„Mjög óvenjuleg styrkveiting“

31.01.2016 - 13:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður félags kvikmyndagerðarmanna segir styrkveitingar ríkisstjórnarinnar og utanríkisráðuneytisins til heimildamyndagerðarmanns mjög óvenjulegar. Hún hvetur aðra kvikmyndagerðarmenn að sækja um styrki beint til forsætisráðherra.

Heimildaþættir sem Árni Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður og fyrrverandi formaður flóttamannaráðs, ætlar að gera um þróunaraðstoð Íslands við flóttafólk úti og aðlögun flóttamanna sem hafa komið til landsins, hefur fengið tvo styrki frá ríkinu.

Annars vegar þriggja milljóna króna styrk frá utanríkisráðuneytinu og á föstudaginn þriggja milljóna króna styrk frá ríkisstjórninni, alls sex milljónir. Árni er einnig fyrrverandi aðstoðarmaður Páls Péturssonar ráðherra og fyrrverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins. Hann hefur gert ýmsar heimildarmyndir. Hrafnhildur Gunnarsdóttir er formaður Félags kvikmyndagerðarmanna.

„Þetta er mjög óvenjuleg styrkveiting og óvenjulega há upphæð fyrir slíkan skyndistyrk,“ segir Hrafnhildur.

Hrafnhildur telur að þetta sé stefnubreyting af hálfu stjórnvalda. Síðustu þrjú ár hafi kvikmyndagerðarmönnum reynst afar erfitt að fá slíka styrki frá ráðuneytum. Hún segir gríðarlega erfitt að fjármagna heimildarmyndir en hún segir gott að vita til þess að kvikmyndagerðarmenn eigi sér vildarmenn í ríkisstjórnini. 

„Ég verð bara að hvetja mitt fólk, heimildagerðarmenn að ef þeir eru í svipuðum aðstæðum að sækja beint til forsætisráðuneytisins. Ég fagna því að þar er kominn einhver vildarmaður í okkar garð. Það læðist að manni sá grunur og raddirnar á götunni að þetta sé pólitísk veiting, en við verðum bara að sjá og bíða hvort forsætisráðherra afsanni það ekki og ég hvet heimildargerðarmenn til að sækja beint um til forsætisráðherra,“ segir Hrafnhildur.

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV