RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Hlutfall verktaka hjá RÚV hefur verið óbreytt um árabil

Í tilefni fréttar í Fréttablaðinu í morgun vill Ríkisútvarpið taka fram: Fjöldi verktaka og kostnaður við verktaka í starfsemi RÚV hefur verið mjög stöðugur um árabil og hefur ekki aukist á undanförnum árum.

Á síðustu árum hefur mikið verið skorið niður í starfsemi RÚV til að mæta lækkun útvarpsgjalds sem hefur leitt til þess að stöðugildum hjá RÚV hefur fækkað úr 324 árið 2008 niður í 258 árið 2016 en hlutfall kostnaðar við verktaka sem hlutfall af heildarlaunakostnaði hefur verið stöðugur eða um 25%. Þetta, ásamt öðrum aðgerðum, hefur leitt til þess að jafnvægi er komið á í rekstrinum sem hefur verið hallalaus frá árinu 2014.
Ummæli þingmannsins Kolbeins Óttarssonar Proppe í blaðinu í morgun eiga því ekki við rök að styðjast þegar hann segir: „Maður hefur heyrt það að verktakar séu í auknum mæli að sinna starfinu og ekki bara að taka þátt og þátt, heldur séu að sinna fullri starfsskyldu en séu ekki fastráðnir starfsmenn heldur verktakar.“ 

Það skal jafnfram tekið fram að RÚV svaraði fyrirspurn frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu innan tilskilins frests vegna ítarlegrar fyrirspurnar alþingismannsins en svar RÚV barst ráðuneytinu þann 11. apríl sl. Síðar óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum og RÚV hefur fengið staðfest að ráðuneytið hafi sent formlegt svar til Alþingis í gær, 31. maí.

Verktakar eru ráðnir í stök verkefni hjá RÚV, eins og flestum fyrirtækjum og stofnunum en verkefni þeirra eru afar mismunandi, allt frá því að koma fram í eitt skipti upp í að vinna tiltekin verkefni um nokkurra mánaða skeið. Miðað er við að verktakar vinni við verkefni sem ekki er hægt að skipuleggja í ráðningarhæft form, eins og t.d. fastar, fyrirfram skipulagðar vaktir eða dagvinnu.

 

01.06.2017 kl.13:08
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni