur í samtímanum og þar gegna þættir á borð við Víðsjá og Lestina mikilvægu hlutverki og einnig má nefna þáttaraðirnar Hátalarann í umsjón Péturs Grétarssonar, Ym í umsjón Friðriks Margrétar Guðmundssonar, þætti Unu Margrétar Jónsdóttur Á tónsviðinu og þáttum Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur Tónlistin frá a-ö.

Í nóvember stóð Rás 1 í þriðja sinn fyrir sinni eigin tónlistarhátíð, í þetta sinn undir listrænni stjórn Daníels Bjarnasonar. Þar frumflutti Strokkvartettinn Siggi fjögur ný kammerverk sem pöntuð voru sérstaklega af þessu tilefni og styrkt af Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEF en einnig tóku söngkonurnar Hildigunnur Einarsdóttir og Ingibjörg Fríða Helgadóttir þátt í flutningnum. Tónskáldin völdu hvert sitt ljóðskáld til samvinnu en verkin fjögur voru Klakabrennur II eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur við texta Sigurbjargar Þrastardóttur, Stefnumót við sjálfið eftir Pál Ragnar Pálsson við texta Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur, Skrauthvörf eftir Kjartan Holm við texta Jóhannesar Ólafssonar og Umfang eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur við texta eftir Kristínu Eiríksdóttur.

Samstarf við Samband evrópskra útvarpsstöðva (EBU) er þýðingarmikill þáttur í tónlistardagskrá Rásar 1 og hafa hlustendur notið þessa samstarfs í reglulegum útsendingum. Ríkisútvarpið og íslenskt tónlistarlíf hafa með þessu samstarfi verið virkir þátttakendur í frjóu samfélagi evrópsks tónlistarlífs því hljóðritanir Ríkisútvarpsins standa öðrum Evrópuútvarpsstöðvum til boða auk þess sem Ríkisútvarpið hefur verið þátttakandi í alþjóðlegum samsendingum til milljóna hlustenda um allan heim, til dæmis á árlegum tónleikadögum EBU. Þess má geta að tónleikar Schola cantorum sem voru framlag Ríkisútvarpsins til jólatónleikadags EBU 2019 voru sendir út í jóladagskrá 17 aðilardarstöðva, þar á meðal BBC, austurríska útvarpsins, Deutschland Kultur, spænska útvarpsins, ríkisútvarpsstöðva allra norrænu landanna, kanadíska útvarpsins og ástralska útvarpsins. Tónleikahljóðritunum frá helstu tónlistarhúsum Evrópu var útvarpað í þáttunum Endurómi úr Evrópu auk þess sem nýjar hljóðritanir frá Metrópólitan-óerunni í New York og helstu óperuhúsum Evrópu hljómuðu reglulega.

Í júlí og ágúst bauð Rás 1 hlustendum sínum að slást í hóp tónleikagesta á hinum fjölmörgu tónlistarhátíðum sem haldnar eru vítt og breitt um Evrópu á sumrin.

Á meðal hátíða sem útvarpað var frá að þessu sinni má nefna Mozart-hátíðina í Würtzburg, Naantali-tónlistarhátíðina í Finnlandi, Aldeburgh-hátíðina á Englandi, SOLsberg-hátíðina í Sviss, Varna-tónlistarhátíðina í Búlgaríu, RheinVokal-hátíðina í Þýskalandi, Risør-kammertónlistarhátíðina í Noregi, Schubert-hátíðina í Schwartzenberg, tónlistarhátíðina í Granada og Verbier-hátíðina í Sviss að ógleymdri Proms-hátíðinni, sumartónlistarhátíð breska útvarpsins.

Sígild- og samtímatónlist í öndvegi

Rás 1 styður við íslenska samtímatónlist með ýmsum hætti, meðal annars með upptökum og tónleikahljóðritunum ýmiss konar. Frumflutningur á Jólalagi Ríkisútvarpsins sem Rás 1 pantar á hverju ári af íslensku tónskáldi er löngu orðin að skemmtilegri hefð í jóladagskránni. Jólalagið 2019 var eftir Hafliða Hallgrímsson, frumflutt af Schola cantorum og Herði Áskelssyni í beinni útsendingu á jólatónleikadegi EBU. Rás 1 hefur tekið þátt í Alþjóðlega tónskáldaþinginu (International Rostrum of Composers) um áratuga skeið en þingið er einn öflugasti vettvangur til kynningar á íslenskri samtímatónlist. Alþjóðlega tónskáldaþingið 2019 fór fram í Bariloce í Patagóníu í maí og var það í fyrsta sinn sem þingið var haldið utan Evrópu. Fulltrúi Rásar 1 var Arndís Björk Ásgeirsdóttir sem kynnti þar tvö ný íslensk verk, Dust eftir Valgeir Sigurðsson sem samið var að beiðni RÚV fyrir Tónlistarhátíð Rásar 1 2018 og verkið O eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur. Verk Valgeirs lenti á úrvalslista yfir tíu áhugaverðustu verk þingsins og var í kjölfarið útvarpað til milljóna hlustenda. Úrvali verka frá Tónskáldaþinginu var útvarpað í tveimur þáttum í nóvember en þar fékk Arndís Björk þriðja árs tónsmíðanema Listaháskóla Íslands til liðs við sig til að ræða um verkin.

Tónlistin er líka félagi og skemmtun og miða vinsælustu þættir Rásar 1  að því að skapa þægilega nærveru með góðri tónlist sem oft heyrist ekki annars staðar. Má þar nefna hinn vinsæla þátt Á reki með KK þar sem Kristján Kristjánsson leikur tónlist af ýmsu tagi og þátt Svanhildar Jakobsdóttur, Óskastund.

Útvarpsleikhúsið frumflutti sex verk ásamt meiru

Útvarpsleikhúsið framleiðir útvarpsleikrit og heimildaverk, í flestum tilvikum eftir sviðslistafólk. Á árinu 2019 voru frumflutt sex verk, stök verk, framhaldsverk og heimildaseríur. Má þar nefna SOL, framhaldsleikrit í fjórum hlutum eftir Tryggva Gunnarsson og Hilmi Jensson sem flutt var um páskana en verkið hlaut Grímuverðlaunin í flokki útvarpsverka. Einnig var SOL tilnefnt til Grímuverðlauna í flokknum Leikrit ársins og er það í fyrsta sinn sem útvarpsleikrit hlýtur tilnefningu í þeim flokki. SOL var svo tilnefnt til evrópsku ljósvakaverðlaunanna Prix Europa og varð í þriðja sæti í flokki framhaldsleikrita fyrir útvarp. Árið 2017 var undirritaður samstarfssamningur til þriggja ára við Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands og var annað verkefnið skv. þeim samningi framleitt á árinu en það var nýtt verk eftir Sölku Guðmundsdóttur, Sjöunda nóttin, sem skrifað var sérstaklega fyrir útskriftarárgang leikarabrautar. Einnig mætti nefna jólaleikrit Útvarpsleikhússins, Litlu jólin,  verk í tveimur hlutum eftir leikhópinn Kriðpleir (Bjarni Jónsson, Árni Vilhjálmsson, Friðgeir Einarsson og Ragnar Ísleifur Bragason).

