Í upphafi ársins 2015.
17.09.2014

Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Á Degi íslenskrar náttúru árið 2014 hlaut RÚV, fjölmiðlaverðlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir ítarlega og vandaða umjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum.

10.10.2014

Stóraukin áhersla á leikið efni hjá RÚV

Stjórn Ríkisútvarpsins samþykkti tillögu útvarpsstjóra um að auka áherslu og framlög til framleiðslu íslensks leikins efnis í starfsemi RÚV. Áætlunin miðar að því að RÚV taki enn virkari þátt í kvikmyndagerð hérlendis og bjóði þjóðinni upp á bætt úrval slíks efnis. Stofnuð verður sérstök eining sem nefnist RÚV MYNDIR til að halda utan um verkefnið. Stefnt er að því að frá árinu 2017 sýni RÚV a.m.k. þrjár nýjar leiknar sjónvarpsþáttaraðir á ári og að framlag RÚV til leikins efnis verði ekki undir 200 milljónum króna á ári.

18.10.2014

Óskalög þjóðarinnar

Haustið 2014 hóf göngu sína fjölskyldu- og skemmtiþátturinn Óskalög þjóðarinnar þar sem þjóðin fékk tækifæri til að velja og heyra óskalögin sín í flutningi sinna ástsælustu listamanna. Lögin hafði þjóðin valið til flutnings með netkosningu á RÚV.is. Í hverjum þætti voru flutt fimm af allra vinsælustu lögum hvers áratugar frá 1944-2014. Í lokaþættinum var óskalag þjóðinnar valið og hreppti lag Bjartmars Guðlaugssonar, Þannig týnist tíminn, í flutningi Páls Rósinkranz titilinn. Umsjónarmenn þáttaraðarinnar voru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Jón Ólafsson.

27.10.2014

Þjóðræknisfélagið heiðrar Vesturfara og Andra á flandri

Þjóðræknisfélag Íslendinga veitti Agli Helgasyni, Ragnheiði Thorsteinsson og Jóni Víði Haukssyni viðurkenningu fyrir framúrskarandi vel gerða þætti sem hafa kynnt Íslendingum menningararf sinn og stuðla þannig að varðveislu hans. Þjóðræknisfélagið veitti Andra Frey Viðarssyni, Kristófer Dignusi og Huga Halldórssyni viðurkenningu fyrir þeirra framlag með gerð þáttanna Andri á flandri sem sýndir voru á RÚV haustið 2012. http://www.ruv.is/frett/thjodraeknisfelagid-hrosar-vesturforunum

15.11.2014

Málþing til heiðurs Margréti Indriðadóttur

Málþing til heiðurs Margréti Indriðadóttur, fyrrverandi fréttastjóra Útvarps, var haldið í Útvarpshúsinu 15. nóvember. Það bar yfirskriftina Í fréttum er þetta helst… og þar fjölluðu nokkrir fyrirlesarar um fréttir og fjölmiðla fyrr og nú. Margrét var brautryðjandi í fréttamennsku hér á landi og fyrsta konan á Norðurlöndum sem gegndi stöðu fréttastjóra ríkisútvarps. http://www.ruv.is/frett/almannautvarp-veiti-stjornvoldum-adhald

01.12.2014

Sarpur og Sarpsapp

RÚV leggur áherslu á að koma til móts við almenning þar sem hann er hverju sinni. Sífellt eru þróaðar leiðir til að miðla efni á nýja vegu með ólíkar þarfir og óskir í huga. Sarpurinn á RÚV.is var endurhannaður frá grunni og tekinn í notkun í lok árs 2014. Sarpsappið fyrir snjalltæki, sem var tilnefnt til íslensku vefverðlaunanna, nýtur mikilla vinsælda. http://www.ruv.is/i-umraedunni

24.12.2014

Útvarpsleikhúsið og börnin

Ákveðið var árið 2015 að efla þjónustu Útvarpsleikhússins með því að bjóða ætíð upp á framhaldsleikrit fyrir fjölskyldur um jól og páska. Fyrsta leikskritið sem varð fyrir valinu var fjölskylduleikritið Sitji guðs englar, eftir sögu Guðrúnar Helgadóttur. Var það flutt í sex þáttum jólin 2015. http://www.ruv.is/frett/sitji-guds-englar-i-utvarpsleikhusinu

31.12.2014

Viðurkenning úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins

Hrafnhildur Hagalín hlaut viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins á gamlársdag. Í ræðu sinni við verðlaunaafhendinguna lagði Hrafnhildur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um menningarstofnanir og nefndi Ríkisútvarpið sérstaklega. http://www.ruv.is/frett/hrafnhildur-faer-rithofundaverdlaun-ruv

31.12.2014

Maður ársins 2014

Tómas Guðbjartsson læknir var maður ársins að mati hlustenda Rásar 2. http://www.ruv.is/frett/tomas-gudbjartsson-madur-arsins

03.01.2015

Vegleg umfjöllun um kosningarétt kvenna í hundrað ár

RÚV hélt upp á að 100 ár voru liðin síðan konur fengu kosningarrétt árið 2015 með viðamikilli og fjölbreyttri dagskrá. RÚV framleiddi meðal annars þáttaröðina Öldin hennar, 52 örþætti sem sendir voru út á jafnmörgum vikum. Í þáttunum er fjallað um stóra og stefnumarkandi atburði sem tengjast sögu íslenskra kvenna og baráttu þeirra fyrir samfélagslegu jafnrétti. Í apríl 2016 var þáttaröðin tilnefnd til jafnréttisverðlauna Jafnréttisráðs en verðlaunin verða afhent í maí 2016.

31.01.2015

Söngvakeppnin 2015

Söngvakeppnin 2015 fór fram í Háskólabíói í byrjun febrúar; tvær undankeppnir og úrslitakeppni sem sýndar voru í beinni útsendingu á RÚV. Almenningi gafst kostur á að taka þátt í gleðinni í Háskólabíói og var uppselt öll þrjú kvöldin. Keppnin þótti afar vönduð og vel heppnuð, hún vakti mikla athygli og umtal og áhorf var með ágætum.

02.02.2015

Stafræn dreifing sjónvarps innleidd

Ein stærstu tímamótin í íslenskri fjarskiptasögu urðu 2. febrúar þegar hliðrænum útsendingum var hætt og nýtt stafrænt dreifikerfi virkjað. Kerfið nær til 99,9% landsmanna og myndmerkið er það besta sem er í boði á landinu, óþjöppuð háskerpa (þegar slíkt efni er í boði). Kerfið byggir á DVB-T og DVB-T2, stöðlum sem evrópskar sjónvarpsstöðvar nota. Almenningur þarf ekki að kaupa neina aukaþjónustu til að ná útsendingum RÚV  heldur þarf einungis loftnet. Samningur við Vodafone um innleiðingu kerfisins var undirritaður fyrri hluta ársins 2013. http://www.ruv.is/frett/timamot-i-dreifingu-sjonvarps http://www.ruv.is/frett/sjonvarp-einungis-sent-ut-stafraent http://www.ruv.is/frett/slokktu-a-hlidraena-dreifikerfi-ruv

14.02.2015

Íþróttafréttaskóli fyrir konur

Helgina 14.-15. febrúar var haldið helgarnámskeið í íþróttafréttamennsku í Útvarpshúsinu. Námskeiðið endurómaði þá stefnu RÚV að jafna hlut kynjanna í hópi dagskrárgerðar- og fréttamanna, sem og viðmælenda og umfjöllunarefna. Erfiðlega hefur gengið að fá konur til liðs við sterkan hóp íþróttafréttamanna og með námskeiðinu vildi RÚV stuðla að jafnara kynjahlutfalli á skjánum. http://www.ruv.is/frett/ithrottafrettaskoli-fyrir-konur

