NYT fjallar um bókmenntaþjóðina

Innlent
 · 
Bókmenntir
Mynd með færslu
 Mynd: memyselfaneye  -  Pixabay

NYT fjallar um bókmenntaþjóðina

Innlent
 · 
Bókmenntir
19.11.2015 - 06:51.Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
New York Times fjallar um bókmenntaþjóðina Íslendinga á vefsíðu sinni með viðtölum við Andra Snæ Magnason og Úlfhildi Dagsdóttur, en blaðamaður fylgdi henni í bókmenntagöngutúr um miðborg Reykjavíkur.

Borgarbókasafnið hefur boðið upp á slíkar ferðir undanfarin ár en í ferðunum er stoppað á nokkrum stöðum sem koma fyrir í bókum og kaflabrot lesið upp fyrir hópinn. María Þórðardóttir leikkona sá um það í ferðinni, sem New York Times fjallar um.

Blaðamanni blaðsins þykir merkilegt að 90 prósent Íslendinga, 16 ára og eldri, lesa að minnsta kosti eina bók á ári sér til ánægju og að börn óski sér mest að fá bók í jólagjöf. Þá er í greininni sagt frá því að hér á landi sé flestar bækur gefnar út í heimi miðað við höfðatölu og flestar bækur lesnar. UNESCO útnefndi Reykjavík bókmenntaborg árið 2011. 

Andri Snær segir í viðtalinu að Íslendingar eigi fá málverk eða höggmyndir eldri en 100 ára. Hinsvegar eigi þjóðin fjölda sagna frá síðasta árþúsundi Íslandsbyggðar.