Rás 2

Íslenskt tónlistarútvarp

Morgunkaffið

Áherslubreytingar á Rás 2 hafa skilað góðum árangri og árið 2019 var fyrsta árið frá 2012 þar sem hlustun jókst milli ára. Stöðin hefur styrkt sig hjá yngri hlustendum sem meðal annars má rekja til markvissari tónlistarstefnu og yngra dagskrárgerðarfólks. Áfram er lögð áhersla á íslenska tónlist sem hefur ávallt verið þungamiðja í starfi Rásar 2. Mikilvægi stöðvarinnar þegar kemur að fréttum kom svo vel í ljós í desember þegar óveður gekk yfir landið. 

Íslensk tónlist í öndvegi 

Rúmur helmingur af allri tónlist sem flutt er á Rás 2 er íslensk. Þetta eykur sérstöðu stöðvarinnar sem í hverri viku frumflytur fjölmörg lög eftir íslenskt listafólk. Undiraldan er nú tvisvar í viku en þar er eingöngu spiluð ný íslensk tónlist. Árið 2019 voru um 600 lög frumflutt í þættinum. Þá má nefna að 45 íslenskar hljómsveitir komu í Stúdíó 12 og spiluðu 140 íslensk lög. Fimmtíu nýjar plötur fengu kynningu í Plötu vikunnar en þar var hlutfall kynjanna jafnt. Einnig má nefna að hátt í 50 ný jólalög bárust í jólalagakeppni Rásar 2. Skúrinn er aftur farinn af stað með nýjum stjórnendum en þátturinn hefur góða tengingu við Músíktilraunir og leggur áherslu á nýtt og ungt tónlistarfólk. 

Fjölmargar beinar útsendingar voru á árinu frá íslenskum tónlistarviðburðum. Má þar nefna Aldrei fór ég suður, Bræðsluna, Ljósanótt, Heima í Hafnarfirði, Blúshátíð í Reykjavík og Akureyrarvöku. Samstarfið við Iceland Airwaves cvar endurnýjað en hápunkturinn árið 2019 var bein útsending frá tónleikum Of Monsters and Men en þeim var síðar dreift um alla Evrópu í gegnum samstarf okkar innan EBU. Í gegnum það hafa fjölmargir íslenskir listamenn fengið ómetanlega kynningu á erlendum vettvangi og óhætt að segja að það eigi sinn þátt í velgengi íslensku tónlistarútrásarinnar. Hátt í 100 tónleikar voru hljóðritaðir árið 2019 en þar hefur Rás 2 algjöra sérstöðu meðal íslenskra útvarpsstöðva. 

Tónaflóð 2018

Tónaflóð á Menningarnótt 

Tónaflóð er nú skilgreint af borgaryfirvöldum sem hápunktur Menningarnætur. Dagskráin í ár var sérlega vel heppnuð sem og útsendingin frá viðburðinum. Tugir þúsunda fylgdust með á Arnarhóli og áhorf í sjónvarpi var mikið. Dagskrá ársins var einstaklega góð blanda af gömlu og nýju. RÚV núll bauð upp á ClubDub sem er afal vinsæl meðal yngri kynslóðanna. Auður og GDRN hafa bæði stimplað sig rækilega inn í íslenskt tónlistarlíf og í kjölfarið kom Vök sem er með áhugaverðari tónleikaböndum landsins. Valdimar og Hjaltalín fylgdu í kjölfarið og Stjórnin lokaði svo kvöldinu með glæsibrag. 

Bubbi Morthens

Krókurinn 

Menningarverðlaun Rásar 2 nefnast Krókurinn og eru afhent þeim listamanni sem talinn er hafa skarað framúr í lifandi flutningi á árinu. Handhafi Króksins 2019 var Bubbi Morthens en hann gaf út nýja plötu á árinu sem féll í góðan jarðveg.  

Tónaflóð 2019

Konur í tónlist 

Rás 2 hefur á síðustu árum lagt sífellt meiri áherslu á að jafna hlut kynjanna í dagskrá og dagskrárgerð. Tónlist eftir konur á víðast hvar undir högg að sækja og konur eru mun fámennari meðal höfunda, bæði á Íslandi og erlendis. Þeirri þróun verður ekki snúið við á einu ári en ein leið til að rétta þessa skekkju er að vekja meiri athygli á þeirri tónlist eftir konur sem gefin er út. Árið 2019 var tónlist eftir konur eða þar sem konur eru flytjendur um 40% af allri tónlist stöðvarinnar. Eldri tónlist skekkir myndina en þegar kemur að nýrri tónlist er hlutfallið nánast jafnt. 

Þar fyrir utan hefur átak verið gert á síðustu tveimur árum þegar kemur að hlut kvenna í dagkskrárgerð. Þær hafa aldrei verið fleiri á Rás 2 og gegna fjölbreyttum hlutverkum, rétt eins og karlar. Tónlistarumfjöllun var lengi nær eingöngu í höndum karla en það hefur breyst og er nú annar umsjónarmaður Popplands kona.  

Morgunútvarpið á Rás 1

Rás 2 gegnir mikilvægu fréttahlutverki 

Þegar óveður gekk yfir landið í desember jókst hlustun mikið á Rás 2. Fréttir á heila tímanum fengu mikla hlustun en þess á milli miðlaði dagskrárgerðarfólk Rásar 2 nýjustu fréttum um leið og þær bárust. Þessa viku varð Rás 2 vinsælasta útvarpsstöð landsins sem sýnir að þegar mikið liggur við er hún enn sú stöð sem fólkið í landinu stillir á til að fá nýjustu upplýsingar. Rás 2 er því mikilvægur hlekkur í almannavarnarhlutverki RÚV. 

RÚV.is

Vefþjónusta í örum vexti

Menningarvefur

RÚV.is

RÚV hélt áfram öflugri sókn í ólínulegri miðlun árið 2019. Ný öpp hafa verið endurbætt, meðal annars með barnalæsingu til að hindra aðgang ungmenna að bönnuðu efni. Miðlun frétta og dagskrárefnis á samfélagsmiðlum er orðin markvissari og hefur það meðal annars skilað sér í aukinni notkun.

Vefur í örum vexti

Notendum RÚV.is fjölgaði um tæp 16% milli ára og hafa aldrei verið fleiri. Flettingar jukust að sama skapi mikið sem sýnir mikla notkun á vefnum. Sífellt fleiri skoða vefinn nú í gegnum farsíma en rúmur helmingur af öllum heimsóknum var um síma. Áhugavert var að sjá notkun á vefsíðu RÚV í kringum óveðrið í desember en ljóst er að í almannavarnarástandi leitar þjóðin ekki síður að fréttum í gegnum vefinn en aðra miðla RÚV.

