Greitt fyrir verndun lands

Umhverfisráðherra segir koma til greina að greiða bændum fyrir vörslu verndaðs lands. Forstjóri Umhverfisstofnunar telur það geta liðkað mjög fyrir friðlýsingum.

Einungis örfá þeirra nærri fimmtíu svæða sem Alþingi hefur samþykkt að friðlýsa síðasta einn og hálfan áratug, hafa komist í þann flokk. Umhverfisstofnun á að sjá um að framfylgja þessum vilja Alþingis, en hefur orðið lítið ágengt.

„Við borgum til dæmis bændum fjármagn fyrir það að framleiða kjöt. Af hverju getum við ekki borgað bændum fyrir það að vernda náttúru landsins?“ spyr Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

„Vegna þess að þessi gamli stíll sem er að rétta fólki kaffibollann og setjast niður og hvort menn vilji ekki hlusta á þig og séu sáttir við það að þeir taki að sér ákveðnar skyldur út frá almenningshagsmunum. Þetta bara hefur ekki komið okkur mjög langt áfram.“

Ráðherra málaflokksins er jákvæður fyrir því.

„Ég tel að það komi algerlega til greina að gera þetta. Við erum að fara í verkefni með Bændasamtökum Íslands þar sem við erum að vinna greiningu á því hvaða tækifæri felast í því fyrir bændur að geta orðið meira svona vörslumenn lands. Það getur snúist um það að hjálpa til við að endurheimta votlendi og síðan að passa upp á það,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

„Þegar ég segi passa upp á það, þá geta það verið alls konar tækifæri sem felast í þessu, í náttúrutengdri ferðaþjónustu og þar fram eftir götunum. Því oft á tíðum eru það bændur, og ég segi þetta ekki bara af því að ég er bóndasonur, sem hafa mikið næmi fyrir náttúrunni í kringum sig.“

Í nýjum náttúruverndarlögum er ákvæði þessa efnis, en því hefur ekki verið beitt, enda lítið verið friðlýst frá því að þau tóku gildi 2015. Þar segir: „Umhverfisstofnun er heimilt að semja við landeiganda, rétthafa lands eða lögaðila um að hann taki þátt í umönnun friðlýsts svæðis með því að annast þar tilteknar aðgerðir gegn þóknun.“

Nánar verður fjallað um hægagang í friðlýsingamálum í Kveik í kvöld kl. 20:00.