RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Ragnhildur Steinunn og Viktoría gera heimildarþætti um samfélagsmiðla

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnhildur Steinunn og Viktoría Hermannsdóttir hafa undanfarna mánuði undirbúið sjónvarpsþætti um samfélagsmiðla. Í þáttunum skoða þær allar hliðar samfélagsmiðla sem skipa stóran sess í lífi margra.

Í þáttunum verður meðal annars fylgst með helstu samfélagsmiðlastjörnum landsins og rætt við sérfræðinga á þessu sviði. RÚV framleiðir þættina sem sýndir verða síðar í vetur.

Viktoría Hermannsdóttir hefur starfað við fjölmiðla í fjöldamörg ár og komið að flestum tegundum fjölmiðlunar svo sem sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum og netmiðlum. Hún vann lengi á DV og á Fréttablaðinu m.a. sem ritstjóri helgarblaðsins. Viktoría gerði þáttaröðina Ástandsbörnin fyrir Rás 1 og hefur tvisvar verið tilnefnd til blaðamannaverðlauna Íslands fyrir umfjöllun um menntun innflytjenda, mansal og fyrir áhugaverð viðtöl .

Ragnhildur Steinunn hefur unnið við dagskrárgerð fyrir RÚV til fjölda ára. Hún framleiddi og leikstýrði heimildarmyndinni „Hrafnhildur - heimildamynd um kynleiðréttingu“ og hlaut myndin Edduverðlaunin 2013. Heimildarmynd hennar „Ég gafst ekki upp“ var einnig tilnefnd til Edduverðlaunanna 2014. Í vor gaf Ragnhildur út bókina Forystuþjóð sem varpar ljósi á stöðu kynjanna árið 2017. Ragnhildur situr í framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar og hefur umsjón með dagskrágerð keppninnar.

Samfélagsmiðlastjörnurnar Sólrún Diego, Aron Mola og Guðrún Veiga eru meðal þeirra sem fylgst er með í þáttunum.