Spilari RÚV

Númiðlasvið

Árið gekk vel á númiðlasviði og hefur notkun á vef og samfélagsmiðlum RÚV aldrei verið meiri. Mikil vinna fór í uppfærslur og viðhald RÚV.is auk undirbúnings fyrir uppfærslu á forsíðu. Vinna við nýjan vef er hafin en samhliða því verkefni eru fjölmörg kerfi í húsinu endurskoðuð.

Í nóvember hélt RÚV utan um norrænt hakkaþon. Þar komu saman fulltrúar frá hugbúnaðardeildum allra norrænu ríkisstöðvanna. Tæplega 50 forritarar tóku þátt í viðburðinum og sýndi könnun að honum loknum að hann gekk afar vel. Á meðal þeirra verkefna sem unnið var að var foreldrafjarstýring fyrir sjónvarpsspilara, samnorræn uppskriftasíða, þrívíð landakort og hugbúnaður til að auðvelda rannsóknarblaðamönnum að fara í gegnum stór gagnasöfn. Þessi viðburður er ekki síst mikilvægur til að auka samstarf milli norrænu miðlana sem þegar hefur skilað miklum árangri. Þannig hefur RÚV bæði miðlað þekkingu til annarra landa og fengið á móti afnot af hugbúnaði sem þróaður hefur verið annars staðar á Norðurlöndum.
Spilari_5

Ólínuleg dagskrá nýtur vinsælda

Vefsíða RÚV streymir miklu magni efnis á hverjum degi en nýjar spilaraþjónustur hafa slegið í gegn hjá landsmönnum. Notkunin er mest í kringum stórhátíðir en þá hefur mikið magn efnis verið sett inn sem ekki er sent út í línulegri dagskrá. Þessi þróun á eftir að halda áfram enda eitt af markmiðum RÚV að mæta notendum þar sem þeir eru. Auknu streymi fylgja þó áskoranir, bæði hvað varðar tæknilegan rekstur og kostnað sem eykst stöðugt með aukinni notkun.

Ríflega 9000 útvarps- og sjónvarpsþættir eru í boði á vef RÚV sem gerir hann að stærstu innlendu streymisveitu landsins. Á álagstímum streymir fólk sjónvarpsefni sem jafngildir 12.700 fréttatímum á hverri klukkustund og útvarpsefni sem jafngildir 9.800 þáttum af Í ljósi sögunnar.

Númiðlar

Samfélagsmiðlar nýttir á skynsaman hátt

Átak hefur verið gert í vinnu við samfélagsmiðla RÚV en þeir eru öflugt tæki til að koma fréttum og dagskrárefni á framfæri við notendur. Á sama tíma er mikilvægt að almannaþjónustumiðill taki öflugan þátt í að vinna gegn dreifingu falsfrétta og því ægivaldi sem tæknirisar hafa yfir fjölmiðlafyrirtækjum. RÚV hefur því ásamt systurstofnunum sínum annars staðar á Norðurlöndum tekið virkan þátt í mótun stefnu gagnvart alþjóðlegum risum og lagt þar áherslu á ritstjórnarlegt sjálfstæði og öryggi blaðamanna.

Baldvin Þór Bergsson

Þróunarverkefni og nýsköpun

RÚV leggur mikla áherslu á þátttöku í ýmsum tækni- og þróunarverkefnum og voru mörg skref stigin í þá átt á árinu. Fyrst ber að nefna að RÚV tekur virkan þátt í þróun máltækni, bæði sem aðili að samstarfi um íslenska máltækni og með samstarfi við ýmiss nýsköpunarfyrirtæki. Meðal annars er unnið að þróun á raddstýrðu appi til að hlusta á fréttir, sjálfvirkri textun og meðmælakerfi á bak við innskráningu.

Fréttastofa RÚV

Stendur vaktina í þágu þjóðar

Fréttastofa RÚV

Vefvinnsla fréttastofunnar

Fréttastofa RÚV hefur lagt áherslu á að birta ítarlegar fréttir á RÚV.is, dreifa þeim þannig að sem flestir sjái og reynt að ná til enn breiðari hóps notenda. Á vefnum birtast allar fréttir sem framleiddar eru á fréttastofunni, hvort sem það er fyrir sjónvarp, útvarp eða sérstaklega fyrir vef. Markmiðið er að vinnsla frétta og framsetning sé fjölbreytt þannig að fréttamenn geti valið þann miðil sem hentar best hverju sinni til þess að koma frásögnum sem best og sem fyrst til skila til notenda. Fjöldi myndskeiða og hljóðklippa var aukinn sem skilaði sér í því að notendur dvelja lengur á vefnum.

Á síðasta ári jók fréttastofan fjölda færslna á samfélagsmiðla til muna. Mun fleiri færslur sem birtast á ruv.is enda á Facebook- og Twitter-reikningum fréttastofunnar og það hefur skilað aukningu í fjölda heimsókna á vefinn. Tíðari færslur á samfélagsmiðlum hefur einnig haft greinileg áhrif á fjölda þeirra sem fylgja fréttastofunni.

Haustið 2019 tók fréttastofan við Instagram-reikningi fréttastofunnar sem hafði verið í fóstri hjá vefútgáfunni, með það að markmiði að dreifa fleiri fréttum þar, ná til breiðari hóps og vekja athygli á helstu fréttamálum líðandi stundar.

Fjöldi flettinga frétta á vef RÚV jókst um ríflega átta prósent á milli ára. Fjöldi flettinga notenda sem komu af samfélagsmiðlum jókst hins vegar um tæplega 14 prósent á milli ára. Notendur dvöldu að jafnaði fjögur prósentum lengur á vefnum en árið 2018.

Enn er lögð áhersla á fleiri myndskeið sem framleidd eru fyrir vefinn og beinar útsendingar. Stefnumótun fyrir myndskeið og beinar útsendingar hefur verið unnin og kemur til framkvæmda á næsta ári.

Kveikur

Kveikur 

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur lauk öðru starfsári sínu í vor með því meðal annars að fletta ofan af svikum bílaleigunnar Procar, skyggnast inn í heim vændis á Íslandi og fara á slóðir Hauks Hilmarssonar í Sýrlandi. Markmið þáttarins er að kafa dýpra ofan í mikilvæg mál, rannsaka, varpa ljósi á og setja í samhengi. Hvort sem það er rannsókn á áhrifum höfuðhögga í íþróttum, umfangsmikil landakaup, Hvalárvirkjun eða umsvif Samherja í Namibíu og háar peningagreiðslur fyrirtækisins til stjórnmálamanna þar í landi. Umfjöllun Kveiks hefur vakið verðskuldaða athygli og hlotið Eddu-verðlaun tvö ár í röð. Þátturinn hefur margsannað mikilvægi sitt og er leiðandi í þeirri fréttamennsku sem rannsakar og veitir aðhald.