21.02.2015

RÚV sigursælt á Eddunni

RÚV fékk 25 tilnefningar til Eddu-verðlaunanna og var óvenju sigursælt, hlaut öll verðlaun sem veitt voru í sjónvarpsflokkum. Verðlaunin fyrir barna og unglingaefni hlaut Ævar vísindamaður;  frétta- eða viðtalsþáttur ársins var Landinn; leikið sjónvarpsefni, Hraunið; lífsstílsþáttur ársins var Hæpið; Vesturfarar voru menningarþátturinn og Orðbragð skemmtiþátturinn. Brynja Þorgeirsdóttir var sjónvarpsmaður ársins og  heiðursverðlaun hlaut Ómar Ragnarsson. Kvikmyndin Vonarstræti fékk 12 verðlaun, m.a. sem kvikmynd ársins. Hún verður á dagskrá RÚV um páskana. http://www.ruv.is/frett/rikisutvarpid-sigursaelt-a-eddunni

23.02.2015

Reykjavíkurborg leigir hluta Útvarpshússins

Samningur Reykjavíkurborgar og Ríkisútvarpsins um leigu borgarinnar á hluta Útvarpshússins til næstu fimmtán ára var undirritaður. Reykjavíkurborg tekur um 2.600 m2 á leigu til eigin nota auk sameiginlegra rýma. Reykjavíkurborg nýtir húsnæðið fyrir þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða. Starfsfólk þjónustumiðstöðvar flutti inn í september 2015. Leigusamningurinn færir Ríkisútvarpinu tæplega 60 milljónir króna á ári í leigutekjur auk þess sem rekstrarkostnaður fasteignarinnar lækkar. http://www.ruv.is/frett/thjonustumidstod-flytur-i-utvarpshusid

28.02.2015

Blaðamannaverðlaunin til RÚV

Helgi Seljan, fréttamaður í Kastljósi, fékk verðlaun Blaðamannafélagsins fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2014. Verðlaunin hlaut hann fyrir umfjöllun um MS og uppruna vöru. Guðmundur Bergkvist fékk verðlaun fyrir myndskeið ársins 2014, upptöku úr umfjölluninni Rannsóknarstofunni Surtsey í Landanum á RÚV. http://www.ruv.is/frett/helgi-og-gudmundur-fa-bladamannaverdlaun

03.03.2015

Nýr vefur RÚV.is í loftið

Nýr vefur Ríkisútvarpsins, RÚV.is, fór í loftið 3. mars og markar hann þáttaskil í sögu RÚV. Vefurinn hefur hlotið afbragðsviðtökur - heimsóknum fjölgaði allnokkuð og meðalnotandinn hefur jafnframt lengri viðdvöl en áður. Viðbrögðin eru mjög jákvæð. Tilgangurinn er að miðla fjölbreyttu efni allra miðla RÚV. Nýr vefur er sannkallað hlaðborð frétta og skemmtiefnis, menningar og mannlífsumfjöllunar. Á nýjum undirvef, Okkar RÚV, er vettvangur til að miðla því sem ber hæst í starfseminni, svara spurningum og taka við ábendingum. http://www.ruv.is/frett/nyr-ruvis-markar-thattaskil

03.03.2015

Þúsundasta innslag Landans og Landakortið kynnt til sögunnar

Þúsundasta innslagið í Landanum var sent út sunnudaginn 15. mars. Við þau tímamót var Landakortið birt á RÚV.is. Þar er innslögum úr Landanum raðað á viðeigandi staði á Íslandskorti og þar má velja þau innslög sem vekja áhuga. http://www.ruv.is/frett/thusundasta-innslagid-i-landanum-um-helgina

04.03.2015

Upplýsingavefur um RÚV opnaður

RÚV leggur mikla áherslu á opið samtal um Ríkisútvarp okkar allra. Í þeim tilgangi var opnaður viðamikill vefur sem nefnist RÚV okkar allra. Þar er miðlað upplýsingum um starfsemi RÚV og helstu fréttum. Einnig er opnuð greið leið fyrir almenning til að koma með ábendingar, athugasemdir og gagnrýni. https://www.ruv.is/ruv-okkar-allra

