Birt þann 12. ágúst 2017
Aðgengilegt á vef til 10. nóvember 2017

Áhrifavaldar Eyþórs Gunnarssonar - Að segja satt í músík

Eyþór Gunnarsson, píanó- og hljómborðsleikari, hleypir útvarpshlustendum inn í stúdíóið sitt og veltir fyrir sér áhrifavöldum sínum. Eyþór er einn atkvæðamesti tónlistarmaður Íslands; hann hefur átt langt og farsælt samstarf við ógrynni tónlistarmanna úr flestum geirum tónlistar og er margverðlaunaður fyrir hljómborðs- og píanóleik sinn. Eyþór var farinn að spila í ballhljómsveitum og inn á plötur í kringum sextán ára aldurinn en fyrsta platan sem hann lék inn á var Brottför kl. 8 með Mannakornum. Árið 1977 stofnaði hann hljómsveitina Mezzoforte ásamt Friðriki Karlssyni, Gunnlaugi Briem og Jóhanni Ásmundssyni en sveitin sló í gegn með lagi sínu Garden Party árið 1983 og þykir enn ein mikilvægasta fjúsjonsveit Evrópu. Á meðal ótal tónlistarmanna og hljómsveita sem Eyþór hefur starfað með í gegnum tíðina má nefna Ellenu Kristjánsdóttur og KK band, Gunnar Þórðarson og Bubba Mortens, Borgardætur og Baggalút, Ladda, Ragga Bjarna, Ríó Tríó, Rússíbana og fleiri og fleiri en Eyþór hefur spilað inn á vel á annað hundruð íslenskar hljómplötur og hefur einnig átt samstarf við fjölmarga erlenda tónlistarmenn og spilað á tónleikum um allan heim. Á undanförnum árum hefur Eyþór í æ ríkara mæli einbeitt sér að djasspíanóleik og spilað með ótal djasstónlistarmönnum, þeirra á meðal Jóel Pálssyni, Óskari Guðjónssyni, Sigurði Flosasyni, Tómasi R. Einarssyni, Ara Braga Kárasyni, Davíð Þór Jónssyni og fleirum. Eyþór er einn liðsmanna í sveitinni Annes en hana skipa auk Eyþórs þeir Jóel Pálsson, Ari Bragi Kárason, Guðmundur Pétursson og Einar Scheving, Eyþór tekur á móti útvarpshlustendum í stúdíóinu sínu í Árbænum og býður upp á kaffi á meðan hann rifjar upp kynnin af ljóðasöngvum Schuberts og djassinum hans Jóns Múla, bræðingstónlistinni sem bróðir hans Pétur Gunnarsson og síðar Friðrik Karlsson kynntu fyrir honum; hann talar um Weather Report, Keith Jarrett og píanókonserta Rachmaninofs, tungutak spunatónlistarinnar og mikilvægi þess að segja satt í músík.

Aðrir þættir

Áhrifavaldar Ólafar Nordal - Ólöf Nordal

Ólöf Nordal stundaði nám í textíldeild Myndlista - og handíðaskóla Íslands. Síðar fór hún til Bandaríkjanna í framhaldsnáms þar sem hún m.a. nam við Yale háskólann. Ólöf Nordal...
Frumflutt: 22.07.2017
Aðgengilegt til 20.10.2017

Áhrifavaldar Hrafnhildar Hagalín

Hrafnhildur Hagalín leikskáld segir frá áhrifavöldum sínum. Umsjón: Magnús Örn Sigurðsson.
Frumflutt: 03.06.2017
Aðgengilegt til 01.09.2017