Um landið og út í heim

Það var í nógu að snúast hjá fréttamönnum og myndatökumenn RÚV við fréttavinnslu í öllum landshlutum á liðnu ári. Flestir starfsmenn RÚV á landsbyggðinni eru á Akureyri og fjölgaði um einn á árinu en starfsstöðvar eru einnig á Egilsstöðum, í Borgarnesi og á Ísafirði. Þá eru reglulega farnar sérstakar fréttaöflunarferðir um Suðurland og Suðurnes.

Á erlendum vettvangi heimsóttu fréttateymi RÚV meðal annars Pólland vegna þingkosninga þar í landi, fluttu fréttir frá Dyflinni þegar leit stóð yfir  að týndum Íslendingi og heimsóttu Ísrael þegar Eurovision-söngvakeppnin var haldin og fjölluðu um hernumdu svæði Ísraela, aðbúnað Palestínumanna og deilur þjóðanna. Þá fjallaði fréttastofan um finnsk stjórnmál af vettvangi og fylgi forsætisráðherra Íslands á leiðtogafund NATO í Brussel.

fr_20191119_126459.t5dd44d54.m800.x7LMWoWY-

Borgarafundir

Eitt af hlutverkum RÚV er að efna til samtals við þjóðina um mál sem hana varða og eiga frumkvæði að því að fólkið í landinu fái tækifæri til að taka þátt í umræðunni. Borgarafundir fréttastofunnar hafa aldrei verið fleiri en árið 2019. Í mars var fjallað um geðheilbrigðismál ungmenna, málefni eldri borgara voru til umfjöllunar í byrjun október og loftslagsmálin í nóvember. Borgarafundir í beinni útsendingu í sjónvarpssal hafa fest sig í sessi sem mikilvægaleið til að gefa almenningi aðgang í umræðum í sjónvarpi.

Sunnudagsskýringar í sjónvarpi

Eitt af markmiðum fréttastofunnar er að fjölga almennum fréttaskýringum og ítarefni í öllum miðlum sínum þar sem kafað er aðeins dýpra í ýmiss mál sem fréttaflaumur dagsins veitir ekki svigrúm til. Haustið 2019 var ákveðið að lengja sjónvarpsfréttir á sunnudögum um fimm mínútur og setja á dagskrá fréttaskýringar þar sem málum er gefinn lengri vinnslutími og svigrúm í fréttatímanum. Málin eru af ýmsum toga. Fjallað hefur verið um aukið fíkniefnasmygl til landsins, samgöngur og Brexit, svo fátt eitt sé nefnt.

Heimskviður í hlaðvarpi og útvarpi

Rás 1 og fréttastofan töku höndum saman á árinu í vikulegum hlaðvarpsþætti sem einnig er á dagskrá útvarps. Þátturinn kom til móts við mikla eftirspurn eftir áhugaverðum og aðgengilegum fréttaskýringum af erlendum vettvangi. Heimskviður hafa slegið í gegn í hlaðvarpinu sem og í útvarpinu.

fr_20190205_104888.t5c598181.m800.xMinPWPOi

Náttúruvá 

Ein af grunnskyldum RÚV er fólgin í almannavarnahlutverki fréttastofunnar og á árinu má segja að veðrið hafi verið í óvenju stóru hlutverki. Sögulegt óveður skall á um allt land í desember og hafði víðtæk áhrif á innviði landsins. Fréttateymi RÚV stóð vaktina dögum saman um allt land og flutti linnulítið fréttir á ástandinu á vefnum, í útvarpi og í sjónvarpi. Veðurhamurinn og frækileg afrek björgunarsveita um allt land voru slík að björgunarsveitirnar voru valdar maður ársins á Rás 2 á gamlársdag. Áhrif aðventustormsins voru mikil og óhætt að segja að allar helstu stoðir almannavarna og innviða landsins geti dregið lærdóm af.

Spegillinn

Spegillinn er rótgróinn fréttaskýringaþáttur í útvarpi, sem upplýsir hlustendur Rásar 1 og 2 alla virka daga. Hann kom víða við í umfjöllun sinni árið 2019. Þátturinn beindi sjónum sínum að umhverfismálum, efnahagsmálum og stjórnmálum, á innlendum sem erlendum vettvangi og heilbrigðismálum og samfélagsmálum hvers konar.

Kastljós

Beittur fréttatengdur viðtalsþáttur fjóra daga vikunnar þar sem málefni líðandi stundar eru rædd í beinni útsendingu. Viðtöl sem vekja athygli og umræðu í samfélaginu. Skeleggir og þrautreyndir spyrlar krefja ráðamenn, forstjóra og aðra valdahafa svara við spurningum sem brenna á þjóðinni.

RÚV íþróttir

Gera íþróttalífi í landinu góð skil

Íþróttadeild RÚV 

RÚV aðhylltist áfram þá stefnu þegar að íþróttaþjónustu kom að fylgja eftir afreksfólki Íslands og senda út íþróttaefni sem sameinar íslensku þjóðina. Það var fjölbreytnin höfð í hávegi og leitast við að sýna allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. RÚV leggur að auki mikla áherslu á íþróttaiðkun beggja kynja og ólíkra hópa, á öllum aldri og vill þannig bæði í senn stuðla að aukinni og reglubundinni íþróttaiðkun og skrásetja og varðveita íþróttasögu þjóðarinnar.

fr_20190412_109758 (1)

Heimsmeistaramót kvenna og karla í handbolta

RÚV sýndi beint frá Heimsmeistaramóti karla í handbolta í janúar. Íslenska landsliðið lék átta leiki á mótinu og endaði í ellefta sæti. Sem fyrr var mikill áhuga íslensku þjóðarinnar á “strákunum okkar” og áhorfið með því mesta sem mælst hefur á íþróttaviðburði í sjónvarpi á Íslandi. Danmörk varð heimsmeistari í fyrsta sinn eftir sigur á Noregi í úrslitaleik mótsins. RÚV sýndi alls fjörtíu leiki í beinni útsendingu auk HM stofu fyrir og eftir leiki Íslands sem og úrslitaleik mótsins. Þá sýndi RÚV frá HM kvenna í handbolta í desember en því miður komst íslenska kvennalandsliðið ekki á mótið. Þrátt fyrir það sýndi RÚV þrjátíu leiki í beinni útsendingu frá mótinu sem að þessu sinni var haldið í Japan.

fr_20190831_119692

Undankeppni EM kvenna og karla í knattspyrnu

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lék tíu leiki í undankeppni EM 2020 í fótbolta og voru allir leikir í beinni útsendingu á RÚV. Útsendingar frá heimalandsleikjum Íslands eru gríðarlega umfangsmiklar enda kröfur um gæði sjónvarpsútsendinga frá evrópska knattspyrnusambandsins strangar. RÚV fékk mjög góða umsögn og gæðastimpil frá evrópska knattspyrnusambandinu fyrir útsendingarnar. Enn og aftur sannaði íþróttadeild RÚV styrk sinn og getu til senda út beinar útsendingar frá stórum íþróttaviðburðum. Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu byrjaði undankeppnina af krafti en liðið vann alla þrjá leiki sína á árinu og RÚV sýndi beint frá leik Lettlands og Íslands í október. Liðið stendur því vel að vígi á leið sinni í lokamót Evrópumótsins 2021 en undankeppninni lýkur í september 2020 með útileik gegn sterku liði Svía. Sá leikur verður í beinni útsendingu á RÚV.

epa08047284 Anton Sveinn McKee of Iceland competes in the Men's 200m Breaststroke Final at the LEN European Short Course Swimming Championships 2019 in Glasgow, Scotland, Britain, 5th December 2019.  EPA-EFE/ROBERT PERRY

Heimsmeistaramót og Evrópumót

RÚV gerði hinum ýmsu heimsmeistaramótum góð skil á árinu og fylgdi eftir afreksfólki okkar Íslendinga. RÚV sýndi beint frá HM í sundi í Suður-Kóreu í sumar þar sem sundkappinn Anton Sveinn McKee náði bestum árangri íslenskra keppenda. Hann varð um leið fyrstur Íslendinga til að ná Ólympíulágmarki og mun keppa á sínum þriðju Ólympíuleikum sem verða í beinni útsending á RÚV 2020. Anton fór svo á kostum á Evrópumótinu í 25 metra laug í desember og stakk sér varla til sunds öðruvísi en að setja Íslandsmet. RÚV sýnd beint frá öllum keppnisdögunum í beinni útsendingu. RÚV sýndi beint frá heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum í Stuttgart þar sem þrír Íslendingar voru með þátttakenda. Engum Íslendingi tókst því að komast í úrslit HM og jafnframt ljóst að enginn fimleikamaður mun keppa fyrir Ísland á Ólympíuleikunum á næsta ári. Bandaríska fimleikakonan, Simone Biles, var stjarna mótsins en hún vann til fimm gullverðlauna og sannaði að hún er ein öflugasta íþróttakona heims um þessar mundir.

Þá sýndi RÚV beint frá HM í frjálsíþróttum þar sem kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason var meðal keppenda. Heimsmeistaramót íslenska hestsins var haldið í Berlín og RÚV var á staðnum með samantektarþætti og daglegan fréttaflutning frá mótinu. Jóhann Rúnar Skúlason fór á kostum á mótinu og varð þrefaldur heimsmeistari auk þess sem Ísland stóð uppi sem stigahæsta landsliðið.

fr_20190911_120465

Heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu

RÚV sýnt beint frá öllum leikjum á HM kvenna í knattspyrnu auk veglegri HM stofu fyrir og eftir stærstu leiki mótsins. Bandaríkin varði heimsmeistaratitil sinn eftir 2-0 sigur gegn Holland í úrslitaleiks mótsins í Lyon í Frakklandi. Mótið var einstaklega vel heppnað á RÚV og áhugi á kvennaknattspyrnu hefur aldrei verið meiri um allan heim. Samkvæmt tölum frá alþjóðaknattspyrnunni, FIFA, þá hafa aldrei fleiri horft á HM kvenna í fótbolta. Áhorfið var líka mjög gott hér á Íslandi þrátt fyrir að íslenska kvennalandslið var ekki með þátttökuþjóða að þessu sinni.

epa07701930 The USA team celebrate after winning the FIFA Women's World Cup 2019 final soccer match between USA and Netherlands in Lyon, France, 07 July 2019.  EPA-EFE/IAN LANGSDON

Íslandsmót, bikarúrslit og stórir viðburðir

RÚV hélt áfram að sýna frá Íslandsmótum og bikarúrslitum í hinu ýmsu íþróttagreinum í veglegri umgjörð. Meðal þess fjallað var um í beinum útsendingum var Íslandsmótið í golfi, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í sundi, bikarúrslit í blaki, bikarúrslit í handbolta, bikarúrslit í körfubolta og Reykjavík Crossfit Championship. Þá voru Reykjavíkurleikarnir á dagskrá RÚV í byrjun árs þar sem sýnt var frá tólf íþróttaburðum. Flest af besta íþróttafólki okkar var með þátttakenda auk á fimmta hundrað erlendra gesta. Þá var Skólahreysti og Meistaradagar á sínum stað á dagskrá RÚV. Skólahreysti bar sigur úr bítum í flokknum barna- og unglingaþáttur í sjónvarpi annað árið í röð á Sögur – verðlaunahátíð barnanna þar sem um 2.000 börn á aldrinum 6-12 ára kusu Skólahreysti besta á sviði sjónvarps. Íþróttaárinu lauk svo með veglegri útsendingu frá kjöri á íþróttamanni ársins og verðlaun sérsambanda. Eins og undanfarin ár hafa landsmenn mikinn áhuga á þessum viðburði sem skilaði sér í góðum áhorfstölum og því hæsta sem mælist í jóladagskrá RÚV á hverju ári.

Kringlumyndir_2018_2019_sept_itrottir2

Íþróttir á sunnudegi

Íþróttadeild RÚV hélt áfram að segja sögur af íþróttafólkinu okkar. Lengri útgáfa af íþróttafréttum á sunnudögum hóf göngu sína á haustdögum en þar var áherslan lögð á að veita áhugaverða innsýn í allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. Viðtökur hafa ekki látið á sér standa en oftar en ekki eru þessar sögur þær mest lesnu á íþróttavef RÚV.

KrakkaRÚV

Úrvalsþjónusta við börn

Viðtæk þjónusta við börn og unglinga 

Mikil áhersla er lögð á framleiðslu innlends barnaefnis. Gæði og framboð innlends barnaefnis endurspeglast ekki síst í KrakkaRÚV sem er yfirheiti yfir alla þjónustu RÚV við börn. Kjarninn í starfseminni er vefurinn KrakkaRÚV.is þar sem nálgast má allt innlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir ásamt vönduðum útvarpsþáttum fyrir börn. Jafnframt er lögð mikið áhersla á samstarf við stofnanir sem vinna í þágu barna.  

Stundin okkar

Stundin okkar

Árið 2019 skiptist í tvennt hjá Stundinni okkar. Frá janúar til maí kepptu krakkar alls staðar að á landinu í Kveikt’á perunni og kynntust þjóðsögum, náttúruundrum og landinu okkar á skemmtilegan hátt í Leiðangrinum, smáseríu í ratleiksformi. Auk þess voru til dæmis sýndar stuttmyndir eftir krakka og fylgst með framleiðslu þeirra. 