13.04.2015

Hægvarpið Beint frá burði vekur stormandi lukku

Landsmenn tóku afar vel í beina útsendingu RÚV frá sauðburði á Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Útsendingin stóð yfir í sólarhring, frá hádegi 14. maí til hádegis daginn eftir og fjölmargir fylgdust með á RÚV, RÚV 2 og RÚV.is auk þess sem dagskráin var mjög áberandi á samfélagsmiðlum. Margir skólar nýttu dagskrána til kennslu. Einnig bárust ófáar kveðjurnar þar sem þakkað var fyrir uppátækið enda þótti þetta allt í senn skemmtilegt og fræðandi auk þess að sameina unga sem aldna við sjónvarpstækið. http://www.ruv.is/frett/beint-fra-burdi-vekur-mikla-lukku

20.04.2015

Ungir fréttamenn á RÚV.is

Á Barnamenningarhátíð gafst unglingum í 8.-10. bekk tækifæri til að spreyta sig á blaðamennsku í samstarfi RÚV og Barnamenningarhátíðar. Tíu unglingar fengu leiðsögn frétta- og dagskrárgerðamanna á námskeiði í Útvarpshúsinu og lærðu undirstöðuatriði í fréttaskrifum og frásögnum. Krakkarnir fræddust um mismunandi tegundir dagskrárgerðar, æfðu sig í framsögn og kynntust starfsemi RÚV.  Í námskeiðslok fluttu börnin sjálf fréttir af viðburðum hátíðarinnar sem birtar voru jafnóðum á RÚV.is. http://www.ruv.is/frett/ungir-frettamenn-a-ruvis

12.05.2015

Ályktun menningarmálaráðherra í Færeyjum

Menningarmálaráðherrar á Norðurlöndunum gáfu út yfirlýsingu um formlegt samkomulag um að stuðla að því að norrænir fjölmiðlar í almannaþágu, haldi áfram að efla lýðræðislega umræðu og tryggja óháðan fréttaflutning á tímum stafrænna miðla. Samkomulagið var gert á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar í Þórshöfn í Færeyjum 12.-13. maí. Í yfirlýsingunni kemur fram að nú, þegar almenningur hefur sífellt meira val um það hverju hann fylgist með og hvenær, vakni ýmsar spurningar um markmið og hlutverk fjölmiðla sem reknir eru í almannaþágu. Ráðherrarnir leggja áherslu á að tryggt verði að efni þessara miðla sé aðgengilegt og gagnist öllum neytendum stafrænna miðla. Þetta sé sérstaklega mikilvægt gagnvart börnum og ungmennum því að þeirra er framtíðin. http://www.ruv.is/frett/samkomulag-um-fjolmidla-i-almannathagu

19.06.2015

19. júní gerð góð skil á RÚV

RÚV fagnaði því að 100 ár eru frá því að konur fengu kosningarétt með metnaðarfullri dagskrá í öllum miðlum. Sjónvarpsdagskráin var undirlögð konum úr öllum áttum, t.d. konum í evrópskri listasögu, rokk-konum og kjarnakonum í Bandaríkjunum. Íslenskir kvenflytjendur og höfundar hljómuðu allan daginn í útvarpinu. Streymt var frá kvennaráðstefnunni Women Empowerment á RÚV.is  auk þess sem Kastljós var sent út beint frá Hörpu í tilefni dagsins og kvennatónleikar voru sýndir í beinni frá Hörpu um kvöldið.

30.06.2015

Arkþing vinnur samkeppni um lóðina við Efstaleiti

Tillaga Arkþings um skipulag á lóð RÚV við Efstaleiti bar sigur úr býtum í hugmyndasamkeppni á vegum Reykjavíkurborgar og RÚV. Niðurstaðan var kynnt við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur 30. júní. Í vinningstillögunni er gert ráð fyrir að byggingarmagn á lóðinni sé samtals um 31.500 m2; meira en 250 íbúðir og auk þess umtalsvert rými fyrir skrifstofu- og þjónustubyggingar. Samkeppnin var haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og dómnefnd skilaði einróma niðurstöðu. http://www.ruv.is/frett/arkthing-vinnur-samkeppni-um-efstaleitislod

11.07.2015

Sumardagar - RÚV um land allt

RÚV tók sumrinu fagnandi með Sumardögum. Rás 2, fréttastofan og RÚV lögðu land undir fót og sendu út frá 13 bæjarfélögum víðsvegar um landið, frá 1. júlí fram til 14. ágúst. Í Sumardögum var brugðið upp léttum svipmyndum frá ýmsum stöðum á landinu og rætt við fjölda fólks sem fæst við ólík viðfangsefni. http://www.ruv.is/frett/sumardagar-ruv-um-land-allt-0

19.08.2015

Öflugra Kastljós og menningin færist á besta stað í dagskránni

Í lok ágúst hóf Kastljós göngu sína á ný í ritstjórn Þóru Arnórsdóttur. Fréttatengd viðtöl og fréttaskýringar eru áfram hryggjarstykki þáttarins en við bætist föst menningarumfjöllun samhliða því sem útsendingartími lengist. Þessi breyting er liður í að efla umfjöllun RÚV um menningu með því að færa hana á besta stað í dagskránni, ásamt því að efla Kastljós og auka fjölbreytni þáttarins. Við þetta jókst menningarumfjöllun RÚV mikið í mínútum talið auk þess sem áhorf á menningarefni jókst umtalsvert enda á betri tíma en áður. http://www.ruv.is/frett/brynja-menningarritstjori-kastljoss

20.08.2015

Ráðningar á landsbyggðinni

Ráðið var í fjórar auglýstar stöður frétta- og dagskrárgerðarmanna hjá RÚV á landsbyggðinni. Hátt í hundrað umsóknir bárust um störfin sem auglýst voru á Vesturlandi/Vestfjörðum, Norðurlandi, Suðurlandi og Austurlandi. Ráðningarnar eru mikilvægur áfangi í því að efla starfsemi RÚV á landsbyggðinni eins og að er stefnt. http://www.ruv.is/frett/radid-i-stodur-hja-ruv-a-landsbyggdinni http://www.ruv.is/frett/starfsemi-ruv-efld-a-landsbyggdinni

02.09.2015

Gettu betur æfingabúðir í Efstaleiti

Gettu betur æfingabúðir fyrir stelpur voru haldnar öðru sinni síðustu helgina í ágúst og 28 fróðleiksfúsar stelpur fæddar 1996-2001 tóku þátt í þeim. Leikar hófust á föstudagskvöldinu með spilakvöldi í Verzlunarskóla Íslands. Búðirnar eru aðeins fyrir stúlkur en þau ár sem keppnin hefur verið haldin hafa piltar verið í meirihluta meðal þátttakenda. Hópurinn sem stóð að æfingabúðunum vonast til að þær stuðli að jafnari kynjaskiptingu í keppninni. http://www.ruv.is/frett/gettu-betur-stelpur-i-efstaleiti

04.09.2015

Menningarvetrinum fagnað í beinni útsendingu

Viðamikil og vönduð dagskrá var í beinni útsendingu í sjónvarpi 4. september. RÚV fagnaði nýjum menningarvetri með útsendingu úr leikhúsum og tónlistarhúsum landsins. Punkturinn yfir i-ið var vönduð útsending frá Sinfóníutónleikum með Kristni Sigmundssyni. Útsendingin mæltist afar vel fyrir og stefnt er að fleiri slíkum í takt við yfirlýsta stefnu um að sinna menningu betur en gert hefur verið. Beinum útsendingum og upptökum frá tónleikum, leiksýningum, óperuuppsetningum og öðrum menningarviðburðum fjölgaði mikið veturinn 2015-2016.

06.09.2015

Haustkynning í öllum miðlum RÚV

Á haustmánuðum var vetrardagskrá RÚV í öllum miðlum kynnt af krafti í kynningarstiklum fyrir sjónvarp og útvarp og borðum á vef. Í fyrsta sinn var opnaður kynningarvefur með yfirliti yfir helstu dagskrárliði og samhliða því var kynningarmynd um dagskrána sýnd í sjónvarpi og dreift á samfélagsmiðlum. Vetrardagskráin er fjölbreytt og þar má sjá ýmsar áherslubreytingar. Menningarefni er í öndvegi, áhersla lögð á innlent gæðaefni og þjónusta við börn stórbætt með KrakkaRÚV. Þá hefur starfsemi verið efld á landsbyggðinni. www.ruv.is/haustid http://www.ruv.is/frett/fjolbreytt-vetrardagskra-ruv-kynnt

25.09.2015

Eineltisátak á Rás 2 og RÚV

RÚV vakti athygli á einelti og alvarlegum afleiðingum þess föstudaginn 25. september.  Sérstök dagskrá var á Rás 2 allan daginn og var safnað fyrir samskiptamiðstöð gegn einelti. Um kvöldið var sérstakur sjónvarpsþáttur á RÚV þar sem fjallað var um þetta mikilvæga málefni frá ólíkum hliðum. http://www.ruv.is/frett/ruv-leggur-barattunni-gegn-einelti-lid

30.09.2015

Dagur í lífi þjóðar

Hvað fæst fólk við dagsdaglega? Hvað er að gerast í lífi þess? Hver eru verkefni dagsins? Landsmenn voru hvattir til að taka upp myndavélina sína þann 30. september 2015, mynda hversdagslíf sitt og senda til RÚV. Markmiðið var að safna upplýsingum um líf fólksins í landinu og búa til úr myndbrotunum heimildarmynd, myndina Dagur í lífi þjóðar. Myndin verður frumsýnd á RÚV í tengslum við hálfrar aldar afmæli RÚV 30. september 2016.

05.10.2015

Gott samtal á hringferð RÚV um landið

Á haustmánuðum 2015 efndi RÚV til opinnar umræðu víðsvegar um landið um þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins og hlutverk fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Haldnir voru fundir á Ísafirði, Selfossi, Akureyri, Egilsstöðum og í Borgarnesi og hringferðin mæltist vel fyrir. Í máli fundarmanna kom fram ánægja með framtakið og þakklæti til RÚV ásamt fjölmörgum gagnlegum ábendingum og athugsemdum við þjónustu, dagskrá og dreifikerfi. Öllum athugasemdum var safnað saman og þær settar í farveg. http://www.ruv.is/frett/gott-samtal-a-hringferd-ruv-um-landid

07.10.2015

Stórefld þjónusta við börn með KrakkaRÚV

KrakkaRÚV var kynnt til sögunnar, nýr ævintýraheimur þar sem börn geta nálgast mikið úrval af framúrskarandi efni af ólíku tagi og allt á íslensku. KrakkaRÚV er yfirheiti allrar þjónustu RÚV við börn; hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi eða á vefnum. Kjarninn í starfseminni er nýr vefur, www.krakkarúv.is. Á KrakkaRÚV er efni í hæsta gæðaflokki; fræðandi, upplýsandi, uppbyggilegt og síðast en ekki síst bráðskemmtilegt. KrakkaRÚV hefur notið mikillar hylli og fengið gott áhorf. Þjónustan hefur verið fest í sessi með nýjum þjónustusamningi. http://www.ruv.is/frett/storefld-thjonusta-vid-born-med-krakkaruv

12.10.2015

Málþing um RÚV með þátttöku Ingrid Deltenre

Efnt var til útvarpsþings í Útvarpshúsinu við Efstaleiti fimmtudaginn 17. september. Auk útvarpsstjóra og markaðsrannsóknastjóra RÚV tóku þar til máls menntamálaráðherra og framkvæmdastjóri EBU, Ingrid Deltenre. Í framhaldi af því hófst hringferð um landið þar sem efnt var til samtals um RÚV okkar allra.

12.10.2015

Ágóði af sölu á byggingarrétti nýttur til niðurgreiðslu skulda

Mikilvægur áfangi náðist í fjárhagslegri endurskipulagningu Ríkisútvarpsins þegar skrifað var undir kaupsamning RÚV og  einkahlutafélags með ábyrgð Skuggabyggðar ehf. um byggingarrétt á lóðinni við Efstaleiti 1. Unnið hefur verið að sölunni frá sumrinu 2014. Ávinningurinn af sölunni í heild er áætlaður a.m.k. 1,5 milljarðar króna en hann ræðst af endanlega staðfestu deiliskipulagi. Nú er unnið að deiliskipulagi lóðar við Efstaleiti á grundvelli vinningstillögu Arkþings um skipulag svæðisins. Til stendur að þar verði blönduð byggð. http://www.ruv.is/frett/lodasala-og-vidsnuningur-i-rekstri

29.10.2015

Lokið við gerð kjarasamninga

RÚV er með marga kjarasamninga við fjölda ólíkra stéttarfélaga. Gengið var frá samningum við fjölmörg félög á árinu og eyðir það óvissu. Samningsbundnar hækkanir eru í samræmi við hækkanir hjá öðrum félögum en þær leiða til umtalsverðra kostnaðarhækkana.

29.10.2015

Skýrsla um þróun fjárhags RÚV

Samantekt á vinnu nefndar undir formennsku Eyþórs Arnalds staðfesti að RÚV ohf. hefur verið undirfjármagnað frá stofnun árið 2007. Skuldsetning félagsins hefur frá 2007 verið allt of mikil. Það hafa stjórnendur og stjórnir RÚV sagt lengi og þetta var einnig staðfest í sjálfstæðri úttekt PWC árið 2014. Mistök voru gerð með því að láta gamlar lífeyrssjóðsskuldbindingar ríkisins fylgja með við hlutafélagsvæðinguna. Í samantektinni kemur fram að gera þarf nýjan þjónustusamning sem byggir á því að útvarpsgjald lækki ekki frekar og fjármögnun sé stöðug út samningstímann. Samantektin staðfestir að jákvæður viðsnúningur hefur orðið í rekstrinum á undanförnum átján mánuðum. Nýgerður samningur um sölu á byggingarrétti við Efstaleiti mun leiða til mestu lækkunar skulda í sögu félagsins. Samantektin staðfestir einnig að ríkið hefur frá stofnun RÚV ohf. haldið eftir 2.677 m.kr. af þvi útvarpsgjaldi sem lagt er á almenning. Í skýrslunni er fjallað um þær miklu aðhaldsaðgerðir sem RÚV hefur ráðist í frá 2007 og að rekstrargjöld hafi lækkað um 11%. Þar kemur og fram að heildartekjur RÚV eru aðeins lítið brot af tekjum systurstöðvanna á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Einnig að opinber framlög á hvern íbúa eru lægst á Íslandi af Norðurlöndunum. RÚV gerði athugasemdir við ýmis atriði í skýrslunni en fjölmargir aðrir aðilar gerðu athugasemdir, leiðréttingar og áréttingar við efni samantektarinnar, þeirra á meðal fjölmiðlanefnd, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Vodafone, stjórn Ríkisútvarpsins og Páll Magnússon fyrrverandi útvarpsstjóri. Að auki lýstu fjölmargir opinberlega yfir skoðun sinni á skýrslunni. http://www.ruv.is/frett/svarthvit-samantekt http://www.ruv.is/sites/default/files/throun_fjarhags_ruv_fra_2007_29_10_2015.pdf http://www.ruv.is/frett/leidretting-vegna-rangfaerslna-i-skyrslu

02.11.2015

Krakkafréttir hefjast á RÚV

Mánudaginn 2. nóvember hófust Krakkafréttir, nýr fréttatengdur þáttur fyrir börn, á RÚV. Þátturinn er á dagskrá frá mánudögum til fimmtudaga kl. 18.50. Þar er fjallað um málefni líðandi stundar á auðskilinn og greinargóðan hátt og heimsfréttirnar settar í samhengi við veruleika íslenskra barna. Tekið er á stóru málunum og menningu, listum, íþróttum og vísindum gerð góð skil. Mikil áhersla er lögð á að raddir barna heyrist í Krakkafréttum og innsendu efni frá börnum er gert hátt undir höfði. http://www.ruv.is/frett/krakkafrettir-hefjast-a-ruv

