Að súpa sand, hland eða lúpínuseyði

Sif Sigmarsdóttir.


  • Prenta
  • Senda frétt

Sif Sigmarsdóttir sagði frá göróttum töfralausnum sem hún rakst á á leið sinni til heilbrigðara lífernis.

Við rjúfum þessa útsendingu til að flytja ykkur stórfréttir. Íslendingar hafa fundið lækningu við kvefi. Já, kvefi. Frá örófi alda hefur mannkynið reynt að vinna bug á þessum þráláta kvilla en ekki fyrr en íslenskt fyrirtæki tók að tappa alíslensku lúpínuseyði á flöskur og selja í ... Ha? Ó? Augnablik, kæru hlustendur. Ég er að fá nýjar upplýsingar hér í mónitorinn hjá mér. Ó. Ekki sannað? Órökstudd fullyrðing. Ég skil.

Afsakið, kæru hlustendur. Ég verð að draga þessa frétt til baka. Íslendingar hafa ekki fundið lækningu við kvefi. Enda ef sú væri raunin væri lúpínuseyðið líklega orðið heimsfrægara en Björk og Sigurrós samanlagt.

 Ódýrasta töfralausnin

Eins og aðrir Vesturlandabúar sem lifa við þann munað að hafa yfirborðslegar áhyggjur af holdafari og heilsu byrjaði ég árið á átaki. Fyrir jólin var tekið til í skápum og skúffum heimilisins, í tilefni nýs árs átti nú að rútta aðeins til í sjálfinu.

1. janúar var ég aginn uppmálaður. Burt með sykur, burt með hveiti, burt með pasta. Halló dítox, paleó og fasta. Það leið hins vegar ekki á löngu uns líkamlega tiltektin var farin að vera jafnleiðinleg og jólahreingerningin. Fyrir jólin faldi ég fullt af dóti undir rúmi til að flýta fyrir mér. Það hlaut að vera hægt að stytta sér leið með sama hætti að betra lífi.

Í fyrstu virtist sú og raunin. Það var enginn hörgull á tilboðum um töfralausnir á mishagstæðu verði. Sú ódýrasta blasti við mér í bresku morgunsjónvarpi um daginn. Þar mætti huggulegt, ungt par í myndverið til að tala um drykk sem þau drukku sér til heilsubótar á hverjum morgni. Það var hins vegar hvorki spínat-smoothie né grænt te. Heldur þvag. Eigið þvag. Sjónvarpsáhorfendur urðu þeirrar ánægju aðnjótandi að verða vitna að því er þau gæddu sér á morgundjúsnum, heimabrugguðum keytukokteil, úr vínglösum í beinni útsendingu sem þau kváðu allra meina bót.

Samtökin Sense about Science gera úttekt í lok hvers árs á þeim óvísindalegu dellum tengdum heilsu sem mest fór fyrir á árinu og tiltaka þar fræga fólkið sem tók þátt í að halda þeim á lofti. Fyrir árið 2013 var hins vegar engin úttekt gerð. Þökk sé almannatenglum fræga fólksins, sem áttuðu sig loks á að upplýsingaöld gekk í garð fyrir þremur öldum, gerðu stjörnurnar lítið af því árið 2013 að flagga vísindalega vafasömum aðferðum til heilsubóta. Í staðinn voru rifjuð upp helstu afbrot síðustu ára. Þar var söngkonan Cheryl Cole skömmuð fyrir að vera talsmaður mataræðis sem byggt er á blóðflokkum, Naomi Campbell fyrir að flagga „dítox“ lífsstílnum og verðandi drottning Breta, Kate Middleton, fyrir að bera sílikon armband sem hún trúir að auki almennt hreysti.

Ég fékk því engan innblástur hjá fræga fólkinu í útlöndum um hvernig ég ætti að stytta mér leið að heilsusamlegra lífi. Íslenskar stjörnur virðast hins vegar ekki hafa fengið memmóið um upplýsinguna. Hinn ágæti sjónvarpskokkur og heilsustirni Ebba Guðný Guðmundsdóttir lýsti því yfir í viðtali í upphafi mánaðarins að hún drykki kísil sér til heilsubótar. Ég var við það að hlaupa út í búð og kaupa mér kísilinn sem að sögn Ebbu Guðnýjar er „svolítið eins og að drekka sand“ þegar ég rakst á viðtal við Ingibjörgu Gunnarsdóttur, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, í tilefni Læknadaga sem haldnir voru í síðustu viku. Hún sagði:

 Mataræði þarf ekki að vera flókið og þeir sem eru að flækja það eru þeir sem eru að selja ákveðnar vörur. ... Við erum alltaf að reyna að viðhalda vitleysunni með því að reyna að gera hana aðeins skynsamlegri, t.d velta fyrir okkur hvort við eigum að nota agave-síróp eða hvítan sykur þótt einfaldast væri að drekka minna af gosi og borða minna af kexi og kökum. Bara minnka skammtinn og njóta. Það er alltaf verið að reyna að plokka næringarefnin úr matnum og selja í duft- og bætiefnaformi og koma því inn hjá fólki að það fái ekki næringarefnin úr matnum en það er svo auðvelt fyrir okkur á Íslandi að sækja þetta í venjulegum mat.

 Við hliðina á viðtalinu sem birtist á vefmiðlinum mbl.is mátti sjá auglýsingu fyrir súkkulaði próteinstangir.

 Sölumenn snákaolíu

Þegar ég var unglingur fór ég stundum með öldruðum konum í fjölskyldunni að sækja lúpínuseyði til manns sem bruggaði það heima hjá sér og gaf. Drykkurinn átti að vera – eins og hlandið í breska morgunsjónvarpinu – allra meina bót. Lúpínuseyði þetta hafði ég talið löngu horfið af sjónarsviðinu þegar það blasti skyndilega við mér í auglýsingu á öðrum vefmiðli, í nýjum umbúðum, ásamt fullyrðingunni: „Gegn umgangspestum.“

Janúar er mánuður gylliboða. Í janúar fara sölumenn snákaolíu á stúfana til að nýta sér örvæntingu okkar sem lofuðum sjálfum okkur betrun en erum við það að springa á limminu. Þvag, kísill, próteinstangir og lúpínuseyði. Vísindaleg rök skortir algjörlega fyrir gagnsemi þessa heilsuvarnings. Að drekka þvag getur verið hættulegt. Líka að drekka kísil. Próteinstangir eru bara nammi og lúpínuseyði er djús en ekki lyf gegn kvefi. Nú þegar janúar er að líða undir lok er tími til kominn að skella hurðinni á snákaolíu sölumanninn. Gerum orð næringarfræðingsins Ingibjargar Gunnarsdóttur að undirstöðu heilsuátaks febrúar mánaðar: „Mataræði þarf ekki að vera flókið og þeir sem eru að flækja það eru þeir sem eru að selja ákveðnar vörur.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku