RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Viltu gera Skaupið?

Mynd með færslu
RÚV er fjölmiðill í almannaþjónustu með það hlutverk að vekja, virkja og efla. Hjá RÚV starfar öflugur og samhentur hópur sem segir mikilvægar sögur úr umhverfi okkar, rýnir samfélagið á gagnrýninn hátt og þróar nýjar leiðir til frásagnar.

Ný stefna RÚV til 2021 hefur nú verið opinberuð og er aðgengileg á vef okkar, RUV.is/2021. Í nýrri stefnu er m.a. lagt upp með að auka samtal og samvinnu við sjálfstæða framleiðendur og listamenn í landinu.

Viltu gera Skaupið?

RÚV leitar að réttu aðilunum til að taka að sér framleiðslu  ÁRAMÓTASKAUPSINS 2017 og kallar eftir tillögum.

Áramótaskaupið hefur verið ómissandi liður í hátíðahöldum landsmanna á áramótum um áratugaskeið. Það hefur jafnan verið eitt allra vinsælasta sjónvarpsefni landsins og mikið til umræðu meðal landsmanna. RÚV hefur metnað fyrir því að að bjóða upp á Skaup sem gleður sem flesta landsmenn og varpar spaugilegu ljósi á atburði ársins, tíðaranda, persónur og leikendur í þjóðmálaumræðunni.

Innsendar tillögur þurfa að innihalda eftirfarandi:

Heildræna sýn á verkefnið; á aðferð, innihald og nálgun við framleiðslu.

Ítarlega lýsingu á efnistökum og nálgun í handriti.

Útfærsla á umgjörð, heildarsvip, uppbyggingu eða sérstöku þema.

Meginlínur í mönnun og/eða tillögur að helstu aðstandendum; leikstjóra, handritshöfundi og helstu leikurum.

Helstu forsendur við gerð Skaupsins:

Gerð er krafa um framúrskarandi gæði og hugmyndaauðgi.

Gert er ráð fyrir að Skaupið verði 45-60 mínútur að lengd.

Innihald skal að fullu vera í samræmi við gildandi lög og reglur um efni sem sýnt er á RÚV.

RÚV gerir kröfu um að framleiðandi fari eftir leikarasamningum RÚV við FÍL við framleiðslu efnisins

Farið verður fram á reglulegt samtal við dagskrárstjóra og aðkomu hans að lykilákvörðunum sem snerta framleiðsluna, þ.m.t. samþykkt handrits, mönnunar og á endanlegu klippi.

Meginlínum ber að skila klipptum eigi síðar en 15. desember en Skaupinu skal skila fullkláruðu til útsendingar eigi síðar en 28. desember.

RÚV greiðir framleiðanda 30 m. kr. til að standa straum af kostnaði við framleiðslu verksins en framleiðslusamningur milli aðila felur í sér nánari útfærslu og önnur atriði er varða framleiðsluna og skyldur framleiðanda og seljanda.

Umsóknarfrestur er til og með 12. júní 2017.

Upplýsingar um verkefnið veitir dagskrárstjóri sjónvarps, Skarphéðinn Guðmundsson skarpi@ruv.is, sími 515 3000.

Umsóknum er skilað rafrænt á www.ruv.is/Skaup17

RÚV vekur að auki athygli framleiðenda og kvikmyndagerðafólks á því að í haust verður fyrsta Hugmyndatorg RÚV haldið, þar sem RÚV kallar markvisst eftir tillögum að dagskrárefni og tilboðum frá sjálfstæðum framleiðendum. Er þetta gert að fyrirmynd svokallaðra „pitch-daga” erlendis.  Fylgist með!