REKSTRARYFIRLIT 2019: ÁFRAM JÁKVÆÐ AFKOMA AF STARFSEMI RÚV

Á árinu 2019 var hagnaður af starfsemi RÚV 8,2 m.kr. fyrir skatta og er það fimmta árið í röð sem afkoma RÚV af reglulegri starfsemi er jákvæð.

Félagið greiðir ekki skatta af hagnaðinum vegna uppsafnaðs taps frá fyrri tíð. Eiginfjárhlutfall félagsins hefur batnað umtalsvert á síðustu árum en það er nú 26,2% en var 6,2% í lok ársins 2015.

Breytingar í starfsemi og stefnu RÚV á síðustu fimm árum hafa skilað sér í umtalsverðri hagræðingu og jafnvægi er komið á í rekstri félagsins. Markmiðið var að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er. RÚV seldi byggingarrétt á lóð sinni við Efstaleiti á árinu 2015 og var ábata af sölunni ráðstafað til niðurgreiðslu skulda. Þá er stór hluti Útvarpshússins nú leigður út.

Hagnaður/tap, regluleg starfsemi: 2012-2019

Þróun eiginfjárhlutfalls: 2013-2019

FRAMTÍÐARHORFUR OG EFNAHAGUR

Þrátt fyrir jákvæða rekstrarafkomu síðustu fimm ár, þarf að gæta aðhalds í rekstri til að tryggja áframhaldandi hallalausan rekstur.

RÚV stofnaði dótturfélagið RÚV Sölu um samkeppnisrekstur sinn sem tók til starfa í ársbyrjun 2020. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að fyrirkomulag rekstrar RÚV verði með svipuðum hætti á árinu 2020 samanborið við fyrri ár. Möguleikar RÚV Sölu til tekjuöflunar með sölu auglýsinga eru takmarkaðir auk þess sem auglýsingamarkaðurinn hefur á undanförnum árum verið að dragast saman og óvissa ríkir um frekari þróun. Frekari þrengingar myndu hafa áhrif á möguleika RÚV til að sinna lögbundinni þjónustu.

Þjónustusamningur milli RÚV og mennta- og menningarmálaráðuneytisins rann út 31. desember 2019 en unnið er að nýjum samningi sem mun hvíla á lögum um Ríkisútvarpið og fjármálaáætlun ríkissjóðs. RÚV er fjármagnað með útvarpsgjaldi, auglýsingatekjum og öðrum sértekjum skv. ákvörðun Alþingis en á undanförnum árum hefur svigrúm til auglýsingasölu minnkað í kjölfar breytinga á lögum um Ríkisútvarpið frá árinu 2013.

Vaxtaberandi skuldir RÚV hafa lækkað mikið vegna sölu á byggingarrétti á árinu 2015. Skuldir RÚV hafa um árabil verið háar, m.a. vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum. Með sölu á byggingarrétti  við Efstaleiti tókst að greiða niður vaxtaberandi skuldir umtalsvert Allt frá stofnun RÚV ohf hefur RÚV átt í erfiðleikum með að þjónusta skuldabréf við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem er tilkomið vegna eldri lífeyrisskuldbindinga, en á árinu 2018 var samið um skilmála breytingu á skuldabréfinu, lánstími skuldabréfsins var lengdur og samið um ný vaxtakjör. Þrátt fyrir þessar aðgerðir býr félagið enn við háa skuldsetningu vegna skulda frá fyrri tíð og skuldir eru þungur baggi á starfseminni.

Trygg og fyrirsjáanleg opinber fjármögnun er grunnforsenda þess að almannafjölmiðill geti rækt lýðræðis-, menningar- og samfélagshlutverk sitt af kostgæfni. Fjölmargar áskoranir blasa við, ekki síst auknar kröfur um nýjar miðlunarleiðir og þjónustu sem breytt fjölmiðlalandslag á heimsvísu krefst.

 

Hér má sækja ársreikning RÚV ohf fyrir árið 2019

AUGLÝSINGAR OG KOSTUN Á RÚV

Tekjur RÚV á rekstrarárinu 2019 af sölu auglýsinga og kostana nam 1.837 m.kr.

Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu:

Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, Brot, EM í frjálsum íþróttum, undankeppni EM í knattspyrnu, EM í sundi, Eurovision og Söngvakeppnin, Hestaíþróttir, HM í frjálsum íþróttum, HM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, HM kvenna í fótbolta, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í keilu, Íslandsmótið í golfi, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Meistaradagar í íþróttum, Menningarnótt, Mótorsport, Ófærð, Reykjavíkurleikarnir, Reykjavík Crossfit mótið, Reykjavíkurmaraþon, Skólahreysti.

Eftirtaldir dagskrárliðir voru rofnir með auglýsingahléum á árinu:

Alla leið, Eurovision, Eddan, Gettu betur, Gríman, Íþróttamaður ársins, Menningarnótt, Meistaradagar, Klassíkin okkar, Reykjavíkurleikarnir, Skólahreysti, Söngvakeppnin, Tónlistarverðlaunin.

Auglýsingasölu RÚV hefur um árabil verið ætlað að standa undir hluta af almannaþjónustu RÚV. Samkvæmt greiningu Hagstofu Íslands þá er hlutdeild RÚV í heildartekjum af auglýsingum á Íslandi um 16% á móti 84% sem renna til einkarekinna fjölmiðla. Þá kemur fram að sé horft til heildartekna fjölmiðla, að teknu tilliti til áskrifta, auglýsinga og útvarpsgjalds, þá var RÚV með 22% af heildartekjum fjölmiðla á árinu 2017 og hefur hlutdeildin minnkað jafnt og þétt á síðustu 20 árum.