Rokkstjarna í Lions-heiminum

Guðrún Björt Yngvadóttir hefur verið í Lions í 25 ár. Hún býr í Garðabæ og starfaði lengi á rannsóknastofu sem lífeindafræðingur en síðan hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Hún vill helst ekki gefa upp hvað hún er gömul. Segist hafa orðið 39 ára og tekið ákvörðun um að halda ekki upp á fleiri afmæli, þótt síðan séu liðin mörg ár.

Á síðustu árum fór hún að vera virkari í alþjóðastarfi Lions-hreyfingarinnar og nú hefur það aldeilis undið upp á sig. Hún gegnir orðið æðsta embætti hreyfingarinnar. Þar með er hún í forsvari fyrir einnar komma fjögurra milljóna manna samtök í yfir 200 löndum.

Guðrún Björt Yngvadóttir, alþjóðaforseti Lions-hreyfingarinnar (Mynd: Arnar Þórisson)

„Það sem hefur komið mér kannski mest á óvart er hvað þetta kjör mitt í þetta embætti hefur opnað margar dyr, segir Guðrún og heldur áfram: „Ég átti eiginlega ekki von á því. Að vera íslenskur, þá skiptir það ekki svo miklu máli hvort maður er karl eða kona en úti í heimi þá vekur það rosalega mikla athygli.“

Fagnað eins og rokkstjörnu

Í júní í fyrra lögðu fimmtán þúsund manns hvaðanæva að úr heiminum leið sína til Las Vegas í Bandaríkjunum, fylltu þar stærðarinnar ráðstefnuhöll og börðu þar augum nýjan leiðtoga samtakanna sem þau tilheyra. Þótt bróðurpartur Íslendinga hafi kannski ekki endilega heyrt á hana minnst þá hefur þetta fólk svo sannarlega gert það. Guðrún er fyrsta konan í hundrað ára sögu Lions-hreyfingarinnar, sem gegnir embætti forseta.

Myndataka á ráðstefnunni (Mynd: Arnar Þórisson)

Það er engu líkara en að Guðrún Björt sé eins og einhvers konar rokkstjarna í augum sumra ráðstefnugesta. Göngutúr eftir einum gangi ráðstefnuhallarinnar tekur hátt í hálftíma. Guðrún er stöðvuð í hverju spori. Við kvöldverð seinna á þinginu myndaðist ekki ósvipuð stemmning.

„Það er lína hérna í gegnum allan salinn sem er að bíða eftir því að komast til hennar og fá mynd af sér með henni,“ segir Kristín Þorfinnsdóttir, Lions-kona frá Akureyri.

Skrýtin veröld

„Ég hafði kannski þá hugmynd í hausnum eins og margir Íslendingar, að Lions-klúbbar væru bara eitthvað sambærilegt því sem við sáum í Stellu í orlofi, þar sem Lions-klúbburinn Kiddi fór á kostum,“ segir Jón Trausti Kárason, tengdasonur Guðrúnar. Þegar hann er beðinn að útskýra hvað Lions-samtökin séu svarar hann því til að líklega séu það samtök fólks sem sé í forréttindastöðu en nýti sér hana til að hjálpa þeim sem minna mega sín. „Það myndi ég segja að í rauninni væri kjarni Lions-samtakanna eins og ég skil þau.“

Þátttakandi á Lions-þinginu heilsar Guðrúnu (Mynd: Arnar Þórisson)

Þetta er hreinlega eins og að stíga inn í einhvers konar hliðarveröld að verða vitni að því sem fram fer á Lions-þinginu í Vegas og hvernig látið er í kringum Guðrúnu þar. „Ég gæti verið fráhrindandi og sloppið við þetta en ég er ekki í þessu til þess,“ segir Guðrún. „Ég er hér til að gefa af mér og hvetja og hlusta á fólk. Til þess er ég að þessu.“

Hvorki Guðrún né Jón Bjarni, maðurinn hennar, fá laun fyrir vinnuna sína. Lions-samtökin eru sjálfboðaliðasamtök og það gildir líka um toppana. Ferðalög og uppihald eru greidd en þau þurfa sjálf að standa straum af ýmsum kostnaði.

Guðrún viðurkennir að ævintýrið hafi reyndar orðið aðeins dýrara en þau töldu í fyrstu. Hún hafi oft spurt sjálfa sig að því hvort hún hefði nokkurn tímann lagt af stað ef hún hefði vitað hversu mikið álag myndi fylgja og hversu hár kostnaðurinn yrði. „En tíminn er náttúrulega miklu dýrmætari en peningar í sjálfu sér,“ bætir hún við.

Myndataka með hópi ráðstefnugesta (Mynd: Arnar Þórisson)

Þá á hún kannski ekki síst við tímann sem fer forgörðum. Stundirnar sem hún og maðurinn hennar missa af með fjölskyldu og vinum heima á Íslandi á meðan þau eru á flakki.

Man stundum ekki hvar í heiminum hún er

Guðrún er manngerðin sem slær aldrei slöku við. Hún viðurkennir að hafa lent í þessu forsetastússi fyrir rælni. Það séu örlög þeirra sem vinna verkin sín vel að vera sífellt falin önnur og stærri.

Eitt af aðalhlutverkum alþjóðaforsetans er að heimsækja sem flest af 210 Lions-löndunum.

„Það er nú þannig að við lifum eiginlega bara í ferðatösku,“ segir Jón Bjarni Þorsteinsson, eiginmaður Guðrúnar. „Það hefur komið stundum fyrir að við höfum lent að morgni klukkan 6 frá Bandaríkjunum og verið farin aftur klukkan fjögur til Evrópu.“

Í Himalaya (Mynd úr einkasafni)

„Ég er eiginlega alveg búin að gleyma hvar þau eru hverju sinni,“ segir Ingibjörg Hanna, dóttir Guðrúnar og Jóns Bjarna. Hún segir að það sé bara tilviljun ef hún muni hvar þau séu þegar hún er spurð. „Af því að þau eru kannski bara þrjá daga á hverjum stað.“

Guðrún viðurkennir að ferðalögin eigi það til að renna saman í kollinum á henni. „Maður veit ekki einu sinni á hvaða hóteli maður er, hvaða hæð eða hvaða herbergi,“ segir hún hlæjandi og segist stundum þurfa að hugsa sig um áður en hún byrji ræður, því stundum muni hún varla í hvaða landi hún sé.

„Svo er maður spurður; ertu ekki þreytt? Nei nei, ekkert þreytt. Alltaf að leika hlutverk,“ segir hún. „Alveg sama hvernig liggur á manni og hvort sem maður er þreyttur eða ekki.“

Mikilvægt að gefa af sjálfum sér

Þegar hún er spurð að því hvort það hafi aldrei hvarflað að henni að halla sér bara aftur og hvíla sig svarar hún: „Jú, það var eiginlega planið sko. Við erum með sumarbústað, við ætluðum að eyða miklu meiri tíma þar. Og slaka á með fjölskyldunni. Það var planið, mér fannst ég vera búin að gera meira en nóg.“

En hvað varð þá til þess að hún ákvað að taka þennan slag, komin á eftirlaunaaldur?

Guðrún í Nepal (Mynd: Úr einkasafni)

Hún svarar því til að henni finnst mjög mikilvægt að gefa af sjálfum sér. „Ekki bara að hugsa um eigin þarfir og mitt heimili og minn bíl. Heldur gera eitthvað sem skiptir máli á heimsvísu, mér fannst það mjög gott.“

Guðrún segir að til að byrja með hafi sumir haft efasemdir um að hún gæti náð kjöri. „Þeir sögðu bara; „Lions er svo gamaldags hreyfing, þeir munu ekki samþykkja konu.“ Þeir bara héldu það sumir frambjóðendurnir. En það var bara ekki rétt.“