Í október tóku nýir þáttastjórnendur við sem ákváðu að setja stjórnina alfarið í hendur krakka svo að þessi elsti þáttur RÚV gæti orðið Stundin þeirra að sönnu. Þátturinn er enn byggður upp í smáseríuformi og íslensku máli, vísindum, sköpun og umhverfisvernd eru gerð góð skil og að sjálfsögðu allt á forsendum krakka. Í vinnslu er spennandi leikin smásería sem hófst í febrúar 2020: Rammvillt í Reykjavík sem án efa heillar unga áhorfendur.   

Jólastundin 2019 var með öðru sniði en verið hefur. Nú var þátturinn sýndur að kvöldi til og var hugsaður fyrir alla fjölskylduna. Björgvin Franz leiddi okkur í gegnum ævintýralega fjölskylduskemmtun. Við hittum Kugg, Málfríði og mömmu hennar, leikin af Eddu Björgvins, Ilmi Kristjánsdóttur og Auðunni Sölva Hugasyni. Sögurnar um Kugg, Málfríði og mömmu hennar, eftir Sigrúnu Eldjárn, eru löngu orðnar klassískar og sagan í þættinum byggist á bókinni Jólaleg jól. Við sögu þeirra blönduðust söngatriði, dansatriði og jólagjafir sem lifna við. 

krakkafrettir_500x500

Krakkafréttir

Krakkafréttir héldu áfram að flytja fréttir af líðandi stundu yfir veturinn. Sem fyrr er lögð áhersla á skýrar og hnitmiðaðar fréttir af því helsta sem gerist í samfélaginu, bæði hér og erlendis. Einnig er lögð áhersla á sjónarhorn barna og leitað er leiða til þess að gera fréttaefnið bæði skiljanlegt og skemmtilegt í senn. Það er gert í bland við léttara efni, fréttir af íþróttum, menningu, vísindum og krökkum sem gera garðinn frægan, hvar sem þau er að finna. Krakkasvarið hélt áfram göngu sinni, vikulegt innslag þar sem grunnskólar um allt land fá sendar laufléttar spurningar og senda svörin á myndbandi og skora á annan skóla að gera það sama. Ungir fréttamenn vinna í samstarfi við Krakkafréttir og UngRÚV á vorin þar sem þau læra undirstöðuatriði í fréttamennsku og hjálpa til við að segja frá hinni fjölbreyttu Barnamenningarhátíð. Krakkafréttir sinna einnig árstíðabundnum fréttum, svo sem Söngvakeppninni og skýra hina ýmsu siði og venjur þjóðarinnar. 

Útvarp KRAKKARÚV

Útvarp KrakkaRÚV

KrakkaRÚV framleiðir fjóra útvarpsþætti í hverri viku. Mánudaga til fimmtudaga kl. 18:30 á Rás 1.  

Frá janúar til júní fjölluðu Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Jóhannes Ólafsson og Sævar Helgi Bragason um vísindi, menningu, krakkafréttir vikunnar og málefni líðandi stundar. Á fimmtudögum var fjallað um sögur frá öllum mögulegum sjónarhornum og voru þeir þættir hugsaðir sem upphitun fyrir Sögur, verðlaunahátíð barnanna.  

Um haustið 2019 hófu göngu sína nýir útvarpsþættir: Hljómboxið þar sem fjölskyldur keppa í hlustun, lesin saga er á dagskrá einu sinni í viku og frá september til febrúar 2020 er það Stormsker, fólkið sem fangaði vindinn eftir Birki Blæ Ingólfsson sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 2018. Krakkafréttir vikunnar héldu sínum stað og nýr þáttur fyrir unglinga Útvarp UngRÚV hóf göngu sína og þar sjá unglingar um dagskrárgerð, undir leiðsögn Hafsteins Vilhelmssonar verkefnastjóra UngRÚV, og fjalla um málefni sem brenna á unglingum í dag. 

Krakkaskaup

Krakkaskaupið 

Krakkaskaupið hefur fest sig í sessi á KrakkaRÚV. Ýmislegt hefur verið prófað við gerð Krakkaskaupsins: eingöngu innsend myndbönd, handrit alfarið skrifað af krökkum og blanda af þessu tvennu og ákveðið var að byggja Krakkaskaupið í ár upp á innsendum myndböndum frá krökkum í bland við atriði sem Berglind Alda Ásþórsdóttir og Mikael Kaaber, þáttastjórnendur, skrifuðu. Berglind og Mikael léku sjálf og fengu með sér þekkt til að taka þátt í leiknu atriðunum. Innsend mynbönd voru um helmingur þáttarins. Alls bárust tæplega hundrað myndbönd.

Bokaormarad_500x500

Bókaormaráð og Krakkakiljan

Bókaormaráð KrakkaRÚV og Krakkakiljan héldu áfram frá janúar til maí. Bókaormar fjölluðu um uppáhaldsbækurnar sína og aðrar nýútkomnar bækur. Höfundar, þýðendur og myndhöfundar bókanna voru boðaðir hingað í hljóðver og krakkarnir, með aðstoð dagskrárgerðafólks, tóku viðtöl við þá og fengu hjá þeim góð ráð. Viðtölin voru birt á vef KrakkaRÚV og spiluð í fimmtudagsþáttum Útvarps KrakkaRÚV fram á vorið. 

Sögur – verðlaunahátíð barnanna 

Þetta risastóra verkefni um læsi og sköpun barna hófst haustið 2017 þar sem KrakkaRÚV auglýsti eftir innsendum sögum og handritum frá krökkum. Sögu verkefnið hefst í byrjun október ár hvert og lýkur á Sögum, verðlaunahátíð barnanna, að vori. Afrakstur þessarar vinnu og eru svo sögur sem opinberaðar eru á hvers kyns formi. Gerðar eru stuttmyndir, Borgarleikhúsið og Leikfélag Akureyrar setja upp sviðsverk, Útvarpsleikhúsið gerir útvarpsverk, Borgarbókasafnið heldur námskeið í skapandi skrifum og Menntamálastofnun gefur út rafbókina Risastórar smásögur. Sögur eru svo hápunkturinn. Hátíðin er í beinni útsendingu og þessar sögur eru verðlaunaðar sem og sögur sem ætlaðar eru börnum. Fagnefndir verðlauna börnin og börnin verðlauna þau verk sem framleidd eru fyrir þau. Þarna er barnamenningu síðastliðins árs gerð góð skil, krakkar sjá um flest skemmtiatriði og kynna verðlaunin ásamt fyrirmyndum sínum úr menningarlífinu. Að verkefninu standa Borgarbókasafnið, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Menntamálaráðuneytið, Menntamálastofnun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, SíUNG og fleiri.  

Sögur - Verðlaunahátíð barnanna

Sögu-spilið 

Í tengslum við Sögur hefur orðið til ný og spennandi þáttaröð í þremur hlutum, Söguspilið, sem eru þættir um ævintýraheim sagna. Þættirnir eru settir upp sem ævintýraspil þar sem krakkarnir sjálfir eru peðin á spilaborðinu og allar spurningar og þrautir tengjast barnabókum og sögum fyrir börn. Viskubrunnur sem talar reynir að villa um fyrir þeim, þau drekka galdraseiði og töfrast á milli heima. Óhætt er að segja að þættirnir hafi slegið í gegn. Ótal myndir og skilaboð bárust þar sem krakkar bjuggu til sína útgáfu af spilinu til að spila heima. Þættirnir voru framleiddir í samstarfi við Menntamálastofnun. 

Tónaflóð 2018

Útsendingar frá menningarviðburðum barna 

Sýnt var beint, ýmist í sjónvarpinu eða á vefnum frá fjölda menningarviðburða barna og ungmenna. Þannig var bein útsending frá setningu Barnamenningarhátíðar á vef KrakkaRÚV sem og frá leikskólaviðburðinum Lífið er heimsins besta gotterí! sem er samstarf 32 leikskóla.  

UngRÚV

Ný þjónusta fyrir unglinga

RÚV núll Björn Valur Pálsson og Atli Már Steinarsson

UngRÚV

UngRÚV er þjónusta fyrir ungmenni í áttunda, níunda og tíunda bekk grunnskóla. Lögð er áhersla á dagskrárefni fyrir unglinga, eftir unglinga, og beinar útsendingar frá viðburðum og vandað efni sem framleitt er af RÚV. UngRÚV er með starfandi ungmennaráð sem sér um hugmyndavinnu, framleiðslu og aðrar dagskrártengdar ákvarðanir. UngRÚV er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og RÚV.  

RÚV núll Björn Valur Pálsson og Atli Már Steinarsson

UngRÚV skólinn  

UngRÚV skólinn er starfræktur í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur. Unglingum er boðið að koma og vinna við dagskrágerð í fjórar vikur. Við vinnum eftir „læra með því að gera“-aðferðafræðinni. Unglingarnir byrja að vinna saman í hópum og koma sér saman um hugmynd sem þau vilja framleiða. Hver og einn sér um að framleiða einn þátt í hverri seríu. Árið 2019 vorum við með tvær vef seríur: Svaraðu rétt eða gubbaðu létt og Hjartslátt. Í tökunum var skipt upp í stöðvar þar sem allir fengu að spreyta sig á þáttastjórn, myndatöku, hljóðupptöku og leikstjórn ásamt því að fá innsýn inn í starfið hér á RÚV. Í framhaldinu eru ungmennin svo hluti af UngRÚV-ráðinu sem sér um að skipuleggja og móta vefsíðu UngRÚV. 

Fréttamenn framtíðar 

Ungir fréttamenn er samstarfsverkefni UngRÚV, Krakkafrétta og Reykjavíkurborgar sem gengur út á að vekja áhuga ungs fólks á fréttum og fréttamennsku. Krakkar á unglingastigi grunnskólanna sækja námskeið þar sem þeim gefst tækifæri á að hitta reynda fulltrúa RÚV og læra allt um vinnubrögð fréttamanna, viðtalstækni og framsögu ásamt undirstöðuatriðum við myndbandsupptöku. Ungu fréttamennirnir fara svo á stúfana og kynna sér spennandi dagskrá Barnamenningarhátíðar í Reykjavík og flytja fréttir af hátíðinni sem sýndar eru í Krakkafréttum.  

Bein útsending frá Hæfileikunum, hæfileikakeppni félagsmiðstöðva í Reykjavík.
Hæfileikarnir eru hæfileikakeppni þar sem unglingar frá félagsmiðstöðvum Reykjavíkur taka þátt. 10 atriði frá 8 félagsmiðstöðvum eru í keppninni og taka 10 unglingar þátt. Ekki er nóg með það að þátttakendur séu unglingar heldur eru kynnar og dómnefnd líka unglingar. Auk þess eru unglingar líka á bakvið tjöldin og leggja hönd á plóg við tæknivinnu, förðun og margt annað sem við kemur sjónvarpsútsendingunni.
Keppendur eru
Auður Árnadóttir og Monika Lárusdóttir  
Félagsmiðstöðinni Fjörgyn 
Bára Katrín Jóhannsdóttir
Félagsmiðstöðin Fókus 
Annía Stefánsdóttir
Félagsmiðstöðin Hólmaseli   
Marteinn Þór Vilhelmsson  
Félagsmiðstöðin Tíunni 
Ísak Thomas Birgisson 
Félagsmiðstöðin Hólmaseli   
Freyja Eaton  
Félagsmiðstöðin Buskanum 
Bjarni Pálsson 
Félagsmiðstöðin Frosta   
Sigrún Benediktsdóttir  
Félagsmiðstöðin 100og1 
Helena Ósk Halldórsdóttir 
Félagsmiðstöðin Buskanum

Hæfileikarnir  

Hæfileikarnir voru haldnir í Stúdíói A í samstarfi við frístundamiðstöðvar í Reykjavík. Allar frístundamiðstöðvar héldu undankeppni og tvö atriði frá hverri miðstöð komust í lokakeppnina. Öll atriðin fengu handleiðslu fagfólks RÚV varðandi uppsetningu, framkomu og undirbúning. Kynnar hátíðarinnar voru unglingar úr UngRÚV-ráðinuÓskað var eftir unglingum sem höfðu áhuga á myndatöku fyrir sjónvarp, hljóðupptöku, sviðsstörfum og förðun. Kosning í UngRÚV spilaranum í samstarfi við hugbúnaðardeild RÚV var skemmtileg viðbót við vel heppnaða keppni.  

SKREKKUR – Hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík

Lokakvöld Skrekks var í beinni útsendingu á RÚV og á vef UngRÚV í nóvemberUndanúrslitakvöldin eru þrjú og farið er í alla skóla sem taka þátt og kynningarinnslög unnin sem birtast á vefnum á hverju keppniskvöldi. Sýnt er frá öllum viðburðum í beinu streymi á UngRÚV.is. Í ár var áhugasömum unglingum að myndblanda í beinni útsendingu. Öll atriði birtust á vefnum að keppni lokinni.

Upptakturinn 

UngRÚV sá um undirbúning og umföllum um Upptaktinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmennasem er samstarfsverkefni RÚV, Hörpu, Barnamenningarhátíð í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Ungmenni á aldrinum 10-15 ára senda inn hugmyndir sínar í Upptaktinn og þær hugmyndir sem eru valdar eru fullunnar með liðsinni atvinnufólks í tónlist. Að lokum eru haldnir stórir uppskerutónleikar í Hörpu þar sem 12 ný verk eru frumflutt. Sex útvarpsþættir voru framleiddir, þar sem tónsmið og tónskáldi var fylgt í tali og tónum frá hugmyndastigi og til frumflutnings. Þættirnir voru fluttir á Rás 1 og gerðir aðgengilegir á vef UngRÚV, ásamt myndböndum með viðtölum við krakkana og lokaflutningi verksins. Sýnt var beint frá viðburðinum á vef UngRÚV 

Verksmiðjan verðlaunaafhending

Verksmiðjan  

Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13-16 ára. Undirbúningur og skipulag verkefnisins hófst haustið 2018 en keppnin hófst í byrjun janúar 2019. Þátttakendur unnu frumgerðir að hugmyndum/uppfinningum sínum í Fab Lab smiðjunum á Íslandi og með framleiðsluteymi RÚV. Fimm sjónvarpsþættir um Verksmiðjuna, iðngreinar og nýsköpun voru sýndir í tengslum við verkefnið. Tónlistarmaðurinn Daði Freyr tók virkan þátt í Verksmiðjunni og þróaði hljóðfæri í samstarfi við Fab Lab. Fylgst var með ferlinu á vef UngRÚV og í sjónvarpsþáttunum.  

Að verkefninu stóðu Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Fab Lab á Íslandi og RÚV. 

Viðburðir ungmenna 

Sýnt var frá fjölda viðburða fyrir ungmenni, í sjónvarpi eða á vef. Sýnt var frá danskeppni Samfés, Stíl hönnunarkeppni Samfés, söngkeppni SamfésRímnaflæði og rappkeppni félagsmiðstöðvanna. Þá var einnig fjallað um Samfésballið, sem og fyrstu Dance World Cup-keppnina  sem fram fór í Borgarleikhúsinu. Streymt var beint frá keppninni á vef UngRÚV.

Hluti af samstarfi UngRÚV og Reykjavíkurborgar eru skólaheimsóknir 10. bekkinga. Vikulega koma unglingar úr skólum í Reykjavík og fræðast um sögu, starfsemi og hlutverk RÚV. Áhersla er lögð á að gera heimsóknirnar spennandi. 

RÚV núll

Árið 2019 var annað starfsár RÚV núll og vegur þess jókst jafnt og þétt. Fimm vefþáttaseríur komu út, þar af fjórar sem voru framleiddar alfarið af RÚV núll. Níu nýjar hlaðvarpsþáttaraðir hófu göngu síma í bland við eldri þáttaraðir sem héldu áfram. RÚV núll var fyrirferðarmikið í þættinum Sumarið á RÚV en áhorf á þáttinn fór fram úr öllum væntingum og reyndist einn af vinsælustu þáttum RÚV árið 2019. Þegar haustaði tók RÚV núll þátt í að vekja athygli á málefnum ungs fólks með fíknivanda í þriggja sólarhringa langri útsendingu í samstarfi við landsátakið Ég á bara eitt líf og söfnunina Á allra vörum. RÚV núll setti ríkulegt mark sitt á Söngvakeppnina, Gettu betur, Söngkeppni framhaldsskólanna, þáttaröðina Hvað höfum við gert?, Tónaflóð Rásar 2 og annað efni sem RÚV framleiddi.

RÚV núll

Fyrsta stóra vefþáttaröð ársins var Sósan. Þar var fjallað um tísku á Íslandi, talað við íslenska hönnuði sem hanna fyrir risastór vörumerki í bland við minni einyrkja sem jafnvel smíða strigaskó í herberginu sínu. Því næst kom þáttaröðin Nippon sem framleidd var af Stefáni Þór Þorgeirssyni og gaf áhugaverða sýn inn í líf og menningu Japans. Önnur þáttaröð Rabbabara, þar sem talað er við ungt tónlistarfólk, hóf göngu sína um haustið og fékk frábærar viðtökur. Þáttaröðin KLINK, fræðsluþættir um fjármál fyrir ungt fólk, voru sýndir í október og árinu lauk með 24 þátta leiknu jóladagatali, Jólakortinu.

Sumarið á RÚV núll
Hlaðvörp frá RÚV núll hafa gengið mjög vel og má þar helst nefna Já OK! sem fjallar á gamansaman en fræðandi hátt um áhugaverða atburði eða fólk úr sögu Íslands. Þættirnir sitja oftar en ekki ofarlega á vinsældalistum hlaðvarpsveita og hafa verið notaðir sem námsefni í grunn- og framhaldsskólum vítt og breitt um landið. Þættirnir Hvað getum við gert? komu út samhliða sjónvarpsþáttaröðinni Hvað höfum við gert? og fjölluðu á fræðandi hátt um það hvernig ungt fólk getur lagt sitt af mörkum til að vinna á hamfarahlýnun. Hinseginleikinn á hlaðvarpsformi kom út síðsumars í tengslum við tuttugu ára afmæli Hinsegindaga og fimmtíu ára afmæli Stonewall-uppreisnarinnar. Þættirnir nutu gífurlega vinsælda. Níundu og síðustu myndinni í Star Wars-kvikmyndabálknum voru svo gerð skil í hlaðvarpsþáttunum Hans Óli skaut fyrst en þáttaröðinni lauk með þætti sem tekinn var upp í hljóði og í mynd og tókst mjög vel. Þættirnir Fram á við, þar sem talað var við unga frumkvöðla eða ungt fólk sem náð hefur langt í viðskiptalífinu, nutu sömuleiðis velgengni á haustmánuðum. Fleiri hlaðvarpsþættir sem hófu göngu sína hjá RÚV núll eru til dæmis Skaparinn, viðtalsþættir við skapandi fólk; Bíó tvíó, umfjöllun um allar íslenskar kvikmyndir; Hnotskurn, þáttur þar sem fréttamálin sem eru efst á baugi eru útskýrð ofan í kjarna sinn; og Óskarinn, stutt hlaðvarpsþáttaröð um Óskarsverðlaunin. Þá dró RÚV núll fram gamla þætti úr safni RÚV, Leðurblökuna eftir Veru Illugadóttur, en þættirnir voru meðal vinsælustu hlaðvarpsþátta landsins á meðan þáttaröðinni stóð.
Þriggja sólarhringja útsending RÚV núll, sem bar heitið Endalaust útvarp, var send út í hljóði og í mynd 10.-13. september. Fjórir dagskrárgerðarmenn vörðu þá öllum sínum stundum inni í Stúdíói 9 og vöktu athygli á landsátakinu Ég á bara eitt líf. Tilefnið var söfnun Á allra vörum fyrir fræðslu- og forvarnarstarf Ég á bara eitt líf um fíkniefnanotkun ungs fólks. Þessi 72 klukkustunda útsending vakti mikla athygli en gestir í útsendingunni voru yfir hundrað talsins, bæði viðmælendur og tónlistarfólk sem gæddi útsendinguna lífi með lifandi flutningi á tónlist.
RÚV núll