Þarf aukið fé í þróun íslenskrar máltækni

19.09.2015 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd: Google translate
Yfirmaður hjá Google segir það skrýtna forgangsröðun hjá stjórnvöldum að veita margfalt meira fé til varðveislu fornminja en í þróun máltækni fyrir íslenska tungu. Án hennar deyi málið út.

Máltæknin í forritinu Google translate er enn frumstæð á íslensku, en hún er þarna þó. Úlfar Erlingsson|yfirmaður tölvuöryggisrannsókna hjá Google getur til að mynda átt samskipti á íslensku við Theu Ilaria Piovano, nemi við HR, sem einungi talar ítölsku með hjálp forritsins.

Íslenska er eina litla tungumálið í heiminum sem Google hefur tekið inn í máltæknigrunn sinn - eingöngu vegna þess að íslenskir starfsmenn Google hafa notað aðstöðu sína hjá fyrirtækinu og fært hana inn.

„Í raun og veru fyrir lítil málsvæði erum við með einstakt tækifæri, því við erum komin lengst,“ segir Úlfar.

En það er ekki nóg.

„Ég held að flestir Íslendingar sem eiga ung börn vita að þau eru með mjög mikið af ensku efni, barnaefni og tölvuleikjum, sem þau eru alltaf að nota, þannig að enska umleikur ungu kynslóðina. Við sjáum börn allt niður í leikskólaaldur sem eru að nota ensku til að leika sér. Það er auðvitað slæmt, og hrikalegt ef svo fer fram sem horfir,“ segir Úlfar.

Sumir íslenskufræðingar hafa varað við því að íslenskan deyi út á stuttum tíma, ef ekkert verður að gert. Úlfar telur að máltækni í tölvum geti bjargað málinu. Innan fárra ára víki lyklaborð og takkar fyrir raddstýrðri tölvutækni.

„Sú tækni hefur tekið stórum framförum á seinustu þremur árum, og mun innan fárra ára vera til allstaðar. Og ef við náum að koma íslenskunni inn allstaðar, þá er engin ástæða fyrir börnin okkar að nota skjátölvur og hugbúnað á útlensku, heldur geta þau notað hugbúnað á íslensku,“ segir Úlfar.

Ötull hópur íslenskra fræðimanna hefur á undanförnum árum unnið að því að þróa og vekja athygli á íslenskri máltækni. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir 30 milljóna króna framlagi til máltæknisjóðs. Það er meira en bjartsýnustu máltæknifrömuðir bjuggust við. Á sama tíma er ráðgert að veita 944 milljónum króna til menningararfsins. Undir þann fjárlagalið falla Þjóðminjasafnið, húsafriðunarsjóður og skyldar stofnanir.

„Mér finnst þetta vera skrýtin forgangsröðun. Ef við ætlum að styðja okkar þjóðarmenningu og menningararf, þá þarf fyrst og fremst að tryggja að íslenskan lifi áfram. Við erum núna á þessu krítíska tímabili, og það sem við þurfum að ákveða í framtíðinni: munu íslendingar nota íslensku eða ensku í sínu daglega máli,“ segir Úlfar.

Fræðimennirnir hafa sett fram tíu ára aðgerðaráætlun til að þróa íslenska máltækni frekar, og áætla að heildarkostnaðurinn verði milljarður króna.

„Það sem að vantar herslumuninn er að nýta tækifærið sem við höfum með þessu forskoti og tryggja það að þegar þessi tækni verður til frá öllum fyrirtækjum, Amazon og Facebook og svoleiðis, að þá getum við talað við bílinn okkar á íslensku,“ segir Úlfar.

 

Mynd með færslu
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV