RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Laugardagsmorgnar á Rás 2

Mynd með færslu
Laugardaginn 7. janúar hófst nýr morgunþáttur á Rás 2, Laugardagsmorgnar.

Umsjónarmenn þáttarins eru Kolbrún Björnsdóttir, fjölmiðlakona og stjórnmálafræðingur sem starfaði um árabil á Bylgjunni, Gunnar Hansson, leikari og leikstjóri sem hefur verið tíður gestastjórnandi á Rás 2 og svo Felix Bergsson, fjölmiðlamaður, leikari og söngvari sem hefur stýrt þættinum Bergsson og Blöndal með Margréti Blöndal síðan 2009.

Laugardagsmorgnar er morgunþáttur á ljúfu nótunum þar sem rætt verður um dægurmál, samfélagsmál og umhverfismál svo eitthvað sé nefnt og fengin hagnýt ráð hjá t.d. fagfólki, sem snúa að daglegu lífi og öllu milli himins og jarðar.  Auk þess verður skoðuð hin hliðin á þekktu fólki og fréttagetraunin verður á sínum stað. Laugardagsmorgnar verða á dagskrá á laugardögum kl. 9:00-12:20.

Bergsson og Blöndal, í umsjón Felix Bergssonar og Margrétar Blöndal, kvaddi hlustendur á síðasta degi ársins 2016.  Þátturinn  var fyrst sendur út haustið 2009 og hafði því verið rúmlega sjö ár á dagskrá Rásar 2 þegar hann kvaddi 31. desember.