20.11.2015

Alþingi lækkar útvarpsgjald

Á árinu 2015 voru miklar umræður um fjárveitingar til RÚV. Menntamálaráðherra hafði lýst þeirri skoðun sinni að hann vildi að útvarpsgjaldið héldist óbreytt á milli áranna 2015 og 2016. Stjórn, starfsfólk og unnendur RÚV börðust gegn áformum meirihlutans á Alþingi um að lækka útvarpsgjaldið enn frekar. Niðurstaðan varð þó sú að Alþingi ákvað að lækka gjaldið enn á ný, nú niður í 16.000 kr. Flestar stofnanir ríkisins hlutu hækkun á framlögum til að mæta kostnaðarhækkunum, s.s. vegna kjarasamninga en RÚV þurfti að bregðast við lækkun útvarpsgjalds. Á móti lækkuninni samþykkti Alþingi að sérstaka fjárveitingu á árinu 2016 upp á 175 m. kr. sem renna á til sjálfstæðra framleiðenda. Mun hún minnka skellinn vegna lækkunar á útvarpsgjaldinu. Stjórn og stjórnendur RÚV hafa varað við þessari þróun og bent á að þetta leiði til skertrar þjónustu.

30.11.2015

Stígamót veita Hæpinu fjölmiðlaviðurkenningu

Hæpið, sjónvarpsþáttur í umsjón Katrínar Ásmundsdóttur og Unnsteins Manúels Stefánssonar, hlaut fjölmiðlaviðurkenningu Stígamóta fyrir tvo vandaða þætti um kynferðisofbeldi. http://www.ruv.is/frett/stigamot-veita-haepinu-fjolmidlavidurkenningu

02.12.2015

Kynjatalning

RÚV hóf í desember að telja viðmælendur með það að markmiði að jafna vægi kynjanna í miðlum Ríkisútvarpsins. Fyrstu tölur gefa jákvæðar vísbendingar um gott jafnvægi kynjanna í útvarpi en síðra í fréttum. Kynjahlutfall viðmælenda í almennum þáttum í útvarpi og sjónvarpi er nánast í jafnvægi. Hlutföll viðmælenda í sjónvarpsdagskrá RÚV, að undanskildum fréttum, er 47% konur og 53% karlar. Á Rás 1 eru kynjahlutföll viðmælenda nánast jöfn, 52% konur og 48% karlar að jafnaði á tímabilinu. Á Rás 2 voru 44% viðmælenda konur og 56% karlar. Sem fyrr er nokkur munur á fjölda viðmælenda af hvoru kyni í fréttum og íþróttum, um 67% karlar og 33% konur. Kynjahlutföll viðmælenda í fréttum og íþróttum hafa neikvæð áhrif á heildarmyndina en séu viðmælendur í fréttum og dagskrá teknir saman kemur í ljós að 40% þeira eru kvenkyns en 60% karlkyns. Tölur milli mánaða í fréttaumfjöllun sýna þróun í rétta átt. Þetta eru fyrstu skrefin í ferlinu og mælingarnar verða þróaðar á næstu misserum.

27.12.2015

Ófærð – vinsælasta leikna þáttaröðin í íslensku sjónvarpi

Ófærð, eftir Baltasar Kormák, var frumsýnd á RÚV 27. desember. Þáttaröðin er ein sú umfangsmesta sem ráðist hefur verið í að gera hérlendis og hennar var beðið með mikilli eftirvæntingu. Þættirnir verða sýndir víða um heim, s.s. á DR, SVT, NRK, YLE 5, ZDF, FRANCE Television og BBC 4. Meðaláhorf á þættina hérlendis var yfir 60% og er Ófærð því vinsælasta leikna þáttaröðin sem sýnd hefur verið í íslensku sjónvarpi frá því að mælingar hófust 2008. http://www.ruv.is/frett/stefnir-i-sogulegar-vinsaeldir-hja-ofaerd http://www.ruv.is/frett/59-ahorf-a-ofaerd-og-54-a-songvakeppnina

.. árið á enda.