RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Söngvakeppnin 2017 nálgast

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson / Sævar J  -  RÚV
Tólf lög voru valin til þátttöku í Söngvakeppninni 2017. Rúmlega 200 lög bárust í keppnina sem verður með svipuðu sniði og í fyrra. Stórskotalið úr íslensku tónlistarsenunni í bland við spennandi nýstirni flytja lögin tólf í ár.

Þau voru kynnt með stuttum innslögum á RÚV þann 20. janúar, sem sjá má hér.

Undanúrslitin fara fram í Háskólabíói, laugardagana 25. febrúar og 4. mars og úrslitakvöldið verður haldið með pompi og prakt í Laugardalshöll 11. mars. Keppnirnar þrjár verða sýndar í beinni útsendingu á RÚV. Sigurlag Söngvakeppninnar verður framlag Íslands í Eurovision í ár, sem haldin verður í Kiev í Úkraínu dagana 9., 11. og 13. maí. Fulltrúi Íslands stígur á stóra sviðið í Kænugarði þann 9. maí, í fyrri undanúrslitum. Svíþjóð og Finnland lentu í sama riðli og Ísland.

Lögin verða flutt á íslensku í undanúrslitum hér heima, sex lög keppa hvort kvöld. Þau þrjú lög sem hljóta flest atkvæði í símakosningu hvort undankvöld tryggja sér sæti í úrslitum. Því keppa sex lög til úrslita í Söngvakeppninni í Laugardalshöll 11. mars. Framkvæmdastjórn keppninnar hefur þó heimild til að senda eitt lag til viðbótar áfram ef svo ber undir.

Miðasala á Söngvakeppnina 2017 hófst fyrr í vikunni á tix.is. Hægt er að kaupa miða á staka viðburði en einnig er í boði sérstakur tilboðspakki, Alla leið pakkinn , sem gildir á öll þrjú kvöldin. Mikið verður um dýrðir á þessum þremur viðburðum sem fara fram í Háskólabíói og Laugardalshöll en þar upplifa áhorfendur hina sönnu Söngvakeppnistemningu og fá keppnina beint í æð. Skemmtiatriði verða á öllum viðburðunum. Gunni, Felix o.fl. hita áhorfendur upp og landsfrægir tónlistarmenn stíga á svið.

Sigurvegari Eurovision söngvakeppninnar 2015, hinn sænski Måns Zelmerlöw kemur fram á úrslitakeppninni 11. mars. Måns Zelmerlöw sigraði Eurovision söngvakeppnina 2015 með laginu Heroes, en lagið fékk þar m.a. 12 stig frá íslenskum almenningi. Hann sló svo í gegn sem kynnir keppninnar sem haldin var í Stokkhólmi í fyrra.

Hægt er að fylgjast með framgangi keppninnar og hlusta á íslenskar og enskar útgáfur laganna hér á, www.ruv.is/songvakeppnin.

 

03.02.2017 kl.11:01
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Eurovision, Í umræðunni, Söngvakeppnin, Söngvakeppnin 2017