Breytingar á reikningsári RÚV

Á hluthafafundi Ríkisútvarpsins ohf. 24. febrúar 2015 var samþykkt breyting á samþykktum félagsins þess efnis að reikningsár félagsins verði almanaksárið í stað 1. september til 31. ágúst. Í ársreikningnum eru birtar til samanburðar afkomutölur síðasta rekstrarárs (1. september 2013 – 31. ágúst 2014) og staða efnahags í lok þess, 31. ágúst 2014. Ársreikningurinn nær því nú yfir sextán mánaða tímabil. Þá koma einnig fram óendurskoðaðar afkomutölur á almanaksárinu 2015 í samanburði við árið 2014.

Rekstraryfirlit 2015: Viðsnúningur í rekstri frá fyrra ári og jákvæð afkoma

Viðsnúningur varð á rekstri RÚV frá fyrra ári og rekstrarafkoma var jákvæð á árinu 2015. Afkoma sextán mánaða tímabilsins var 14 m.kr. hagnaður fyrir skatta, samanborið við 339 m.kr. tap fyrir skatta á síðasta rekstarári. Á almanaksárinu 2015 var 80 m.kr. hagnaður fyrir skatta, samanborið við 232 m.kr. tap fyrir skatta á árinu 2014.

Breytingar síðustu tveggja ára hafa skilað sér í umtalsveðri hagræðingu og jafnvægi er komið á í rekstri félagsins. Markmiðið var að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er og var stór hluti Útvarpshússins leigður út. Rekstrargjöld lækkuðu að raunvirði frá 2014 til 2015 þrátt fyrir að kostnaður við dreifikerfi hafi hækkað en sá kostnaður er til kominn vegna samnings um stafræna dreifingu frá 2013. Afskriftir rekstrarfjármuna lækka einnig milli sömu tímabila en fjármagnskostnaður er enn hár vegna mikillar skuldsetningar. Kostnaður við yfirstjórn lækkar milli tímabila. Tekjur félagsins hækka á milli ára. Stöðugildi voru að meðaltali 259 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Samið var um sölu á byggingarrétti á lóð við Efstaleiti í október 2015. Þegar hafa verið greiddar 800 m.kr. fyrir byggingaréttinn sem Ríkisútvarpið ráðstafaði til niðurgreiðslu skulda. Vegna fyrirvara í kaupsamningi og varúðarsjónarmiða er söluhagnaður ekki færður í ársreikningi ársins 2015.

Hagnaður/tap fyrir skatta, þróun árin 2009 - 2015

Meðalfjöldi stöðugilda, þróun árin 2009 - 2015

Framtíðarhorfur og efnahagur

Þrátt fyrir jákvæðan viðsnúning í rekstri að undanförnu, þarf að grípa til frekari aðgerða til að tryggja áframhaldandi hallalausan rekstur þar sem opinberar tekjur félagsins fyrir árið 2016 hækka ekki í samræmi við verðlag og kjarasamningshækkanir. Þá voru möguleikar á öflun auglýsingatekna takmarkaðir með lagasetningu 2013. Því þarf að grípa til frekari niðurskurðar til að tryggja áframhaldandi hallalausan rekstur.

Þá ríkir enn óvissa um framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar félagsins og skuldir eru þungur baggi á starfseminni. Sjálfstæð úttekt PwC frá árinu 2014 staðfesti að félagið væri yfirskuldsett og þar vegur þyngst gamalt lán vegna uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum.

Hagnaður vegna sölu byggingarréttar á lóðinni við Efstaleiti verður færður í ársreikningi ársins 2016 og leiðir til mestu skuldalækkunar í sögu félagsins

Nýr þjónustusamningur til ársins 2020 tryggir stöðugleika í fjárveitingum og gera félaginu kleift að gera eðlilegar langtímaáætlanir. Trygg og fyrirsjáanleg opinber fjármögnun er grunnforsenda þess að almannafjölmiðill geti rækt lýðræðis-, menningar- og samfélagshlutverk sitt af kostgæfni.

Hér má sækja Ársreikning Ríkisútvarpsins ohf 1.9.2014 – 31.12 2015 í heild sinni í Acrobat (pdf) skjali.

Tekjur RÚV – Þróun og samhengi

Samkvæmt lögum á RÚV að fá útvarpsgjald til að standa undir hinum viðamiklu lögbundnu skyldum sínum. Frá ohf-væðingu RÚV árið 2007 hefur ríkið ítrekað tekið hluta af útvarpsgjaldi og nýtt til annarra verkefna (alls 2.651 m/kr að raunvirði), og gjaldið hefur ekki verið látið fylgja verðlagsþróun eins og lagt var upp með við stofnun félagsins, og því hafa þjónustutekjur RÚV lækkað mikið að raunvirði. Á sama tímabili hafa möguleikar til tekjuöflunar í gegnum auglýsingasölu takmarkaðir. Þrátt fyrir þetta hafa lögbundnar skyldur RÚV verið auknar á tímabilinu.

Heildartekjur RÚV eru margfalt lægri en allra almannaþjónustumiðla í nágrannalöndunum. Tekjur norrænu stöðvanna eru t.d. 14-25 sinnum hærri en heildartekjur RÚV á ári hverju, og tekjur BBC 218 sinnum hærri, svo eitthvað sé nefnt. Sé horft til opinbers framlags á hvern íbúa (per capita) kemur í ljós að þrátt fyrir smæð þjóðar er opinbert framlag til almannaþjónustu lægra á Íslandi en í nágrannalöndum.

Árlegar heildartekjur almannaþjónustumiðla

Heildartekjur almannaþjónustumiðla á hvern íbúa

Heimild: EBU, október 2015, gögn frá árinu 2013