Miðlæg heilsugæsla sögð lausnin á Austfjörðum

15.01.2016 - 22:57
Mynd með færslu
 Mynd: Heilsugæslan á Reyðarfirði  -  RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Alvarlegur vandi blasir við heilsugæslu í Fjarðabyggð ef læknum verða áfram boðnar einmenningsstöður sem erfiðlega hefur gengið að manna. Stjórnendur hjá Heilbrigðistofnun Austurlands vilja miðlæga heilsugæslu á Reyðarfirði án þess þó að loka öðrum heilsugæslustöðvum.

Á Reyðarfirði tvöfaldaðist íbúafjöldinn á nokkrum árum með uppbyggingu álvers en heilsugæslustöðin hefur hinsvegar ekki stækkað. Heilbrigðisstofnun Austurlands og Fjarðabyggð hafa lengi beðið um fjármagn til að stækka stöðina enda ætla þau henni stærra hlutverk. Að verða miðlæg heilsugæsla sem þjóni nálægum fjörðum. Þannig vilja stjórnendur HSA auka þjónustu og leysa ýmsan vanda; telja auðveldara að manna slíka stöð en dreifðar einmenningsstöður.

„Það er erfitt að standa einn á stöðinni og hafa ekki stuðning frá öðrum samstarfsfélögum. Það eru ýmis störf sem við gerum ekki nema það séu að minnsta kosti tveir eða þrír starfsmenn þannig að með þessu móti værum við alltaf örugg á því að það væri hér fullmönnuð stöð. Með nóg af starfsfólki til að geta sinnt öllu því sem við þurfum að gera. Ég myndi segja að það væri öryggi að vera með eina stóra stöð þar sem við getum sótt alltaf þjónustuna þangað,“ segir Guðrún Pétursdóttir, deildarstjóri heilsugæslunnar í Fjarðabyggð.

Heilsugæslustöðvum yrði ekki lokað á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, og Stöðvarfirði en viðvera þar yrði mönnuð að hluta frá Reyðarfirði. Þar yrði líka til aðstaða til að sinna og nýta læknanema. „Við gætum fengið fleiri sérfræðimóttökur hér. Við myndum þá reyna að auka þann tækjabúnað sem við höfum og þar af leiðandi geta aukið þjónustu,“ segir Guðrún.

Pétur Heimsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA telur breytingin myndi draga úr faglegri einangrun og miklum bakvöktum. Reynslan sýni að slíkt fæli unga lækna frá því að ráða sig út á land. „Fagfólk er í dag menntað til að starfa ekki hver fyrir sig heldur saman. Hafa stuðning sem mest daglega hvert af öðru til samráðs, ráðgjafar og svo framvegis,“ segir Pétur.

HSA og Fjarðabyggð gerðu sameiginlega viljayfirlýsingu um miðlæga heilsugæslu árið 2013 en eftir því sem næst verður komist hefur aldrei komist hreyfing á málið. Pétur telur mikilvægt að hrinda því í framkvæmd. „Að óbreyttu, ef við ekki bregðumst við þeim staðreyndum sem við sjáum núna, þá mun það hafa afleiðingar fyrir íbúa allrar Fjarðabyggðar og alls Austurlands. Þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt að styrkja eina miðlæga stöð og tryggja þannig örugga, öfluga heilsugæslu gagnvart öllu fjarðasvæðinu.“

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV